Kvennafrídagurinn 40 ára

Í dag eru 40 ár síðan konur lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi sitt í þjóðlífinu. Missti ég af allri umfjöllun og upprifjun eða var hún engin?


#toppstöðin #wappið #karolinafund

Mér leiðist þegar myllumerkingar eru ofnotaðar.

Þess vegna ætla ég bara að skrifa samfelldan texta um uppáhaldsáhugamálið mitt þessar vikurnar. Ég er náttúrlega frek til fjörsins og treð mér þess vegna fremst á myndir (og víðar). Og nú er minn góði Einar að gefa út wappið, gönguleiðalýsingar um allt land í fyllingu tímans, og í því augnamiði hefur hann hafið söfnun á Karolina Fund sem er íslenskur fjármögnunarvefur vegna alls konar verkefna, gjarnan frumkvöðlaverkefna. Söfnunin hófst í gærkvöldi og stendur til 13. nóvember og ég vona að margir leggist á árarnar með verkefninu því að það á svo sannarlega erindi.

Og myndin, já, ég held að ég þekkist á græna litnum.

Wapp


Bleika krabbameinið

Ég fór í bleikt í morgun. Í vinnunni var fjöldinn allur í bleiku, aðallega konur reyndar. Það var mikil stemning, svona eins og stundum myndast um mottumars. Ég opna Facebook þegar ég kem heim og sé fullt af bleikum myndum og ég læka eins og vindurinn. Ég kann vel að meta meðvitund.

Ég vona bara að menn, bæði karlar og konur, mæti reglulega í krabbameinsskoðun til að hægt sé að uppgötva frumubreytingar og önnur mein nógu snemma til að hægt sé að uppræta þau sem fyrst.

 


Ég fyrirgef Villa naglbít allt

Ég horfði á Toppstöðina áðan í fyrsta skipti heima hjá mér á fimmtudagskvöldi. Það sætir tíðindum þar sem ég þekki vel til tveggja keppenda. Einar og Wappið og Vesen og vergangur skipta mig miklu máli og ég hefði ekki viljað missa af öllu sem gerðist, enda hef ég ekki gert það, þökk sé alls kyns tækni. Svava Dögg sem hefur sig lítið í frammi með Barnasafnið er svo náfrænka mín og ég veit að hún hefur mikla ástríðu fyrir öllu sem þroskar börn og skemmtir þeim.

Ég er sem sagt búin að horfa á alla þættina eftir á en núna fyrst fannst mér ég ná almennilegu samhengi. Þótt ég hafi á tilfinningunni að framleiðendur séu dálítið að búa til drama úr upphlaupi og fjarvistum er samt augljóst að þátttakendur hafa fengið mikla hjálp fagmanna og komist fyrir vikið talsvert áfram.

En Villi naglbítur er alltaf í uppáhaldi hjá mér og hann sannaði sína frábæru samskiptahæfni -- og gildi lyfturæðunnar í lokin. Hann má ALLT sem ég myndi líta á sem átroðning, frekju, uppivöðsluhátt og almenn leiðindi hjá öðrum.


Sorp og umhirða í 101/105 miðbæ

Ég fór á ákaflega málefnalegan og hreinlega skemmtilegan hverfisfund á Kjarvalsstöðum í gærkvöldi. Umræður urðu fjörugar, fólk var jákvætt og lausnamiðað en sú tillaga sem situr mest í mér er sú sem kaupmaðurinn í Kokku kom með, að ökukennarar fengju kort í bílastæðahúsin og bættu því inn í ökunámið að kenna nemendum sínum að leggja þar. Hún sagði að sumt fólk væri hreinlega hrætt við húsin. Ég nýti mér þau lítið og kannski ekki neitt en ég er líka lítið á bíl í miðborginni þar sem ég bý svo nálægt.

Svo var heilmikið talað um almenningssamgöngur og Airbnb sem mér heyrist komið til að vera.

Ása Hauksdóttir sagðist ekki með góðu móti getað tekið strætó þar sem upplýsingarnar væru svo flóknar – og hún væri bæði Íslendingur og miðborgarbúi. Ég tek svo heils hugar undir það, það er mjög mikil fyrirhöfn að finna út úr upplýsingunum á strætó.is. Og hvernig á þá að vera hægt að koma útlendingunum með strætó í Árbæjarsafnið, Grafarvogslaugina eða á Úlfarsfell? Nútímaferðamennska er ekki að stíga inn í rútu sem sækir mann heim að hóteldyrum og keyrir Gullhringinn.

Og ég er full bjartsýni á að pólitíkusinn hafi farið glaður af fundinum með hollar ábendingar íbúanna. 


900 kr. ofan í laugina - hvað með Nauthólsvíkina?

Þegar ég heyrði af hækkuðu verði á stökum sundferðum i Reykjavík varð mér ekki um, já, mér blöskraði ekki og hélt rétt til að byrja með að ég væri ein um þá skoðun. 38% hækkun er mikil hækkun og fólki verður eðlilega um. Á samfélagsmiðlunum sá ég þó ýmsa sem eru sömu skoðunar og ég. Í útvarpinu voru hins vegar fleiri að býsnast, þar á meðal þáttastjórnendur.

En ég er að velta fyrir mér hvort ég hafi skipt um skoðun. Ég man nefnilega að í ársbyrjun 2007 var verðið hækkað (man ekki hversu mikið) með þeim rökum að útlendingum þætti verðið hlægilega lágt. Þá var ég talsvert mikið starfandi í ferðaþjónustunni og sá og heyrði að það gekk langar leiðir fram af útlendingunum hvað vínglasið, sem er sambærilegt milli landa, kostaði mikið. Menn þurfa alltaf að vanda rökin.

Árum saman átti ég árskort í sund. Nú hefur íþróttaiðkun mín breyst þannig að ég á alltaf bara klippikort, afsláttarkort þar sem ferðin kostar 390 kr. Ég á líka svoleiðis kort í Mosfellsbæ og finnst dálitið sársaukafullt að þeir miðar geta runnið út hjá mér því að þeir fyrnast á tveimur árum. Ég er minna þar á ferðinni en ég reiknaði með þegar ég keypti kortið. Ó, og ég vildi óska þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu væru færri ...

Fyrstu viðbrögð mín þegar ég heyrði af hækkuninni í sund í Reykjavík voru að það væri verið að umbuna þeim sem kaupa kort, gefa þeim meiri afslátt. (Mér finnst hins vegar út í bláinn að kalla þetta fyrsta lið í tiltekt í peningamálum í borginni, hvernig sem það var orðað.) 

Ég er búin að vaða úr einu í annað, ég veit, þannig að nú hnýti ég lausu endana með því að segja að mér finnst sanngjarnt að stakar ferðir séu hlutfallslega mun dýrari en þegar maður kaupir kort. Mætti ekki meira að segja hafa dýrara í Laugardalslaugina en hinar laugarnar? Og að lokum finnst mér að það ætti að rukka fyrir aðstöðuna í Nauthólsvík Á SUMRIN frekar en á veturna en selja/leigja fastagestum armböndin á mjög hagstæðu verði. Það er eðlilegt að lausatraffíkin borgi hlutfallslega meira. Og hafa sturturnar heitar ...


Þjóðareign

Gísli sem var fæddur 29. október 1907

Ég fór í síðustu viku á fyrirlestraröð um menningararf á Íslandi. Meðal annarra fróðlegra og fyndinna fyrirlestra var hungurvaki um þjóðardýrlinginn Guðríði Þorbjarnardóttur. Eða er hún það ekki? Ég man ekki öll skilgreiningaratriðin um þjóðardýrlinga og ef ég á að segja alveg eins og er finnst mér dýrlingur ekki neitt sérstaklega gæfulegt hugtak en Guðríður var mikill töffari, frumkvöðull og djarfhugi. Lítur maður þá upp til hennar? Já, ég, full aðdáunar. Er til stytta af henni? Já, aldeilis. Hefur verið skrifað um hana? Já, heldur betur.

Ég ætla ekki að bera Guðríði saman við Gísla á Uppsölum en mér datt hann samt í hug í sama orðinu. Ég fór tvisvar í Selárdal við Arnarfjörð í sumar þar sem Gísli ól allan sinn aldur, öll sín 79 ár eða svo gott sem. Ég man eftir þættinum sem skók sjónvarpsáhorfendur um árið, 1981 var það víst þótt ég muni það ekki, og það á jólunum. Gísli var einbúi, ekki aðeins maður sem hélt einn heimili heldur lengi vel einn í dal sem að öðru leyti var sem sagt mannlaus. Þar var lengst af ekki rafmagn, ekki rennandi vatn, ekki hægt að kæla mat eða frysta nema að frumkvæði náttúrunnar, þegar jafn kalt var úti og inni. Hann létti sér ekki vinnuna með tækjum þegar þau urðu fáanleg, hann var þrjóskur en talsvert útsjónarsamur á sinn þvergirðingslega hátt, frámunalega vinnusamur náttúrlega en líka listelskandi, bókhneigður pælari sem naut ekki sannmælis fyrr en kominn á alefstu árin.

Og þar sem mér þótti hann allt í einu sérlega spennandi athugunarefni sótti ég mér bók Ingibjargar Reynisdóttur sem kom út 2012. Hún er fljótlesin en þrátt fyrir að sumu leyti forvitnilega nálgun er hún fyrst og fremst samantekt úr öðrum heimildum. Ómar Ragnarsson heimsótti hann, Árni Johnsen líka en Ingibjörg Reynisdóttir fór bara á söguslóðir eins og ég gerði í sumar, þefaði af andrúmsloftinu, nýtti sér annarra manna vinnu en tók að vísu fínar myndir sem eru í bókinni. Og með þeim nær hún að fanga fínlega stemningu en ég lét fara dálítið í taugarnar á mér hvernig hún eignaði Gísla alls konar hugsanir og tilfinningar.

Ég er alltént ekki sannfærð um sögu hennar. Hins vegar er Gísli núna þjóðareign og lifir meira meðal manna en hann gerði á langri ævi í Selárdal. Þjóðardýrlingur? Neih, en gersemi. Ég finn óskaplega til þegar ég hugsa um það sem hann mátti þola í æsku og líka þegar ég hugsa um það líf sem hann „valdi“ sér. Hann bjó í algjörri einangrun, skalf sér til hita, var lítið upp á aðra kominn en lifði af.

Já, gersemi á sinn hátt.


Samviskuhelsi

Meint samviskufrelsi var mikið rætt þar sem ég var nýlega. Magabolir líka. Þetta tengist ekki endilega. Og þó.

Ég hef haft (fáránlega) mikinn skilning á því að fólk eigi að geta sagt nei við einhverju sem stríðir gegn samvisku þess eða betri vitund. (Fáránlega) segi ég af því að þegar grannt er skoðað er samviska afskaplega teygjanlegt fyrirbæri. Huglæg samviska er tæpast rétthærri lögum. Í landinu eru til dæmis jafnréttislög og hvað ef einhverjum sem ræður fólk til starfa finnst það stríða gegn samvisku sinni að ráða hæfasta einstaklinginn af því að hann er kona? Hvað ef? Og hvað ef einhver vill ekki afgreiða mann sem hefur augljóslega verið mikið í sól? Of mikil sól getur valdið krabbameini, eða hvað? Hvað ef starfsmaður í apóteki sem vill hafa vit fyrir hinum sólbrennda vill stjórna honum með því að neita honum um þjónustu?

Og nú að magabolunum sem hafa verið í umræðunni. Getur kennari borið samviskufrelsi fyrir sig ef hann vill ekki eða treystir sér ekki til að kenna stelpum sem eru í magabolum?

Mér datt þetta ekki einu sinni í hug, ég er bara að spegla boð sem ég var í nýlega. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband