Hefðbundin stelpupör?

Ég er að lesa skemmtilega bók eftir Fredrik Backman. Aðalsöguhetjurnar eru Elsa (7) og amma hennar (77). Þær eru báðar miklir uppreisnarseggir og svara svikalaust fyrir sig. Elsa er einhverju sinni kölluð inn til skólastjórans vegna þess að strákur sló hana. Skólastjórinn kallaði það hefðbundin strákapör.

Amma spyr eðlilega á móti hvað séu hefðbundin stelpupör (bls. 82-83).

Varla vinkonur ...


Hvenær drepur maður mann og hvenær elskar maður bara mann?

Margt hafa menn skrafað um Náðarstund en mest hefur mér heyrst á einn veg, ánægjan er almenn. Og að vonum. Agnesi er lyft upp og henni fenginn sess fórnarlambsins að sumu leyti, fórnarlambs ástar sinnar á Natani. Um Agnesi var gerð bíómynd árið 1995, fyrir 20 árum, sem sjálfsagt byggði mikið á heimildum eins og Náðarstund Hönnuh Kent en þó veit auðvitað enginn hvernig allt var í pottinn búið. Enginn er til frásagnar en á 19. öld skröfuðu menn engu síður en á þeirri 21.

Hvenær drepur maður mann og hvenær elskar maður bara mann?

Ég hef heyrt af hestamanni sem las bókina og fannst fyrir neðan allar hellur hvernig talað var um hestamennsku. Ekki hef ég það vit og ég man varla eftir hestum í bókinni. Hins vegar bjóst ég við betri textafrágangi, svo mikið hafði bókin verið mærð, og þar sem ég er prófarkalesari að atvinnu fullyrði ég að bókin hefði batnað við einn yfirlestur til viðbótar. Smáatriði finnst mörgum en oft vantaði nafnháttarmerki og kommusetning var á skjön við máltilfinningu mína og skólalærdóm.

Aðalatriðið er samt að sjónarhornið er forvitnilegt. Við skyggnumst inn í hugarheim Agnesar og sjáum hvernig hún hefst við á Kornsá þar sem hún „bíður“ aftökustundarinnar. Heimilismenn laga sig að „sakamanninum“ og smitast af örlögum hennar og eins konar æðruleysi þótt hún reyni vissulega að losna af höggstokknum - fyrirfram.

Ef morð er glæpur - sem ég deili svo sem ekki um - er þá ekki líka glæpur að lífláta hinn seka? Ef morð er glæpur gegn guði, hvað segir hann þá um það þegar hinn seki fær sömu útreið?

Já, nei, örlög Agnesar lifa en ég er þrátt fyrir allt ekki eins hrifin af bókinni og hitt fólkið. 


,,Skiluru"

Það er svo mismunandi hvað fer í taugarnar á okkur. Ég held að við hljótum öll (flest?) að geta verið sammála um að ofnotkun orða er hvimleið. Ef menn segja „auðvitað“ í hverri einustu setningu eða „einmitt“ eða „kannski“ eða „þú'st“ hætta þau að merkja nokkuð. Þetta eru allt hikorð þótt það séu ekki orðin „sko“ eða „hérna“ sem eru líka algeng hikorð. Þegar þau eru endurtekin í sífellu hætta þau að hafa merkingu.

Ég sat fyrirlestur um hamingju nýlega og fyrirlesarinn sagði 40 sinnum „skiljið þið“ í lok setningarinnar. Einhverra hluta vegna truflaði það mig ekki en sessunautur minn tapaði sér yfir þessu og hakaði við í hvert skipti. Fyrirlesarar sem koma undirbúnir verða líka að passa sig sérstaklega vel. Svo spáði hann í sífellu „í þessu“ sem telst enn rangt mál, en það sem mér fannst óþægilegast var að hann notaði eignarfornöfn ótæpilega. Hann sagði að fólki liði svona og hinsegin í hjónabandinu „sínu“ (ekki hans samt), gott ef hann sagði ekki að einhver hefði stokkið upp á nefið sitt (ég er vön því að tala um að einhver stökkvi upp á nef sér) og bitið i handarbakið sitt. Það er erfitt að útskýra þessa meinloku sem mér finnst þetta vera ef fólk hefur ekki hnotið um það sjálft. Ofnotkun eignarfornafna er ekki farin að fara í taugarnar á mér en ég sé að það gæti gerst á komandi árum.

Ofnotkun orðsins „snillingur“ er hins vegar slík að ég get ekki lækað skemmtilegar myndir ef í myndatextanum stendur að „þessi snillingur“ sé orðinn eins árs. Snillingur? Það er eins og var með „einelti“ fyrir nokkrum árum, ef allt sem mönnum er ami að er kallað einelti falla alvöruþolendur í skuggann með alvöruvandamálin.


Skyldurækni

Víst er það göfugt að gera eitthvað af því að maður á að gera það. En ætli það væri ekki leiðinlegt ef fólk heimsækti mann, talaði við mann og drykki með manni kaffi af því að það ætti að gera það?? Það verður að gera fleira en gott þykir en fjandakornið sem það er skemmtilegra að gera gott úr því sem maður þarf og á að gera, t.d. að vera í vinnu, sinna eldhúsverkunum og rækta vina- og fjölskyldubönd.

Ji, hvað ég hlakka til morgundagsins! Mér finnst reyndar allt sem undir mig heyrir í vinnunni skemmtilegt. #heppin #broskall


Heilbrigðispassi?

Mér finnst einhvern veginn að allar leiðirnar sem er einhverra hluta vegna ekki hægt að fara í ferðaþjónustunni, sem hefur tekjur af greiðandi ferðamönnum, séu farnar í heilbrigðisþjónustunni. Eru ekki rukkuð komugjöld, brottfarargjöld og gistináttagjöld á spítölunum? Borgum við ekki fyrir sjúkrabílana, lyfseðla, lyf, sumar skurðaðgerðir og aðra veitta þjónustu þrátt fyrir að greiða skatta? Legugjöldunum - undir því nafni - var snúið aftur fyrir jólin 2013 en ýmsum kostnaði hefur samt verið velt yfir á hina sjúku og slösuðu - sem þykir of í lagt að leggja á ferðamenn ... 


Smávitalán

Ég biðst strax afsökunar á fyrirsögninni. Meiningin er ekki að gefa í skyn að lántakendur séu vitleysingar. Ég er bara svo gröm yfir því að hér séu raunverulega starfrækt okurlánafyrirtæki sem löggjafanum virðist ekki takast að koma böndum á. 

Hvers vegna ekki?

Kjarninn fór í gegnum söguna. Hver á og hver má lána lánlausu fólki smáaura og rukka fyrir það stórfé? Hvurs lags? Mér er fyrirmunað að skilja þetta. Nógu eru bankarnir frekir til fjörsins með þjónustugjöld og vaxtamun, hagnast óskaplega og reka svo starfsmenn af því að starfsmannaveltan er ekki nógu hröð til að hinir stóru blási nógu hratt út.

Nei, ég hef ekki tekið svona lán og veit ekki til þess að ég þekki neinn sem hefur gert það. En einhverjir hljóta að gera það því að púkinn fitnar á fjósbitanum og þetta máttleysi valdhafans gerir mér gramt í geði. Hver ræður annars í þessu landi?


Forsetakjör 2016

Mér finnst Ólafur Ragnar Grímsson hafa verið nógu lengi forseti.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband