Jólaljósabarnið

Af hverju er verið að selja manni firnafínar seríur og aukaperur með og allt ef þær lifa ekki af að vera í geymslunni milli jóla?

Jólaljósabarnið er stúrið.

#dæs


Þegar mér er komið á óvart ...

Skemmtilegast í heimi finnst mér þegar mér er komið (skemmtilega) á óvart. Stundum geri ég það sjálf með því að geta eitthvað sem ég hélt að ég gæti ekki. Það er sossum frekar erfitt því að ég er í eðli mínu svo kokhraust að ég held að ég geti allt.

Dæmi um óvænt afrek eða önnur lífsins gæði gæti verið frábær frammistaða í hlaupi. Á laugardaginn ætla ég að hlaupa mitt sjötta 10 kílómetra hlaup (með tímamælingu) á árinu. Því miður er ég enn fullhæg en ef ég hlypi undir klukkutíma kæmi ég mér skemmtilega á óvart. Ég er nýbyrjuð að æfa (ómarkvisst).

Annað dæmi er ef mér tekst vel upp með nýja matseld. Vá, hvað það er gaman að dekra við bragðlaukana. Ég man enn þegar vinkona mín ein bauð mér upp á kulottesteg og sama vinkona kynnti mig fyrir engiferrótinni á sínum tíma. Í eina tíð kunni ég ekki að meta sushi en ég yfirvann það og nú finnst mér það herramannsmatur. Varð hissa einhvers staðar í ferlinu.

Nú nálgast jólin. Ég man þegar ein (nú fyrrverandi) vinkona mín hringdi í mig og sagði: Berglind, ég er að skrifa jólakortin og einmitt núna kortið til þín. Næsta kvöld hringdi hún líka og sagðist vera búin að póstleggja það. Og þú getur rétt ímyndað þér hvað hún sagði þriðja kvöldið.

Þetta var fyrir löngu síðan og við þekkjumst ekki lengur.

Jamm, og þessi hlýi, bjarti og notalegi nóvember kom sannarlega aftan að mér og gladdi mig óhemjumikið.

 


Kristina Ohlsson

Ég hef stundum samviskubit yfir að lesa krimma. Er það ekki tímasóun? Á ég ekki frekar að lesa fræðibækur? Ævisögur? Alice Munroe, Þórberg Þórðarson og Samuel Beckett? Bækur um tónlist? Hlusta á tónlist? En sumir krimmar eru mikil samfélagsstúdía og vísa langt út fyrir söguefnið sem stundum er líka skelfilegt og grimmdarlegt.

Utangarðsbörn, fyrsta bók Kristinu Ohlsson, réttlætir allan lestur. Ég las fyrst þriðju bókina þar sem Fredrika, Peder og Alex koma við sögu og varð mér svo úti um fyrstu bókina. Við lestur þeirrar bókar vissi ég heilmikið um afdrif persónanna síðar á ævinni en það kom ekki að sök. Þau eru öll skýrt teiknaðar persónur, mennsk, breysk, gagnrýnin, gagnrýnisverð - eins og flest fólk. Þau hafa öll sína djöfla að draga en eru ekki endilega fráskilin og með áfengisvandamál eins og óskaplega margt löggufólk fyrr og síðar, heima og heiman.

Fredrika kemur ný inn í lögguna og er á reynslutíma. Henni finnst hún vanmetin, misskilin og eiginlega of góð til að sinna þessu. Hún er með skýra rökhugsun, dálítið ferköntuð, ansi akademísk enda háskólagengin. Alex og Peder eru reynsluboltar með mikið innsæi, búa yfir mikilli vinnugleði og skýrri löngun til að upplýsa glæpina. Þeir láta undir höfuð leggjast að kynna „sérfræðinga“ með nafni og eru dálítið á þeirri línu að ekkert lærist nema af reynslunni - eins og þeir hafa aflað sér í starfi. Þau hugsa hvert öðru þegjandi þörfina en verða þegar á líður að viðurkenna að samlegðaráhrifin virka. Og saman ná þau árangri.

Ég gat svooooooooooooo auðveldlega sett mig í þessi hrokafullu spor og verð að gjöra svo vel að hugsa sumt í mínu eigin daglega atferli upp á nýtt. Er byrjuð.

Kristina kemur sjálf úr háskólaumhverfinu og vinnur (vann?) sem öryggisráðgjafi hjá sænska ríkislögreglustjóraembættinu. Ég gef mér að hún hafi séð í návígi báðar hliðarnar sem hún lýsir hvað mest.

Ég er þegar búin að ná mér í Baldursbrár og hlakka til að læra meira um mannlegt eðli sænskra.

Þýðingin, ekki hægt að minnast ekki á hana, er svo góð að mig rak í rogastans þegar ég sá dæmi um ofvöndun. Alveg eins og við erum ÁHYGGJUfull þegar svo vill verkast er SVEFNHERBERGISgangur í sumum íbúðum.

 

 svefnhergjaganginn?


Mið-Ísland með puttann á púlsinum

Í gær var á Stöð 2 síðasti þátturinn af átta með Mið-Íslandi og ég sá hann fyrir tilviljun. Dóri DNA var svarthvítur og ég hélt að þátturinn væri gamall. Ókei, ekki samhengi þarna á milli, en Dóri VAR svarthvítur þótt umhverfið væri í lit og átti að endurspegla tíma Jóns Sigurðssonar og þess vegna hélt ég að þátturinn væri kannski þriggja ára. En ónei, Bergur Ebbi var veðurfréttamaður sem benti á hið augljósa, að vegna hraunflóðs væri bara byggilegt á örfáum stöðum á landinu og bráðum ekki lengur.

Og ég áttaði mig á því að ég hef verið fullkomlega andvaralaus gagnvart eldgosinu fyrir austan, hættunni sem af því gæti stafað, breytingunum sem það getur valdið til frambúðar og svo framtíðarhorfum sjálfrar mín og annarra íbúa landsins.

Það er ekki eins og hvergi sé talað um gos og mengun. Ég er í skokkhópi sem varpar fram þeirri spurningu af og til hvort vert sé að æfa úti vegna áhrifa á öndunarfæri. Og ég verð eitt risastórt spurningarmerki. Steinsofandi fyrir hættunum. Magnús Tumi er stundum í fréttunum og Kristján Már oft, lærðir veðurfréttamenn og netið - og allt - ég hef enga afsökun.

Kannski þarf bara listamenn til að hrista úr mér doðann. Og Mið-Ísland kann það sannarlega. 


Hnóhnikast

Getur einhver látið Orðbragð frétta af áhuga mínum á lítt notuðum orðum?

#djók


Orðbragð - abððgorr - rotinpúrulegur

Óskaplega er Orðbragð skemmtilegur þáttur.

Þau Brynja og Bragi tala þráðbeint upp í eyrun á mér en ég held að eiginlega allir hafi gaman af þættinum, orðbragðinu sjálfu, myndmálinu, grafíkinni og leiknum.

Í þætti kvöldsins fannst mér samt ömmumæðginin ekki ráða við leikinn. Þegar barnabarnið fór að tala um að „slumma“ sá ég að samtalið var ekki sjálfsprottið og það fannst mér verra. Samt er amman leikari.

En Guðrún Kvaran sýndi meistarataktra og nú get ég ekki annað en velt fyrir mér hversu mörg af 615.000 orðunum ég þekki ekki ...

Uppáhaldsorðið mitt um þessar mundir er rotinpúrulegur sem kemur mér á óvart því að uppáhaldsorðin mín byrja yfirleitt á g: grámata, glæpnepja, gonaralegur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband