Fjalla-Eyvindur flæmdur úr byggð

Í þessum rituðu orðum er verið að frumsýna leikritið Fjalla-Eyvindur og Halla. Ég sá það á forsýningu í gær og var yfir mig hrifin af uppsetningunni. Sagan kom mér ekki á óvart, ég þekki það hvernig Eyvindur (Kári) og Halla felldu hugi saman og þurftu að flýja réttvísina þar sem hann var meintur sakamaður. En stundum missir maður sjónar á því sem er beint fyrir framan augun á manni. Hverju stal Eyvindur sem gerði það að verkum að hann fór úr fæðingarsveit sinni, tók sér annað nafn og villti á sér heimildir? Af hverju þurfti hann að hírast í einsemd (síðar þó tvísemd og jafnvel þrísemd) þegar réttvísin kom aftur auga á hann? Voru lögin svo óbilgjörn? 

Ég las Höllu og heiðarbýlið (eftir Jón Trausta) nýlega og þar þurftu menn líka að verja hendur sínar og æru án sjáanlegs glæps, þ.e. Hjalti hennar Önnu. Yfirvaldið hafði tögl og hagldir og réttarríkið virtist lítils mega sín. Er það ekki breytt?

Ef við værum lausnamiðaðri og fúsari að bæta frekar en að brjóta niður og refsa hefði Eyvindur kannski orðið gegn og góður ráðsmaður eða bóndi, alið börn sín upp í góðum siðum - og orðið öllum gleymdur.


Hvað segir aðkomumaðurinn?

Ég fór á ferðaráðstefnu Landsbankans í gærmorgun. Helst vildi ég vera eilífðarnámsmaður en það er víst ekki í boði. Þá er næstbest að mæta af og til á stuttar ráðstefnur og námskeið. Ef ég kem út með eina nýja hugsun eftir tvo tíma er til einhvers farið. Þegar ég sæki erindi sem vekja áhuga minn hef ég eðlilega einhverjar hugmyndir um efnið og í bland er líka gott að fá staðfestingu á því sem maður vissi og að maður sé ekki á villigötum.

Og mér leið ljómandi vel undir fyrirlestrinum sem Doug Lansky flutti. Hann sagði mér að samfélagsmiðlarnir virkuðu ekki almennilega sem auglýsing - nema maður hefði upp á eitthvað að bjóða. Sum lönd eru með skrilljón læk á Facebook en ekki marga ferðamenn einhverra hluta vegna og önnur litla athygli á Facebook og Twitter en stríðan straum ferðamanna. Orðsporið, ánægði viðskiptavinurinn, selur. Og hann sýndi okkur tæplega þriggja mínútna myndband sem ferðamenn höfðu gert sjálfir af sínu eigin glæfralega teygjustökki. Fólk vill upplifun, ævintýri, nýjung - og staði sem eru ekki yfirfullir af öðru fólki.

Það er háskalegt að fegra og gylla áfangastaðinn, þá verður fólk vonsvikið þegar það mætir. Sá sem reiknar með fagurbláum sjó og gylltri strönd verður svekktur þegar sjórinn er drulluskítugur. Hins vegar getur, ehemm, drullan verið aðlaðandi ef hún er markaðssett sem slík. Og dettur mér þá í hug mýrarboltinn fyrir vestan sem er auglýstur með „Drullaðu þér vestur“. Doug vissi sennilega ekki af því góða átaki en hann sagði okkur hins vegar frá öðru athyglisverðu framtaki, poo bus, strætó sem var settur á götuna í Bretlandi í nóvember sl., strætó sem gengur fyrir lífrænum úrgangi. Og strætóinn er myndskreyttur á viðeigandi hátt.

Þegar ég sagði frá þessu heima í gærkvöldi var ég eðlilega spurð: En hvað með lyktina? Úps, ég gleymdi að spyrja um hana eða velta henni fyrir mér. Hvað stendur í Guardian? Ekki orð. En liggur ekki svarið bara í því að metan er lyktarlaus gastegund?

Hin sjálfsögðu sannindi eru þessi: Í Jökulsárlóni, við Dettifoss, í Ásbyrgi, í Landmannalaugum, við Gullfoss og Geysi og á Laugaveginum er komið of margt fólk. Það þarf að fjölga áfangastöðum og það þarf að styrkja innviðina.

Bingó.

Ég sá bæði ferðamálastjóra og framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar í Silfurbergi í gærmorgun þannig að nú hlýtur að draga til tíðinda ...

Og ekki eru síðri tíðindin sem bárust af Alþingi seint í gærkvöldi. Þá var útbýtt þingmannafrumvarpi um leiðsögumenn ferðamanna. Tíu þingmenn úr fimm flokkum leggja til lögverndun starfsheitisins leiðsögumaður ferðamanna! Félag leiðsögumanna hefur barist fyrir þessu sjálfsagða öryggisatriði frá stofnun þess, 1972. Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni, maður lifandi.

Kveðja,
uppgefni leiðsögumaðurinn


Hvenær hættir maður að heilsa?

Ég er ósköp fljót að segjast þekkja fólk, nátturlega ekki að ég þekki fólk út og inn en með nafni og nóg til þess að talast við úti á götu. En hvenær hættir maður að heilsa fólki? Ég heilsaði í dag manni sem ég hef sennilega ekki talað við í 20 ár. Til hvers heilsast maður þá á Laugaveginum? Er ekki einhver prótókollur um þetta?


Aumingja framkvæmdastjóri SAF

Ég vona að framkvæmdastjóri SAF sé á góðu kaupi. Það hlýtur að vera bæði lýjandi og niðurdrepandi að þurfa að ráðast í sífellu á lægstlaunaða fólkið í einni stoðgrein atvinnulífsins. Ég fullyrði til dæmis að laun leiðsögumanna - sem miklar kröfur eru gerðar til - séu fáránlega lítill hluti af verðmyndun ferðarinnar. Kúfurinn hafnar hjá öðrum en fólkinu á akrinum.

Ég þori ekki að hengja mig upp á hlutföllin en veit að þau eru nærri lagi þegar ég segi að fyrir 10 árum þurfti sex fargjöld í dagsferð til að borga laun leiðsögumanns en núna tvö. Túristinn borgar, það vantar ekki, hann borgar bara ekki leiðsögumanni, bílstjóra eða starfsmanni í gestamóttöku nema sáralítið.


Maraþonferðamennska - heilsutengd ferðaþjónusta?

Ég er uppfull af glænýjum upplýsingum sem ég veiddi upp úr maraþonhlaupara sem fór til Tókíó nýverið, já, einmitt til að hlaupa maraþon. Hlaup er nýjasta dellan mín og þótt ég hlaupi því miður ekki hratt get ég haldið lengi áfram þannig að ég sé fyrir mér að ég muni hlaupa 42,2 km í beit áður en ég verð öll.

Nema hvað, í Tókíó var á dögunum maraþonhlaup ársins 2015 og heimildir mínar herma sum sé að veðrið hafi verið eins og íslenskt vetrarveður. Mér varð svo um að ég spurði einskis frekar en ég man eftir margra stiga hita í janúarmánuðum sum árin þannig að það er ekki endilega slæmt. Svo sagði hann mér að fyrstu 5 km væru niður í móti og það fannnst mér hljóma afar vel. En fyrstu 2 km hlaupa maraþonhlaupararnir með 10 km hlaupurunum, þessar tvær vegalengdir eru ræstar saman og aðrar vegalengdir ekki í boði. Æ, ég sem var farin að gæla við 21,1 (eins og ég ætla að fara í RM í ágúst). Rúsínan í pylsuendanum var svo að flug og gisting í fjórar nætur hefði kostað 160.000 kr. Vúhú. Nema mér finnst tíminn of naumt skammtaður ef maður fer svona grefilli langa leið. En vá, hvað ég væri til í að fara til Tókíó. 

En kannski maður ætti að byrja á Þórshafnarmaraþoninu ...

Ég er farin að skilja betur áhuga útlendinga á að koma til Reykjavíkur í ágúst.


Svíar grínast líka með þegar samlandar þeirra slíta orð í sundur

Facebook á það til að sýna mér skemmtilegar síður, nú síðast sænska síðu þar sem menn skoða það hvernig merking setninga gjörbreytist þegar samsett orð eru slitin í sundur. 

Mus gift i lager.

Eða:

Musgift i lager.

Ég er ekki verseruð til fulls í sænsku en ég held að ég bulli ekki þegar ég þýði þessar tvær setningar svona:

Mýs giftar á lager.

Og:

Músaeitur á lager.

 

Og miðað við Facebook-síðuna er ekkert lát á svona opinberum merkingum. Ég hef bæði skilning á og samúð með þegar fólk hleypur á sig í prívattextum en þegar skilti eru prentuð með ljótum villum er það til muna verra - en maður getur þó alltaf skemmt sér yfir þeim.

 

Annað afar skemmtilegt dæmi:

Rosor super.

Hmm?

Rósir staupa sig.


Fimm skyndiráð um ritun - danskur rithöfundur

Ég er að lesa nýjustu bókina eftir Jussi Adler-Olsen á dönsku. Það er heldur meiri áreynsla en að lesa þýðinguna enda reikna ég með að eitthvað fari fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Ef ég væri með skothelda orðabók og nennti að fletta upp öllum vafaorðum skildi ég vitaskuld meira en þá yrði ég svo sein með bókina (og hún er af bókasafninu þar að auki) þannig að ég læt mér duga að halda þræði og rúmlega það.

En rétt í þessu datt ég inn á smápistil í Berlingske tidende. Rithöfundur gefur fimm hraðsoðin ráð um hvernig maður (Danir) getur orðið betri í --- nei, hvernig maður getur forðast „sprogspasseriet“. Og þar stendur nú hnífurinn í kúnni. Orðið er ekki í Snörunni minni, google-leit hjálpar ekki og google translate ekki heldur. Ég held að orðið hljóti að vera sprog-spasserie, eða er það kannski sprogs-passeri? Ráðin sjálf eru auðskiljanleg í öllu tilliti, kannski dálítið mikið sjálfgefin: maður á að hugsa um það sem maður ætlar að skrifa, fletta upp í orðabókum, lesa það sem aðrir skrifa (og gá sérstaklega að villunum án þess að reka þær framan í þann sem skrifar), æfa stutta texta á Twitter og lesa prófarkalesna texta, s.s. dagblöð og bækur.

Ég VERÐ auðvitað að gera tvær athugasemdir. Ég finn ekki sprogspasseriet í orðabók eða appi (sem er auðvitað bara leiðin að orðabókinni) og því miður eru dagblöð og vefmiðlar á Íslandi ekki yfirlesin af nægilega mikilli alúð enda tíminn of knappur, að því er virðist.

Samt er nú gaman að þessu ...


Marblettótti kjóllinn - þýðing

Ég missti af fyrstu klukkustundum litóða kjólsins í síðustu viku en þegar ég sá myndina af honum var hann bara gylltur og hvítur. Samt skilst mér að hann sé svartur og blár - black & blue sem er einmitt enska fyrir marbletti; blár og marinn. Og nú er búið að hanna hárbeitta auglýsingu gegn ofbeldi úr þessu skemmtilega írafári því að sumir, margir, of margir líta undan og neita að horfast í augu við hið augljósa.

En ég veit enn ekki hvenær gyllt er blátt þótt ég ætti að sjá þegar blátt er marið.

Þessi kjóll hefur sett heiminn á hliðina.


Vestið ,,hans" Daníels

Um daginn sá ég einhvern ergja sig yfir ótæpilegri notkun óþarfra fornafna, sbr. að segja „ég veit að hún Guðrún ætlar að mæta“ eða „ég hitti hann Einar síðast í morgun“ í staðinn fyrir að segja einfaldlega „ég veit að Guðrún ætlar að mæta“ eða „ég hitti Einar síðast í morgun“. Ég er lika á því að tungumálið verði straumlínulagaðra og hljómfegurra þegar merkingarlitlum smáorðum er eytt, sbr. þá sem ég hef litlar mætur á. [„Á morgun þá ætla ég að kaupa þessar buxur.“] Algeng hikorð eru líka (fyrir utan sko og héddna) auðvitað, einmitt, kannski, hér og nú sem geta vitaskuld haft merkingu en gera það oft ekki.

En maður verður líka að gæta sín á ofvöndun. Ég horfði á myndatexta sem ég skrifaði í gær: „Mér dettur helst í hug að vestið hans Daníels hafi hlaupið.“ og fannst ómögulegt að hafa bara: Mér dettur helst í hug að vesti Daníels hafi hlaupið.“ Er það ekki á einhvern máta ópersónulegra?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband