Moska eða kirkja

Ég er hvorki sérlega trúrækin né kirkjurækin. Ég finn ekki lögin þar sem segir að öllum trúfélögum beri að gera jafn hátt undir höfði með (meðal annars) úthlutun ókeypis lóða undir bænahúsin sín. Það hefur samt mikið verið í umræðunni þannig að ég geng út frá að það sé rétt.

Þá má ekki mismuna.

Annað hvort eru þá fundnar lóðir handa þeim trúfélögum (og jafnvel lífsskoðunarfélögum) sem óska þess eða lögunum er breytt. Það er úrlausnarefni þingsins. 

Í umræðunni hef ég hvergi séð gagnrýni á fjölmargar kirkjubyggingar og bjölluspilið þaðan á sunnudagsmorgnum. Ég veit hins vegar að það er ekki öllum að skapi. Einhver íhaldssamasta manneskja sem ég þekki segir: Nú þarf að fara að gera við kirkjubyggingu í hverfinu mínu fyrir offjár (og lítil aðsókn), væri ekki nær að samnýta einhverjar af þessum mörgu kirkjum á þessum litla bletti?

Í Grindavík var kirkju breytt í leikskóla. Er það ekki góð nýting?

Þegar ég var á ferð um Írland fyrir nokkrum árum sá ég kirkju sem var búið að breyta í farfuglaheimili. Þar eru margir kaþólikkar. Eða voru. Skriftastólnum hafði verið breytt í símaklefa. Já, þetta var víst fyrir daga farsímanna. Ég er ánægð með umskiptin.

Mér finnst tímabært að þétta byggðina í kringum kirkjurnar. Að auki legg ég til aðskilnað ríkis og kirkju.


Djúpivogur og aðrar litlar sjávarbyggðir

Ég er loks búin að horfa á myndbandið frá Djúpavogi sem byrjar á því að stúlka les upp úr lögum um stjórn fiskveiða.

 

Það er mjög auðvelt að skilja að fólk tengist heimaslóðunum og vilji halda þar til. Það er mjög auðvelt að skilja tilfinningaleg, efnahagsleg og byggðaleg rök fyrir því að fólk vilji ekki láta bola sér að heiman, selja húsnæðið fyrir slikk, rífa börnin upp, missa nándina, missa ræturnar. Það er hægt að skilja að stóreigendur eða meintir eigendur auðlindar vilji hámarka arðinn þótt mér finnist erfitt að skilja að fólk geri það án þess að hugsa um heildarsamhengið.

Það sem ég get samt ekki skilið er að hver sem er geti ekki skilið að okkur sem samfélagi er betur borgið með byggð í öllu landinu. Ekki í hverjum firði, ekki í hverri vík sem nú er eyðivík eða eyðifjörður en þar sem nú er blómleg byggð og gott mannlíf, nóg viðurværi og góð afkoma. Sjálfbært samfélag.

Nóg er túrisminn lofaður upp í hástert þessi misserin. Ef við höfum ekkert mannlíf að sýna og enga þjónustu að bjóða víða um landið verður heimsóknin ekki eins góð. Fossar eru frábærir en fimmtándi fossinn bætir ekki svo miklu við þann fjórtánda. Það er mikil gæðastund að stoppa á bryggjunni með útlendingana sína og leyfa þeim að horfa upp í karfa eða þorsk. Það eru ekki bara börnin sem ljóma upp við að sjá ketti, hunda, geitur, hænur og lömb á hlaðinu við bóndabæinn. Þýsk borgarbörn uppveðrast við að komast í tæri við heilan KÁLF. Ég brosi líka hringinn.

Mannlífið er auðlind. Byggð um land allt er auðlind sem er greinilega erfitt að verðleggja. 

Það eru sem sagt skýr efnahagsleg rök með því að leyfa byggðunum að njóta sín. Líka á Djúpavogi. Hvað er flókið við það?


Athyglivert? Athyglisvert? Athygli vert?

Tungumálið er skrýtin skepna og stundum órökrétt. Athygli er kvenkynsorð og beygist ekki í eignarfalli athyglis. Nei, þá væri það karlkyns. Leikfimi er líka kvenkyns sem og gagnrýni og vandvirkni. Samt eru mjög margir, flestir líklega, sem tengja þau við seinni hlutann með s-i.

Mér finnst tilgerðarleg ofvöndun að segja að eitthvað sé athyglivert. 

Svo eru mörg fleirsamsett orð sem fá tengi-s (vegna eignarfalls), fiskútgerð en bolfisksútgerð, fiskréttur en saltfisksréttur. 

Fleiri órökrétt orð: hársbreidd, hárlengd og hársídd; fasteignaskattur og eignarskattur.

Sumt er svo sem ákvörðun mannanna en margt hefur fyrst og fremst helgast af hefð.  

Svo hnaut ég um annað skemmtilegt nýlega sem varð til þess að ég ákvað að skrifa þetta hjá: frídagar en sumarfrísdagar.

Hefðin helgar svo margt og lætur rökvísina lönd og leið. Samt er málfræði vísindagrein, bara ekki raunvísindagrein ...


Verkfallið bannað - frjálsir samningar?

Verkfall flugmanna í FÍA var bannað með lögum laust eftir hádegið. Rökin eru aðallega þau að svona aðgerðir loki landinu og það hafi víðtæk efnahagsleg áhrif. Almannahagsmunir? 

Ég þekki leiðsögumenn sem hafa orðið af einhverjum verkefnum, vinnu í einhverja daga án launa og án nokkurra bóta. Sjálfsagt detta út fleiri ferðir í sumar af því að einhverjir túristar hafa getað hætt við, einhverjir sem hafa skipulagt ráðstefnur eða stóra viðburði snúið sér annað.

Þetta á líka við um aðra í ferðaþjónustu og svo sem ýmissi þjónustu í landinu.

Almannahagsmunir?

Ég veit ekki hvað flugstjórar, flugmenn og flugfreyjur/flugþjónar eru með í laun, hvorki í grunnlaun né heildarlaun. Einhver sagði að flugmenn væru með milljón. Fyrir hvað? Ég þekk flugmann sem hætti fyrir u.þ.b. 10 árum af því að atvinnuöryggið var ekkert, hann fékk reglulega uppsagnir og svo vildi atvinnuveitandinn senda hann út í Langtíburtistan og hann gat ekki boðið sjálfum sér og fjölskyldunni upp á það. 

Hvað á svoleiðis að kosta?

Stórtjón hefur orðið af þessu og annað eins fyrirsjáanlegt án inngrips, sagði einhver. Milljarður á dag, heyrðist mér. Misheyrðist mér? Aldrei heyri ég nokkurn í nokkurri starfsgrein tala um stórgróða þegar allt leikur í lyndi en alltaf er stórtjón þegar eitthvað bjátar á.

Ef verkfall er löglegt og löglega er staðið að boðun þess finnst mér algjört neyðarbrauð að gefa upp á nýtt og banna með lögum það sem áður var heimilt að lögum. Þá væri nær að stéttir sem geta valdið þessu STÓRtjóni hefðu ekki verkfallsrétt,  heldur væru kjörin ákveðin af gerðardómi eða kjaradómi eftir atvikum. 

Hvað gerist núna í deilu grunnskólakennara og sjúkraliða? 


Þverpólitík

Fjölmiðlar hafa skrýtinn áhuga á þingmálum, finnst mér alltént. 9. apríl skældi ég á blogginu yfir því að velferðarnefnd hefði ákveðið að vísa frumvarpi um ætlað samþykki til ríkisstjórnarinnar. Ég ætlast ekki til að fjölmiðlar elti grátstafina í mér en kannski málið sjálft þegar eitthvað gerist.

Í gær var atkvæðagreiðsla um frávísunina og hún samþykkt með 49 atkvæðum gegn fimm. Fjórir sátu hjá. Menn færðu rök fyrir máli sínu, góð eða vond.

Frá 9. apríl er ég búin að tala um þetta mál við ýmsa. Yngsta kynslóðin, fólk fætt eftir 1990, virðist með ágæta meðvitund og hefur rætt þetta í sinni fjölskyldu og við vini sína. Ég er búin að heyra um annað ungmenni sem dó en hafði gefið út að það vildi vera líffæragjafi og lengdi eða bætti líf níu einstaklinga. Sú ákvörðun gleður eftirlifandi ættingja og veitir einhverja fró.

Ég er enn með kortið mitt í veskinu. Mér finnst enn að fólk eigi að hafa val og það þarf enginn að biðja mig afsökunar eða gefa mér skýringu ef hann vill ekki gefa líffæri eftir sinn dag. Ég held þó enn að fleiri en færri vilji það en þeim er ekki gefinn nógu góður kostur á að láta vita.  

Þetta er ekki hagsmunamál fyrir mig öðruvísi en sem borgara. Ég er ekki að bíða eftir líffæri og enn sem komið er enginn mér nákominn. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er. 


Málfarsráðunautnum er vorkunn

Já, þessi pistill er um málfarsráðunautnir.

Mér varð litið á bók bókanna, Facebook, og sá þar einhvern sem ég þekki læka pistil einhvers sem ég þekki ekki. Það er hin nýja, ferska og frjóa uppspretta. Hugsanlega hefði ég getað flett á vef Ríkisútvarpsins en ég gerði það ekki. Eftir þessari krókaleið hnaut ég hins vegar um pistil íslenskukennara. Hann er frjór og skáldlegur, yrkir Jónas upp á nýtt enda Jónas þjóðareign sem við megum nýta í nýjan skáldskap, endurnýta og gefa lengra líf.

Málfarsráðunautn.

Það fyrsta sem ég hnýt samt um er yfirskriftin: 

4 og síðasti pistill Dags Hjartarsonar

Á.

Hverjum á ég að kenna um 4? Ekki Degi, hann flutti pistilinn sinn í mæltu máli. Ekki málfarsráðunautnum sem leggur stóru línurnar, markar stefnuna, svarar fyrirspurnum og veitir ráð. Ekki nýja útvarpsstjóranum. Ekki Villa naglbít sem vísar í þættinum sínum öllum umkvörtunum til útvarpsstjóra. Ekki prófarkalesaranum sem er ekki ráðinn.

Kannski fyrrverandi útvarpsstjóra?

Væri ekki hægt að fá Helga Pé til að lesa vefinn í hljóði meðan hann færir hlustendum allar tilkynningar um mannamót og gleðsköp?


Vinnumórall

Nýr formaður Samtaka iðnaðarins segir núna víða í viðtölum að hægt væri að auka framleiðni í vinnunni, stytta vinnutíma án þess að missa nein afköst. Hún heldur að hægt sé að klípa af kaffi- og matartímum og hleypa fólki fyrr heim af vinnustaðnum.

Það fyrsta sem ég heyrði á götunni var kvein. 

Ég held að það sé óþarfi að klípa af lög- og kjarasamningsbundnum hvíldartíma. Ég held að víða gæti fólk haldið betur áfram í vinnutímanum og klárað dagsverkið á skemmri tíma en átta tímum. Og þannig tek ég undir með Guðrúnu um að hægt væri að stytta vinnutímann eitthvað án þess að tapa í nokkru.

Hins vegar má ekki vanmeta félagslega þáttinn í vinnunni, einkum ef hún er tilbreytingarlaus og lítt krefjandi. Fólk þarf að líta upp úr verkunum, treygja úr sér, skiptast á skoðunum eða bröndurum og hlaða geymana. Sum vinna er þess eðlis að kaffitímarnir þjóna vinnunni, a.m.k. í og með, t.d. ef fólk þarf að sækja upplýsingar eða bera saman bækur sínar. Sum störf krefjast fyrst og fremst viðveru, símsvörun, afgreiðslustörf og önnur slík þjónusta. Það er ekki hægt að svara í símann fyrr en hann hringir eða afgreiða kúnnann sem er ókominn.

Ég veit ekkert hvort þetta er betra í öðrum löndum. Ég veit ekkert hvort meira gengur undan Dönum sem geta síðan byrjað helgina á hádegi á föstudögum. Ég hef heyrt að margir þeirra fái sér einn öl, eða tvo, með hádegismatnum alla daga. Er það satt? Ég hef heyrt að Íslendingar teljist hamhleypur til verka í útlöndum. Er það rétt?

Þetta er spennandi umræða og það veit sá sem allt veit að vinnutíma og vinnustaði er hægt að skipuleggja betur sums staðar -- en ekki með því að henda réttindum sem hafa náðst með áratugalangri baráttu fyrir bættum kjörum. 

Vill í alvörunni einhver standa við færibandið og pakka ís í 7,5 klukkustundir án hvíldar til þess eins að geta farið úrvinda heim í sófann (og hvæst á krakkana)?

Og þá rifjast upp fyrir mér aðbúnaður leiðsögumanna ... 


Hemmi Gunn

„Örlögin settu Son þjóðar í hendurnar á mér. Alla mína ævi hef ég auðvitað vitað af sameigninni Hemma Gunn og kannski las ég bókina af því að Hemmi lést óvænt í fyrra og af því að umtalið var enn meira en annars hefði verið. Ég er ekki mikið í ævisögunum og síst ævisögum samtímamanna.

Fyrst vil ég segja að mér blöskrar ekki að höfundur hafi ákveðið að skrifa eftirmála út frá því samkomulagi sem hann segist hafa gert við bókarefnið um að segja allt og draga ekkert undan. Hann hafði líka heimildarmenn fyrir því sem hann sagði. Ef við getum talað um einhvern lærdóm af æviferli Hemma er það sá að  vert er að taka þennan kaleik frá þjóðareignum, fólki sem þjóðin álítur sitt, að fólk í almannaeigu þurfi að vera fullkomið. Hemmi féll í fjölmargar gildrur frontsins, þess að líta út eins og fólk vildi, hegða sér fyrir vandalaust fólk, þrátt fyrir hina miklu einlægni og heiðarleika sem fólk ber honum góða sögu um.

Auðvitað var fjölmargt í bókinni sem ég hafði ekki hugmynd um. Ég vissi ekki að Hemmi hefði í raun verið stutt í íþróttum. Ég vissi ekki að hann hefði reykt alla ævi. Ég vissi ekki að hann hefði verið svona eðlislatur en samt hrikalega vandvirkur þegar hann tók eitthvað að sér. Ég vissi ekki að hann hefði verið svo vanafastur að hann fór ALLTAF í hádeginu að hitta vini sína, grjónapungana, til að borða með þeim. Ég vissi ekki einu sinni að hann hefði verið hrekkjalómur (fela buxur í flugi, símaöt) og þaðan af síður að hann hefði verið hörundsár og tekið illa gríni sem beindist að honum.

En ég hef heldur ekki mikinn áhuga á upptalningu um líf fólks, mér finnst áhugaverðara að heyra um skoðanir og rök fyrir þeim. Og Hemmi virðist hafa forðast að taka afstöðu, kannski af því að hann var þjóðareign og vildi engan styggja.

Sterka hliðin hans finnst mér hafa verið fallegu samtölin sem hann átti við börn fyrir þættina sína.  Trúlega hefur áfengið spillt alltof miklu af því góða sem hann bjó yfir. Hann tókst á við það böl en samt var áfengissýkin stóra og langvarandi vandamálið allt hans líf.


Fljúgum burt

Ég veit að Reykjavíkurflugvöllur er ekki og verður ekki mál málanna í kosningabaráttunni í vor en ég er orðin svo óskaplega þreytt á staglinu um öryggissjónarmið. „Ef þú vilt að flugvöllurinn fari ertu um leið að segja að þér sé sama um líf sjúklinga og slasaðra.“

Nei, mér er ekki sama um líf fólks. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er bara engin forsenda fyrir lengra lífi eða betri umönnun fólks sem veikist eða slasast. Læknar eru það, lækningatæki, aðstaða og aðbúnaður. Það er mikilvægt að fólk komist til læknis en læknirinn þarf ekki að vera við Hringbraut. Í ljósi atvinnuástandsins á Suðurnesjum þætti mér ekkert úr vegi að fleiri atvinnutækifæri litu þar dagsins ljós. Mér skilst að sjúkrahúsið sé vel búið og því skyldi ekki vera hægt að byggja upp úrvalsaðstöðu þar ef innanlandsflug yrði fært til Keflavíkur? Það er samt ekki eini möguleikinn. Það væri líka hægt að dubba upp á Borgarspítalann. Þyrlur eru vel til þess fallnar að lenda á þökum spítala.

Og ég held að það sé algjörlega tímaspursmál hvenær flugvél missir flugið ofan í þéttustu byggðina í að- eða fráflugi.

Kynslóðirnar sem eru að fá kosningarrétt í Reykjavík munu í hrönnum greiða atkvæði gegn flugvellinum á besta byggingarlandinu í höfuðborginni. Þess vegna er líka tímaspursmál hvenær hann verður fluttur þangað sem hann á betur heima. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband