Sama gamla sagan: Ferðaþjónustan

Nú er verkfall úti um landsbyggðirnar eins og menn eru farnir að kalla svæðið utan höfuðborgarsvæðisins. Ég geri ekki ágreining út af orðalaginu, ég er að velta fyrir mér verkfallinu. Það kemur víða við og ekki síst í ferðaþjónustunni. Ég veit ekki hvort leiðsögumenn munu njóta góðs af þegar úr greiðist en ferðaþjónustan er sannarlega ekki lengur tímabundið „ástand“, ferðaþjónustan er orðin að heilsársatvinnugrein.

Og ég er að hlusta á viðtal við formann Félags leiðsögumanna sem var spilað í Samfélaginu í vikunni. Örvar er málefnalegur, yfirvegaður og skýr í tali. Nú verða leiðsögumenn að fara að fá löggildingu á starfsheitið - og hærri laun. Það þykir vanta menntun inn í ferðaþjónustuna. Það hafa alla tíð verið gerðar miklar kröfur til leiðsögumanna. Nú þurfa launin að fylgja.

 

Ísland allt árið.


Bræðslur og frystiklefar fá nýtt hlutverk

Við þekkjum hátíðir hérlendis, Aldrei fór ég suður og Bræðsluna svo dæmi séu nefnd, sem eiga uppruna sinn í húsum sem hafa verið yfirgefin vegna breyttra forsenda, t.d. í sjávarútvegi. Ég hef oft horft á yfirgefnu bæina á Suðurlandi og velt fyrir mér hvort ekki væri vert að bjóða listamönnum úr ýmsum áttum, myndlistarmönnum, skáldum og tónlistarmönnum svo dæmi séu nefnd, til að vinna að list sinni þar og enda með einhvers konar sýningu. 

Og nú birtist leiðari í Fréttablaðinu um vel sótt en afskekkt listasafn í Tasmaníu og ég rifja aftur upp Frystiklefann á Rifi sem hefur verið breytt í menningarhús og farfuglaheimili.

Meira svona, takk. Ég hef sýnt að ég mæti.


Leiðsögumaður allt árið

Maður heyrir í fréttum að yfirvofandi verkföll muni hafa þannig áhrif á ferðaþjónustuna að hún fari langleiðina á hliðina. Það eru vondar fréttir en í mínum augum er þeta nauðsynlegt ef það á að vera einhver von til þess að fólkið á gólfinu fái sanngjörn laun fyrir vinnuna sína. Í þessu samhengi ætla ég að leyfa mér að undra mig upphátt á fögnuðinum sem mér virðist hafa brotist út yfir „bónusgreiðslunum“ sem tókst að semja um við HB Granda. Grunnlaun eiga að vera mannsæmandi og þau eiga að heita grunnlaun, ekki bónusgreiðslur, ekki yfirvinna, ekki óunnin yfirvinna, ekki bílastyrkur, bílapeningar, þrif eða matartímar. Sumir hafa til dæmis viðrað þá skoðun að leiðsögumenn fái þjórfé og því megi launin vera lægri. Í fyrsta lagi hefur þjórfé ekki tíðkast hjá sumum þjóðernum, ég held að Skandinavar borgi ógjarnan þjórfé, Bretar ekki endilega, ekki Hollendingar. Það eru helst Bandaríkjamenn og líklega svo Þjóðverjar. En nú er ég svolítið að giska. Það sem ég hins vegar man frá áratugnum mínum í ferðaþjónustunni var að þjórfé minnkaði stöðugt, og var svo sem aldrei uppgrip í dagsferðunum. Stærsta flugfélagið skrifaði inn í bæklingana sína að þjórfé væri illa séð. Eða ætlar einhver að hrekja það?

Mér finnst sem sagt að fólk eigi að fá mannsæmandi grunnlaun. Ég held að SAF séu aðeins að vitkast í þessum efnum og það verður spennandi að sjá hvernig sumarið 2015 leggur sig.


Facebook-reglur

Ég veit að í dag er sumardagurinn fyrsti og allir að velta fyrir sér hvort árstíðirnar hafi frosið saman. Samt er ég að velta fyrir mér reglum um myndbirtingar á netinu, einkum Facebook. Ég á litla myndavél en hef alltaf tekið og tek enn margar myndir. Alltaf þegar ég fer með gönguhópnum mínum á fjöll eða geng gamlar þjóðleiðir, alltaf þegar ég fer eitthvað með hlaupahópnum mínum, alltaf þegar einhverjir hópar sem ég tilheyri gera eitthvað dreg ég upp myndavélina. Ég á litla myndavél sem ég nenni alltaf að hafa með mér og gæðin eru ágæt en ekkert í líkingu við þau bestu. Og mér finnst bara skemmtilegt þegar fólk sýnir myndunum mínum áhuga (yfirleitt myndefninu) en í síðustu viku lenti ég í því að maður sem ég þekki lítið tók mynd sem ég hafði tekið af honum og setti á Facebook-vegginn sinn án þess að láta þess getið að hún væri fengin frá öðrum.

Já, hún er af honum og já, hún er ekkert meistaraverk og já, ég gæti talað um þetta við hann og já, ég mun ekki oftar taka mynd af honum (þótt ég hafi ekkert sagt við hann) en ég er bara að velta fyrir mér fræðilega hvað fólki finnst eðlilegt. Ég merki ekki myndirnar mínar með nafni eins og sumir gera en þegar myndum er deilt á Facebook eða fólk einfaldlega merkir sig þannig að myndin birtist hjá því sést hvaðan myndin kemur. 

Þetta finnst mér svo sjálfsagt og þegar ég hef tekið mynd frá öðrum og gert að opnumynd hjá mér segi ég hver tók hana. Þegar ég bið hins vegar einhvern að taka mynd af mér á mína myndavél og nota hana í myndasögu úr einhverri ferð finnst mér óþarfi að tíunda hver tók myndina fyrir mig. Ég vel myndefnið, staðinn og stellinguna. En kannski ætti ég að gera það. Eða er „reglan“ bara sú að myndir sem settar hafa verið á netið séu sameign allra sem horfa á þær?


Vigdís á afmæli

Í dag er 15. apríl og í dag er Vigdís Finnbogadóttir 85 ára gömul. Ég man þegar hún var kosin forseti 1980, ég var ekki komin með kosningarrétt en ég vakti yfir sjónvarpinu alla nóttina. Ég hefði ekki kosið hana, ég HÉLT MEРGuðlaugi Þorvaldssyni ríkissáttasemjara, sennilega af því að mamma og pabbi kusu hann. Sem betur fer hef ég vitkast með árunum.

Mér finnst merkilegt að hafa lifað þann tíma sem Vigdís varð og var forseti. Framboðsfundur sem nýlega var rifjaður upp í sjónvarpinu sýnir stórkostlegt brot af henni. Þegar hún er spurð hvort það eigi að kjósa hana vegna þess að hún sé kona segir hún: Nei, það á að kjósa mig af því að ég er maður.

Heilu áhafnirnar lýstu yfir stuðningi við hana og þótt hún hafi bara verið kosin með um þriðjungi greiddra atkvæða varð hún fljótlega forseti flestra Íslendinga. Tvímælalaust forsetinn minn, talsmaður tungumálsins og náttúrunnar, fjölfróð og glæsileg á velli. Ég er hreykin af því að samlandar mínir hafi tekið hana fram yfir Guðlaug, Albert Guðmundsson og Pétur Thorsteinsson og mjög stolt af að hún hafi verið forsetinn minn.

Og hún ber enn hróður okkar víða.


Túristi nr. 1.000.001

Ég hef loðað við ferðaþjónustuna í rúm 10 ár. Allan þann tíma hefur verið þrálát umræða um aðstöðuleysi. Nú opnar enn einn ferðaþjónninn munninn - og ég er ekki að gagnrýna hann - en er ekki bráðum búið að tala nóg? Hvað þarf til? Umtalsverðan fjölda af klósettum og vöskum, gjaldhlið eða álíka og talsverðan fjölda sem þrífur eftir gestina.

Fleira? Ég held ekki.

Annars man ég eftir salernum í Seltúni. Kannski eru þau orðin full.


Að ganga í strætó

Ég segi það satt að strætó er ekki vinur minn. Ég opnaði straeto.is í gærkvöldi og ætlaði að finna út hvernig ég kæmist úr Glæsibæ í Álfheimum niður á Lækjartorg í dag. Í reitinn brottfararstaður sló ég Álfheimar 74 og áfangastað valdi ég Lækjartorg. Fyrsti gefni kostur var leið 3. Ég skoðaði legg á korti og sá að ég þyrfti að ganga yfir alla Skeifuna og út á Miklubraut. Og næsti möguleiki var eins og þriðji og fjórði. Enginn vagn bauðst niður Suðurlandsbrautina. Það er sko ekki ofverkið mitt að skondrast í gegnum Skeifuna en ég ætlaði bara 4 km leið á áfangastað og þegar ég lagði gönguna af Suðurlandsbraut við biðtímann var augljóst að ég myndi sáralítinn tíma græða.

Ég gekk niður í bæ og enginn vagn tók fram úr mér á Suðurlandsbrautinni. Þetta er það sem strætó gerir fyrir mig. 

Af því að bíllinn er ekki heima og af því að hjólið er vindlaust fer ég gangandi mest það sem ég þarf og síðustu þrjá dagana eru það orðnir 30 km, skemmtileg tilviljun að þetta eru einmitt fyrstu þrír dagarnir í sérstakri gönguáskorun ...


Endurgjöf

Þegar ég bið um endurgjöf er ég ekki endilega að biðja um klapp á bakið. Ég er að biðja um að mér sé stundum sagt frá því sem ég geri vel og líka að ég fái að vita af því sem ég geri ekki nógu vel til að ég geti bætt það.

Er það ekki almennur skilningur?

Snara tekur ekki af skarið:

endur|gjöf

KVK sálfr.
skynjanleg viðbrögð viðtakanda við tjáningu, áreiti e.þ.h. sem orka örvandi á sendanda tjáskipta, ans
(e. feedback)

Frystiklefinn fékk Eyrarrósina

Ég fékk hamingjuskot þegar ég heyrði að Frystiklefinn á Rifi hefði fengið verðlaun um helgina - einmitt þegar ég var þar í fyrsta skipti. Kári Viðarsson hleypti þessu verkefni, farfuglaheimili og menningarkima, af stað í júlí á síðasta ári og fyrsta reynsla af að vera þar er algjörlega dásamleg. Við gistum þar nokkur úr gönguhópnum Veseni og vergangi af því að við ætluðum í göngu frá Djúpalóni að Öndverðarnesi á föstudaginn langa og einmitt á skírdag kom Pétur Eggerz þangað með sýningu sína, Eldklerkinn

Frystiklefinn á Rifi

Það mætti segja mér að við ættum eftir að fara þangað aftur - og eiga gleðilega páska eða eitthvað.


Íspinni - eða ísterta?

Ég þurfti að hafa svolítið fyrir að finna þetta ádeiluvídeó um misskiptingu hagnaðarins. Kannski er einhver á öldum internetsins sem hefur ekki séð það ... fyrr en nú.
 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband