Maður ársins 2014

Í mínum huga er Steinunn Rósa Einarsdóttir ótvírætt maður ársins 2014 þótt margir aðrir góðir séu kallaðir til eins og björgunarsveitir og læknar, ekki síst Tómas Guðbjartsson sem var með hjartað í lúkunum. Það sem gerir Steinunni Rósu Einarsdóttur einstaka - ég þekki hana ekki neitt og varð að hafa fyrir að finna nafnið hennar - er að hún steig fram eftir að sonur hennar, 18 ára líffæragjafi, dó í bílslysi í janúar og talaði eindregið fyrir ætluðu samþykki til líffæragjafar ef maður deyr sviplega. Ég hef lengi verið áhugamaður um svona líffæragjafir og skrifaði strax daginn eftir að hann gaf líffæri sín - og sem sagt oft bæði fyrr og síðar.

RÚV hjálpaði mér ekki við leitina að nafninu með yfirliti yfir árið í tímaröð. Þessa viðburðar er ekki getið þar enda erfitt að henda reiður á öllu. Ég fann hana samt.

Dálítið þegjandi og hljóðalaust komst ætlaða samþykkið síðan á koppinn með haustinu. Þeim mun fleiri sem skrá sig, þeim mun fleiri líf verður hægt að framlengja. Það er mikil sorg þegar fólk deyr í blóma lífsins en þá er það huggun að geta gert öðrum gott.

Þess vegna vel ég Steinunni mann ársins. Gjörð hennar verður ekki endurtekin.


Veiði Thomasar Vinterbergs

Ég náði því að Lucasi í Veiðinni hætti til að láta vaða yfir sig. Ég veit líka að Jagten er verðlaunamynd og mér fannst hún mögnuð. Þegar ég horfi á bíómynd í sófanum mínum geri ég fullmikið af einhverju öðru en að horfa á myndina, annað en þegar ég fer í bíó, en ég fylgdist með þessari af einbeittum áhorfsvilja og þrátt fyrir áhrifamikla mynd er ég enn, daginn eftir að ég horfði á hana í sjónvarpinu mínu, að berjast við tilfinninguna að Lucas hafi ekki sagt nóg. Það er handrits- og leikstjórnaratriði, ég næ því líka. Samt ...

Fólk er dómhart og fljótt að gefa sér hlutina en er það í alvörunni svona slæmt? Ég er að reyna að setja mig í spor þess sem grunar einhvern um að hafa gert barninu sínu - eða barni nágrannans og öllum börnum leikskólans - illt og á ofsalega erfitt með að trúa því að maður sem maður hefur þekkt alla ævi fái alls ekki að njóta vafans. Eru þessi ofsafengnu viðbrögð viðbragð við fortíðinni þegar fólk VISSI en gerði samt ekki neitt? 

En mikið rosalega er Annika Wedderkopp (Klara) frábær leikari, eða frábært leikaraefni og Thomas Vinterberg auðvitað fær leikstjóri. Ég trúi ekki að viðtalssenurnar sem hún var í hafi verið teknar neitt í líkingu við útkomuna.  

Sekt eða sakleysi er auðvitað hrikalega stórt álitamál og um það er myndin. Við áhorfendur þurfum að velta fyrir okkur hvort við viljum setjast í dómarasætin.


Philomena

Einhver var búinn að segja mér að Philomena væri góð mynd, man ekki hver og mundi heldur ekki að hún væri í sjónvarpinu í kvöld. En ég horfði og tek undir með þessum óþekkta aðdáanda. Ekki aðeins er söguefnið átakanlegt heldur er leikurinn svo góður að ég trúði í hvert skipti að þau væru að hugsa það sem þau sögðu. Og Philomena sjálf (Judi Dench) var svo skemmtilega þversagnakennd manneskja, fjandi guðrækin og tilbúin að fyrirgefa, uppfull af ástarsögunum (eins og hún upplifði sjálf sáralítið) og trúgjörn, m.a. á hið góða og saklausa í mannkindinni, en samt svo beitt meðfram að hún lét ekki ráðskast með sig. Og blaðamaðurinn brottrekni (Steve Coogan), réttsýnn og með sterka réttlætiskennd, samt maður málamiðlana og samstarfsfús. 

Eini augljósi gallinn var ferðalagið sjálft, hvernig það kom til, hver ætlaði að borga, allar breytingarnar og að þeim skyldi ekki strax, umsvifalaust og á nóinu detta í hug að leita uppi þá sem þekktu soninn þótt hann væri sjálfur burtkallaður.

Þessari kvöldstund var vel varið með Philomenu í ríkissjónvarpi allra landsmanna.


Hetja Sumarhúsa

Ég var svo heppin að fá að sjá Sjálfstætt fólk á þéttu og góðu rennsli í dag. Ég var dálítið tortryggin áður en sýningin byrjaði þar sem ég held að ég sé eini leikhúsgesturinn 2013 sem kunni ekki að meta Engla alheimsins. Áhyggjur mínar voru óþarfar (en ábyggilega hjálpaði það mér að sitja á 4. bekk frekar en 24.), ég skemmti mér konunglega. Þegar ég skemmti mér konunglega þarf ég ekki að hlæja óslitið í tvær og hálfa klukkustund en ég hló oft og mikið og táraðist líka stundum. 

„Allir“ þekkja söguna af Guðbjarti Jónssyni sem lagði allt upp úr sjálfstæði sínu og sinna. Ég veit um nokkur eintök af Sjálfstæðu fólki sem hafa fengið reisupassann og illa meðferð af því að þráhyggjan og meinlokan í Bjarti hefur gengið svo fram af lesendum. Það er augljóst að maður sem metur líf gimbrarinnar meira en líf konu sinnar og ófædds barns, stefnir öllu í tvísýnu til að öðlast og halda meintu sjálfstæði sínu og tekur engum rökum hlýtur að mælast illa fyrir.

Ég hef séð að minnsta kosti eina aðra uppfærslu af Sjálfstæðu fólki og man sumt úr henni. Hún var áreiðanlega frekar hefðbundin og trú sögunni og til samanburðar við nýju sýninguna verulega alvarleg. Leikmyndin í dag sem þjónaði mestmegnis sem húsakynni Sumarhúsa var uppfull af tilfinningum, draugagangi þegar þurfti, var margs konar fæðingarrúm enda fæddist Bjarti margt barnið og svo almennt sem samkomustaður. Mér fannst magnað hvernig dyrnar til hægri voru notaðar til að sýna stöðu fólks, fyrir sumum var upp lokið en aðrir máttu húka öllum stundum fyrir innan. Rauðsmýrarfólkið var beinlínis hafið upp yfir Sumarhúsafólkið. Burstin þjónaði sem rúm og fleira snart taugar í mér. 

Leikarar. Viðkvæmt. Ég var mjög lukkuleg með Atla Rafn. Hann var svo laus við háttvísi að hann klóraði sér í rassinum á viðkvæmum stundum og nuddaði á sér nefið beint á eftir. Textameðferð til fyrirmyndar. Rustahátturinn skilaði sér svikalaust og svo kom hann líka út á mér tárunum þegar mikið lá við. Konurnar hans tvær, Vigdís Hrefna held ég að hafi áreiðanlega verið sú fyrri og Lilja Nótt var hin síðari, voru það algjörlega og heilt yfir allir leikarar góðir - fannst mér - nema mér fannst Guðrún og Eggert ekki fara vel á þessu sviði. Hallbera hefur nokkrar þungar setningar í sögunni en þótt Guðrún fari vel með texta fannst mér hann alveg missa marks. Ég veit ekki af hverju, kannski af því að það var glettilega mikill léttleiki í verkinu og svo kom hún með þessar merkingarbæru setningar og ætlaði að soga allt leikverkið til sín. Eggert var ekki með mikinn texta en hann var í hvert skipti í einhverju öðru verki. - Ég get átt eftir að skipta um skoðun eða þurfa að umorða þetta en þau tvö náðu mér síst. Synir Bjarts sem þurftu að kljást við Kólumkilla - og sinn útúrborulega föður - voru aldeilis frábærir, auðvitað of gamlir en ég gat alveg sætt mig við það. Elmu Stefaníu hef ég ekki séð áður á sviði en hún fangaði blessunina hana Ástu Sóllilju með varnarleysið sitt og hið ömurlega veganesti - frelsi og sjálfstæði framar öllu, ÖLLU - afar vel.

Eitt að lokum. Íhaldssamir munu ekki kunna að meta tilvísanir til samtímans en ég gerði það. Segi ekki hvað það er.

Mæli með Sjálfstæðu fólki 2014-2015. Hjálpar verulega að þekkja til sögunnar samt.


Get ekki Bondað - 007

Kannski er það vitleysa í mér en ég hef haft á tilfinningunni að margir séu hrifnir af Bond-myndunum. Það biður enginn um raunsæi, við vitum það, Jamesinn rennir sér berhentur niður grannan kaðal og sér ekki á gómunum, hann gengur í gegnum eldhaf og hárgreiðslan hreyfist ekki, hann fær hvorki vott né þurrt dögum saman en tapar hvorki holdum né kokhreystinni, horfir á langa talnarunu út undan sér og man hana. Nú er ég reyndar strax aðeins byrjuð að skálda því að ég hef aldrei getað horft á heila mynd. Ég reyndi enn í kvöld en ég finn ekki söguþráðinn. Daniel Craig stendur í miðjum gneistandi bálkestinum og heggur mann og annan. Samt skerðist ekki einu sinni nögl á honum og reyndar sér ekki mikið á hinum heldur. Fólk ætti að vera margdáið, búið að höggva það í spað og tæra það upp að innan en allt kemur fyrir ekki.

Guðminngóður, er ég alveg úti að aka? Geta allir Bondað nema ég?


Að læra til læknis

Ef ég væri 19 ára í dag, stæði frammi fyrir vali á langskólanámi og hefði snefil af áhuga á raunvísindum myndi ég ekki hika við að velja læknisfræði. Í fyrsta lagi bjarga læknar lífum og eru gríðarlegar mikilvæg starfsstétt. Það er auðvitað aðalatriðið. Þótt ég hafi unnið við að auka hagvöxtinn í eina tíð og stundum síðar er áreiðanlega ekkert sem jafnast á við að hafa tifandi hjarta í lúkunum og tryggja tifið áfram eða ná að glæða fólk lífi og lífsvon með öðrum hætti. Í öðru lagi er núna búið að pönkast svo mikið á læknum - sem fá held ég lítt skilyrta samúð og aðdáun frá okkur pöbulnum - að nú hlýtur að verða samið svo almennilega við þá að stéttin getur vel við unað til áratuga. Kjarabarátta er aldrei sársaukalaus og oft(ast) bitnar hún á þriðja aðila sem hefur ekkert til þess unnið - en öðruvísi komast skilaboðin ekki til skila. 

Ég þekki ekki marga lækna. Allir þrír læknarnir sem ég þykist þekkja búa núna að hálfu eða öllu leyti í Svíþjóð, drógu sig þegjandi og hljóðalaust til hlés hér og fóru utan. Ísland er ekki alfa og omega allra Íslendinga.

Römm er sú taug

er rekka dregur

föðurtúna til

... á bara ekki við allt og alla öllum stundum.

Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn eru afar mikilvægir og obbi landsmanna áttar sig á því. En ég er ekki lengur 19 og ég held því miður að efna- og vefjafræði sé álegg þannig að ég kem ekki til greina. Ég vona bara að hin gæfulega kynslóð sem er nú á þröskuldi framtíðarinnar láti ekki hina hörðu deilu síðustu vikna fæla sig frá þessu fagi. 


Kakkalakkafaraldurshætta

Meðan Orðbragð er í sjónvarpinu legg ég öllu öðru. Í kvöld hló ég upphátt, sérstaklega þegar Bragi Valdimar endurraðaði bæjum eftir stafrófsröð. Þetta hefur verið lenska hjá okkur í gönguklúbbnum þegar við göngum gömlu þjóðleiðirnar og tökum hópmyndir, þá röðum við okkur eftir stærð eða litum - eða stafrófsröð. Ég meina, margar götur í Reykjavík eru í stafrófsröð, heilu hverfin í Breiðholti og örugglega Grafarvogi, en líklega hef ég verið mesti áhugamaðurinn í göngunum að raða okkur einhvern veginn fyrir hópmyndatökurnar ...

Þau í Orðbragði eru enn óskaplega fersk, ég fylgist spennt með nýjum hugmyndum og hef fantagaman af og í kvöld klappaði ég auðvitað fyrir hugmyndinni um stafsetningarkeppni. Og, ókei, játning, hún forklúðraðist að mínu mati. Allir vita hvernig innlyksa er skrifað og svo voru þarna lógísk margsamsett orð en á móti orð sem forhertustu áhugamenn um tungumálið kannast ekki við. Held ég. Ég er samt spennt að sjá hvernig þetta verður næst ef þau prófa aftur.


Dilla 1, dilla 2, dilla 3

Það er ljómandi gott að eldast og leyfa sér að skipta dillum út og dillum inn. Ein árátta eða tilhneiging hefur elst með mér, lestrarfýsnin. Samt hefur hún breyst, nú er það ekki bara skáldskapur sem ég les heldur ýmis fróðleikur og sumt hégómlegra. Þjóðmál höfða meira til mín en áður og svo hitt og þetta landfræðilegt. Margralandaflakk á ég samt eftir.

Ég var aldrei í íþróttum sem barn. Ég mætti vissulega í alla leikfimitíma og stökk yfir hestinn, hífði mig (stutt) upp eftir reipinu, fór handahlaup, blakaði og alls konar. En ég var ekki í fótbolta, handbolta, fimleikum, sundi eða neinu nema félagslega, fór með skólanum í skíðaferðir og svona það sem til féll. Íþróttaástundun var aldrei skipulögð og ég hafði ekki tiltakanlega mikinn áhuga.

Ég var aldrei skáti og það er líklega horfið í vindinn núna. Ég var samt um tíma í KFUK. Ekki það sama, nei? Nei.

Undir tvítugt fékk ég óskiljanlegan áhuga á skák og sótti mót og varð veðurteppt í Vestmannaeyjum. Það var gaman meðan það entist en ég varð enginn afreksmaður og missti áhugann.

Síðustu árin má engu muna að ég sé að verða útivistarnörd. Ég hef reyndar stundað sund áratugum saman en auðvitað ekki sem keppnismaður þótt „þjálfarinn“ minn hafi stefnt að því (leynilega). Og ég hef auðvitað verið með í skemmtiskokki Reykjavíkurmaraþonsins frá 1986 og aðeins misst úr örfá ár. Auðvitað. Og auðvitað án undirbúnings, skokkaði bara alltaf mína 7 eða 10 km einu sinni á ári. Nú er ég búin að kaupa carving-svigskíði og fara í skíðaferð til útlanda, nokkrum sinnum til Akureyrar og einu sinni á Siglufjörð. Ég er sírápandi á fjöll og nú er ég komin í skokkhóp sem æfir þrisvar í viku.

Ég sakna þess pínulítið að hafa ekki æft neitt sem krakki en samt finnst mér bilað hvað (sum) börn eru látin mæta á margar æfingar í hverri viku. Ég held að það sé of mikið kapp í sumum íþróttum barna af því að mér finnst að flestir eigi að vera í íþróttum til að stæla hug og hjarta, hafa gaman af hreyfingunni og félagsskapnum. Og yngstu flokkarnir eru látnir keppa blóðugt á laugardagskvöldum jafnvel eða fyrir upprisutíma á sunnudögum. #hrollur

Endar þetta ekki bara með letilegu New York-maraþoni hjá mér?


Ábyrgðarstöður; ráðherra eða tónlistarkennari

Ég veit varla hvernig ég á að koma orðum að þessu. Í dag var tilkynnt um nýjan innanríkisráðherra. Ég held að valið hafi komið flatt upp á ýmsa af því að hingað til hefur mikið verið horft til sitjandi þingmanna. Ólöf er víst aðeins tuttugasti utanþingsráðherrann en nú þarf ég endilega að komast að því hvernig það er talið. Ég held að ráðherrar heimastjórnar hafi ekki endilega verið þingmenn. En ég er ekki viss. Á vef Alþingis finn ég lista yfir fyrstu 19 utanþingsráðherrana. Ólöfu verður sjálfsagt bætt á listann á morgun.

Ég man að þingmenn hafa lagt það til að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið betur með því að ráðherrar gegni ekki þingmennsku, enda eru bæði störfin full störf ef þeim er vel sinnt, og ég sé að unga fólkið er að velta þessu fyrir sér líka. Þetta var til umræðu hjá stjórnlagaráði þannig að þetta er gömul og gegn pæling.

Mér finnst því skynsamlegt að leita út fyrir þingliðið og engri rýrð varpað á þingmenn með því. Auðvitað skil ég svekkelsi metnaðarfullra þingmanna en ég held að þetta sé góð ákvörðun.

Fjölmiðlar keppast við að segja frá því að Ólöf hafi verið veik en að meðferðin hafi borið árangur. Eðlilega ræða menn það. En þótt ég trúi því að starf ráðherra sé erilsamt og krefjandi á það samt líka við um mörg önnur störf. Er endilega léttara að vera hjúkrunarfræðingur, kennari, lagermaður, starfsmaður í álveri, leikari, tónlistarmaður eða dagskrárgerðarmaður að jafna sig eftir erfið veikindi? Ég ítreka að ég geri ekki lítið úr verksviði ráðherra en ráðherra hefur aðstoðarmenn, ekki bara þessa pólitísku heldur ýmsa sérfræðinga til að vinna með sér, og getur ef til vill haft talsvert um það að segja hvernig dagarnir leggja sig.  

Að því sögðu óska ég Ólöfu velfarnaðar í leik og starfi. Mig grunar að við séum mörg sem sendum henni hlýja strauma og óskum henni alls hins besta í glímunni framundan.


Rás 73

Í fjárlagaumræðunni er hægt að fara út um víðan völl án þess að fjarlægjast kjarna frumvarpsins. Peningar eru nefnilega upphaf alls í kapítalísku samfélagi. Síðustu tvo tímana eða svo hefur verið rætt um kjör lækna og hvort hækkun rúmist innan fjárlaga ársins 2015. Já, eða kannski lengur, ég hef ekki haft kveikt á Alþingisrásinni í allt kvöld.

Mér finnst ég vinna gott starf en það bjargar svo sannarlega ekki mannslífum. Ég er ekki uggandi á leið í vinnu og velti ekki fyrir mér hvort snör handtök mín lengi líf nokkurs manns. Ég er ekki á nálum þegar ég fer heim úr vinnu yfir því að ég verði kölluð aftur út. Ég er ekki á bakvakt. Ég á frí þegar ég er í fríi. En ég gæti orðið háð vinnuframlagi og vinnuvilja lækna. Ég er enn heilsuhraust en það gæti breyst fyrirvaralaust og þá vil ég geta gengið að þeirri þjónustu sem ég tel mig hafa tryggt mér með skattgreiðslum í ár og bráðum áratugi.

Af hverju er ekki samið við lækna? Er ekki þjóðarvitund um að læknisstarfið er fjandi mikilvægt?

(Jú, ég veit að fleiri störf eru það. Jú, ég veit að flugmönnum og bílstjórum má ekki hlekkjast illilega á. Jú, ég veit að foreldrar eru alltaf í viðbragðsstöðu. Pistillinn er samt um læknaverkfallið.)


Extróvertinn lifir

Í þá gömlu góðu daga þegar ég var í háskólanámi fór ég einu sinni í vitlausa stofu. Ja, sennilega oftar, en eitt skipti er mér minnisstætt. Ég var að byrja annað árið í íslensku og átti eftir áfanga frá fyrsta ári, áfanga sem vinir mínir höfðu tekið árið á undan. Ég mætti í Árnagarð og fór beina leið í stofu 201, var mætt skömmu áður en tíminn átti að byrja. Ég leit aðeins í kringum mig, furðaði mig á því að þekkja ekki kjaft þarnan inni en hugsaði að „allir“ hefðu greinilega klárað áfangann árið áður.

En svo mætti kennarinn og ég þekkti hann ekki heldur. Það stóðst ekki enda vissi ég vel hver kennarinn var þannig að ég spurði hátt og snjallt: Er þetta ekki Íslenskt nútímamál? (Íslenskt, ekki íslenskt, af því að þetta var heitið á áfanganum.) Nei, sagði kennarinn, sem ég kannaðist ekkert við, þetta eru Sálfræðileg próf (S, þið vitið). Ég hugsaði að atarna væri skrýtinn kennari sem byrjaði fyrsta tíma á prófi, snautaði á fætur, las mér betur til og fann áfangann, kennarann og slatta af kunnuglegum nemendum í stofu 301, á hæðinni fyrir ofan.

Svo leið einhver tími, ég gleymdi þessu auðvitað en mörgum árum síðar kynntist ég sálfræðinema sem hafði verið í þessum tíma. Sálfræðingurinn, ekki lengur nemi, sagði mér að þegar ég hefði verið farin út hefði kennarinn beðið nemendur sína að leggja þetta á minnið, ég hefði verið skýrt dæmi um extróvert. Alveg útvortis.

Gaman að segja frá því að ég er enn að heyra þetta. Og ég vil bæta því við að þótt ég verði endrum og eins dálítið leið á málgefni minni leiðist mér meira að umgangast fólk sem talar of lítið. Ég vil heilbrigða samkeppni!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband