30. júní 2014 > veðurspá

Lífið er svo persónulegt að árstíðir hljóta að vera það líka. Og veðrið. Ég veit að maí var hlýr mánuður í Reykjavík og gróður átti góðar stundir en mér fannst hvorki koma vor né sumar af því að ég var ekki í prófum og enginn alveg nálægt mér og annirnar í vinnunni óvenjulegar. Vor er ekki bara veður.

Nú er 30. júní, lengsti dagurinn liðinn og spáin víðast um land í dapurlegri kantinum. En mér finnst fólk fara fullfljótt á límingunum yfir spánni. Ég er að minnsta kosti hvínandi bjartsýn og held að veðrinu fari fram núna - enda tókum við rigninguna ógurlegu út í fyrra. 

Svo gilda spár fyrir stór svæði en veður hérna megin og hinum megin Hellisheiðar er aldeilis ekki það sama. Sumarið verður gott. 

Ég er sannfærð. 


Sjósund eða prísund

Að gefnu tilefni fletti ég sjósundi upp í Snöru en í stað sjósunds var mér boðið upp á prísund. Það var alveg sama hvaða tungumáli ég gaf séns, ensku, þýsku, frönsku, ítölsku - ég held að Íslendingar einir saman stundi sjósund.

Við erum soddan töffarar. En sjórinn í Nauthólsvíkinni er reyndar alveg 12°C heitur ...


Hvað gera kynin?

Sóley Tómasdóttir sagði rétt áðan sögu á Sprengisandi af pilti sem lenti í slysi í bíl með föður sínum. Piltur slasaðist alvarlega og fór snarlega með sjúkrabíl á slysó. Skurðlæknirinn sem tók á móti honum sagði: „Ég get ekki gert aðgerðina, þetta er sonur minn.“

Hvernig má þetta vera?

Jú, þetta er eldgömul gáta og svarið við henni þekkja margir: Skurðlæknirinn er móðir piltsins. 

Ég held að enn í dag tengi samt ótrúlega margir skurðlækninn ekki við konu. Auðvitað vita margir að konur eru í meiri hluta í háskólanámi. Auðvitað vita margir að margar konur eru klárar, að margar konur mennta sig, að margar konur gegna mikilvægum störfum -- rétt eins og margir karlar.

En þetta er ekki endilega í blóðinu á okkur.

Glæný saga (gáta ef menn kjósa svo) er svona: Menntuð, víðsýn, gáfuð og meðvituð kona var spurð um daginn: „Já, ertu flutt? Er ekki nágranninn lögfræðingur á [einhverri stofu]?“ Vinkona mín hugsaði sig ekki um heldur svaraði: „Nei, hann er flugstjóri.“

Baráttan fyrir viðurkenningunni er ekki öll. Auðvitað er nágranninn lögfræðingur á [einhverri stofu], eiginkona flugstjórans.


Verkfallið sem var afturkallað

Þegar maður situr í öruggu skjóli getur maður trútt um talað. Ég er þeirrar almennu skoðunar að þegar stéttir hafi verkfallsrétt eigi þær að geta nýtt hann. Almannahagsmunir eru varla skyndihugmyndir eða töfraorð sem hægt er að draga út úr hillunni þegar einstök fyrirtæki sjá fram á minni hagnað eða algjört tap eftir atvikum.

Þetta segi ég úr skjólinu mínu. Ég tilheyrði ferðaþjónustunni í tylft ára en er hugsanlega hætt að starfa sem leiðsögumaður því að kjörin okkar bötnuðu aldrei. Eftir síðustu samninga er nú hæsti dagvinnutaxti kr. 1.572 og þá á maður hvorki orlof né veikindarétt.

Innanríkisráðherra sagði í flutningsræðu sinni í gær þegar hún mælti fyrir frumvarpi um að banna verkfall flugvirkja að hver dagur þýddi 900 milljóna króna tap:

... ferðaþjónustan hefur reiknað það út að á hverjum degi verkfallsaðgerða glatist um 900 millj. kr. sem hefði auðvitað áhrif á afkomu einstaklinga, fyrirtækja og samfélagsins alls.   

Ég hef ekki forsendur til að rengja þetta en mikið óskaplega vildi ég vita hvar þessi peningur birtist á venjulegum degi. Hvaða hálaunastéttir eru í ferðaþjónustunni? Ég skil að inni í þessari tölu eru tekjur sem Bónus, 10-11, kaffihús, veitingastaðir, bíó, Harpa o.fl. hafa af ferðamönnum eins og öðru fólki -- en áherslan er alltaf á tapið sem verður ef eitthvað fer öðruvísi en best og við vitum aldrei hvar stóru tekjurnar verða til á venjulegum/góðum degi.

Ég get lofað ykkur að 272.000 kr. mánaðarlaun leiðsögumanns taka ekki til sín stóran skerf af peningakökunni. Er tjónið svona óskaplegt og almennt?


Sjósund

Maður á ekki að vera að kjafta þessu í fólk en sjósund er úrvalsíþrótt. Í Nauthólsvíkinni er núna opið alla daga frá 10-19. Það eru ekki læstir skápar en maður getur látið geyma fyrir sig og borgað fyrir það 200 kr. Svo er ekki hárþurrka -- bömmer -- en það eru innstungur.

Ég kom sjálfri mér skemmtilega á óvart í gær þegar ég ætlaði bara að vaða aðeins út í en endaði með því að synda úr vörinni yfir á ströndina. 50 metra kannski? Ég var trúlega 10 mínútur í sjónum og hitti bæði tjald og skarf.

En ekki segja þetta neinum því að á góðviðrisdögum grunar mig að ströndin sé pökkuð ... 


Fastagestur í strætó

Ég er í göngu- og hjólafæri við mestallt sem ég kæri mig um að sækja, sem sagt vinnu, aðföng og félagslíf. Stundum tek ég strætó og það kallar hverju sinni á mikla rannsóknarvinnu. Ég var búin að ímynda mér að fólk sem tæki strætó reglulega væri betur haldið, búið að læra á leiðirnar og tímasetningarnar.

Samstarfskona mín sem treystir á strætó hefur komið sveitt og öskureið í vinnuna þessa vikuna. Leiðinni hennar var fyrirvaralaust breytt og hún þurfti að láta fjögurra ára dóttur sína ganga nokkrar stöðvar til að komast á leikskóla einn daginn. Í dag lenti strætóbílstjórinn í sjálfheldu á Snorrabrautinni vegna framkvæmda sem hann fékk ekkert að vita um. Það endaði með því að samstarfskonan fór út úr vagninum, arkaði sinn veg og mætti 40 mínútum of seint, sveitt og dálítið gnafin.

Og rétt í þessu varð mér litið inn á fréttaveitu og las þar reynslusögur fólks sem ætlar að nýta sér strætó á lengri leiðum. Ég skil að í strjálbýlu landi er erfitt að halda úti fullkominni þjónustu en þjónustan eins og hún er núna fælir fólk frá. Strætó verður aldrei sjálfbær og það er ekki hægt að reka hann í þeirri trú að fargjöldin dekki allan kostnað. Kostnaðinum er mætt með því að slit á vegum verður minna, mengun líka, slysum gæti fækkað og ekki þarf að gera eins margar slaufur fyrir einkabílinn.

Almenningssamgöngur eru núna ekki raunverulegt val fyrir fullt af fólki og það er miður. 


Hvar er Sogamýri?

Hér kemur játning. Ég hélt að Sogamýri væri á móti Kringlunni, lítill afleggjari við Safamýri. Sú mýri heitir hins vegar Starmýri.

Í gær ætlaði ég í leiðangur til að leita að moskulóðinni en hafði rænu á að fletta upp í símaskránni áður en ég lét vaða út í óvissuna (sem ég var samt frekar viss um).

Þá er þessi játning frá.

Fór moskubyggingin ekki í grenndarkynningu? Ég veit það ekki. Hlýtur hún ekki að hafa gert það? Að minnsta kosti man ég að Dagur sagði í leiðtogaþættinum daginn fyrir kjördag að engar athugasemdir hefðu borist.

Er þetta byggingarmál/skipulagsmál ekki búið að velkjast í stjórnkerfinu árum saman? Hafa nágrönnum og öðrum áhugasömum þá ekki gefist tækifæri til að tjá skoðanir sínar skýrt og skorinort? Ég veit það ekki.

Þegar ég skoðaði Sogamýrina á kortinu í gær sá ég að Kirkja Jesú Krists er handan við Miklubraut, í Rauðagerði, reyndar bara 219 fermetrar. Það er mormónakirkja sem ég held að hafi aldrei verið fyrir neinum.

Langholtskirkja er við enda Sólheima. Er hún fyrir? 

Kristniboðskirkjan Omega er við Grensásveg, 103 fermetra samkomusalur trúfélags.

Grensáskirkja er við Háaleitisbraut 66, 370 fermetra safnaðarheimili samkvæmt fasteignamati.

Kirkja sjöunda dags aðventista er í Suðurhlíðum, rúmlega 1.350 fermetrar samkvæmt fasteignamati.

Ég hafði ekki áttað mig á öllum þessum guðshúsum allt í kringum Sogamýrina. 


Ferðasumarið ógurlega 2014

Frá 2002 til 2013 eyddi ég stórum hluta sumarleyfis frá annarri vinnu (nei, ég er ekki kennari) í að vera leiðsögumaður. Vá, hvað það var oft gaman. Veðrið hefur verið blítt obbann af öldinni (misminni?), ferðamennirnir áhugasamir og vingjarnlegir, samstarfsfólkið til fyrirmyndar, vinnuveitendur líka, allt staðið eins og stafur á bók og náttúran í miklu stuði.

Ókei, ég ýki eitthvað.

Í fyrrasumar rigndi á Suðurlandi í öllum ferðunum mínum (misminni?) og til viðbótar upplifði ég lélegasta skipulagið á allri minni löngu ævi. Ég gat ekki staðið við það sem kúnnanum hafði verið lofað, veitingastaðir í hádeginu voru yfirfullir, bílstjórarnir töldu mínúturnar og hótel hliðruðu ekki til um korter fyrir morgunmatinn svo hægt væri að dreifa álaginu í ferðinni. Farþegarnir komu snöktandi í náttstað. Kannski var það rigning sem lak úr augunum á þeim en mér sýndust tár á hvörmum.

Það reyndi á leiðsögumanninn og nú bar svo við að leiðsögumaðurinn ég hafði ekki lengur áhuga á að leggja sig fram fyrir 1.500 kr. á tímann. 

Samningar voru lausir í lok nóvember. Við flutum með stóru félögunum í jólasamningunum. Leiðsögumenn felldu þá og samið var upp á nýtt upp á túkall í viðbót.

Launin eru núna 272.000 fyrir heilan mánuð í dagvinnu. Ekkert atvinnuöryggi. Ekkert orlof. Hvernig á maður að skreppa til tannlæknis þegar maður er við Gullfoss, Dettifoss, Svartafoss eða Fagrafoss? Maður gerir það ekki. Við höfum ekki sjálfsögð réttindi sem launþegar hafa barist fyrir og sem betur fer uppskorið.

Núna hef ég sagt nei við öllum ferðum sem mér eru boðnar. Tími minn í ferðaþjónustunni kann að vera liðinn og ég er ekki einu sinni sorrí.

Mig grunar að svona sé komið fyrir fleiri leiðsögumönnum/bílstjórum -- og nú stendur enn einu sinni stærsta ferðasumarið á þröskuldinum. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband