*Skrifaðu flugvöll*

Allir vilja greiðar samgöngur. Allir vilja hámarka öryggi. Allir vilja hagkvæmni.

Ég vil flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni og tel, vissulega tilfinningalega, að hann færi mun betur annars staðar. Ég hef ekkert haft á móti því að færa hann til Keflavíkur, en Keflavík er samt ekki endilega besti staðurinn. En hlýtur það ekki að þjóna hagkvæmninni að hafa innanlands- og millilandaflugvöll á sama blettinum?

Niðurstaða Rögnunefndar hljómar eins og dýrðarinnar tónlist í mínum eyrum. Já, það er tilfinning mín að a) það sé óheppilegt að flugvélar fljúgi yfir þéttustu byggðina á leið til lendingar, b) það gæti þjónað stórum hópi fólks að fljúga utan af landi og geta gengið inn næsta gang til að komast til útlanda og c) sjúklingar þoli aukalega 12 mínútur sem bætast við 150 mínútna meðalferðatíma. Kannski þarf að bæta aðeins við heilsugæslu um borð.

Hingað til hafa aðallega heyrst tilfinningaleg rök með flugvellinum á sama stað, ekki síst að það ógni öryggi sjúklinga og slasaðra að hafa hann annars staðar. Í alvöru? En ef heilbrigðisþjónustan yrði færð, er þá áfram vegið að öryggi sjúklinga að lenda annars staðar, t.d. nálægt nýrri bráðadeild?

Fólk sem á erindi til Reykjavíkur á svo heldur ekki allt erindi í 101.

Fyrir launamann eru 22 milljarðar mjög há upphæð en ef við skoðum 700 milljarða kr. veltu þjóðarbúsins er þessi rosalega háa upphæð aðeins um 3%. Svo má reikna með að eitthvað fáist fyrir landið í Vatnsmýrinni þegar það verður selt, ekki satt? Og hvað með samlegðaráhrifin þegar innanlands- og millilandaflugið verður komið undir sama þak?

Að öllu samanlögðu lofar þessi niðurstaða góðu og nú hlakka ég til að heyra framhaldið. 


Fyrstupersónuflótti

Mér finnst það hafa aukist, kannski bara frá því í síðustu viku, að fólk skrifi í leiðarlýsingum sínum (á Facebook): Gengið var upp fjallið, horft á sólarlagið og farið aftur niður þar sem nestið var loksins borðað. Mér finnst fallegra að nota 1. persónu og segja: Við gengum upp fjallið, horfðum á sólarlagið, fórum aftur niður og borðuðum loks nestið. (Ekki verra: Við gengum upp fjallið, sáum sólina setjast og rísa á ný áður en við fikruðum okkur aftur niður og gæddum okkur loks á smurða brauðinu. Eða eitthvað ...)

Ætli fólki finnist það of sjálfhverft ef það talar út frá sjálfu sér í stað þess að nota þolmynd? Varla, um leið eru teknar svo margar sjálfhverfur ... (Um leið tekur það svo margar myndir af sjálfu sér ...)

Best að ræða þetta á kaffistofunni við tækifæri. Nema þú viljir leggja eitthvað til málanna. laughing


Ferðaþjónusta í boxinu

Nú um helgina gekk ég í tvo daga í Dölunum. Við vorum 30 saman, hópur sem tilheyrir gönguhópnum Vesen og vergangur. Uppáhaldsferðaskipuleggjandinn minn, hann Einar, skipulagði gönguna frá Langavatni að Hítarvatni með viðkomu á Seljalandi þar sem við gistum. Að sönnu er dásamlegt að eiga heiminn frá upphafi til enda og rekast ekki í sífellu á annað fólk en maður getur ekki annað en undrað sig á því að ganga 55 km leið á tveimur dögum og rekast ekki á nokkurn mann fyrr en á endastað þar sem tveir menn stóðu í vatni upp í nára og sveifluðu veiðistöngum. Vegalengdin er upp á kílómetra sú sama og Laugavegurinn milli Landmannalauga og Þórsmerkur sem er mjög fjölfarinn og virðist njóta varanlegra vinsælda, gott með það, en göngufólk mætti kannski líta aðeins í kringum sig. Eins og Einar.

Og þetta á ekki síður við um ferðaskrifstofur sem selja útlendingum ferðir. Mörg svæði eru sprungin eins og oft er talað um í fréttum og það er löngu tímabært að hugsa út fyrir boxið og fjölga viðkomustöðum. Vatnaslóðirnar falla tvímælalaust í þann hóp.

Langavatn > Seljaland > Hítarvatn 


Sannfæring fyrir [einhverju að eigin vali]

Ég hef fullt af skoðunum. Sumar viðra ég, aðrar ekki. Um sumar skrifa ég en margar ræði ég bara við fólk í nærumhverfi mínu. Sumar eru afdráttarlausar, sumar eru í takt við skoðanir flestra en stundum syndi ég gegn straumnum. Í kosningum er ég óvissuatkvæði og hlusta á það sem frambjóðendur segja og reyni að horfa á hvernig þeir hegða sér.

Fullt af áberandi fólki hefur fullt af skoðunum. Margt af því fólki segir samt bara það sem við búumst við og margt fólk er orðið að eins konar stofnunum. Það er eðlilegt, t.d. í pólitík þar sem fólk þarf að kynna sig hratt og örugglega og vill ekki koma aftan að kjósendum sínum. Kjósendur vilja heldur ekki láta koma sér á óvart í mikilvægum málaflokkum.

Það er sem sagt skiljanlegt og ekki óskynsamlegt að vilja vita hvar maður hefur fólk.

En djö er gaman að sjá og heyra blóðið renna í fólki. Ég þori ekki að nefna nærtækt dæmi úr síðustu viku en ætla hins vegar að hrópa húrra, eins og margir aðrir, fyrir Halldóru Geirharðsdóttur sem fékk verðlaun á Grímunni og leit á það sem tækifæri til að tjá sig við stóran hóp fólks í gegnum glugga á sviðinu. Ég get viðurkennt að ég er sammála Halldóru um að við eigum að rétta úr okkur og ákveða hvernig samfélag við viljum vera en ég hugsa að þó að ég hefði mögulega verið ósammála henni hefði ég hrifist af ákefðinni. 

Sannfæringarhiti er máttugt tæki.


Jón Sigurðsson mótmælandi

„Vér mótmælum allir,“ sagði Jón Sigurðsson með um 40 öðrum þingmönnum 1. júlí 1851 þegar fulltrúi danska kóngsins vildi slíta fundi íslenskra þingmanna af því að hann óttaðist að ella myndu þeir tala geyst um sjálfstæðishugmyndir sínar. Alveg óháð tilefninu finnst mér vandfundinn heppilegri dagur til að mótmæla einhverju sem ógnar sjálfsögðu sjálfstæði okkar en afmælisdagur Jóns Sigurðssonar.

Til hamingju með daginn.


Verkfallsréttur - eða ekki

Ég vinn á skrifstofu og hef ekki verkfallsrétt. Sönn saga. Ég held að það þurfi að verða breið og málefnaleg umræða um þær stéttir sem eru með verkfallsrétt og sitt eigið samningsumboð. Er kjararáð svarið? Ég get ekkert tjáð mig um yfirvofandi lagasetningu vegna þess að við fáum ekkert að vita um bilið milli viðsemjenda. Samt finnst mér þetta koma mér við.

undecided

Hver ákveður upphæðina ef heilbrigðisstéttir eiga bara að þiggja það sem þeim er rétt? 


Stemningshlaupið á hálum?

Ég skráði mig í litahlaupið þegar það var fyrst kynnt til sögunnar. Í mörg herrans ár hef ég tekið þátt í keppnishlaupum án þess að æfa nokkru sinni. Mér hefur þótt gaman að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni, Jónsmessunæturhlaupi, Fossvogshlaupi, Rauðakrosshlaupi o.s.frv. af því að þar er sjálfsprottin stemning. Ég hef ekki haft metnað til að slá neinar sérstakar keilur, bara viljað hafa gaman. Þegar 6. júní 2015 nálgaðist og litahlaupið var auglýst alveg botnlaust runnu á mig tvær grímur hið minnsta og ég missti áhugann, og það þótt „ágóðinn ætti að renna til Unicef“ eða hver þiggjandinn átti að vera og hvernig sem það var orðað.

Ég var í miðbænum á laugardaginn og sá eitthvert brot af hlaupinu og síðan sá ég mjög mikið til þess á Facebook. Sem betur fer hafði fólk augljóslega gaman og það er frábært. En kostnaður við hlaupið, auglýsingar, litapúðrið, starfsmenn, bolir og verðlaun, hefur væntanlega tekið kúfinn af „ágóðanum“ þótt keppendur/þátttakendur hafi trúlega í mörgum tilfellum borgað 3.500 og 6.500 með glöðu geði í trausti þess að góðgerðarsamtök fengju góðan skerf af þátttökugjöldunum. Eða kannski er alls kyns fólk ekkert að velta þessu fyrir sér þótt Unicef sé veifað eins og gulrót framan í það.

Kannski man ég bara of vel spillingarfréttir af fjársöfnun kirkjunnar til að treysta því í blindni að markaðsmenn sem fara af stað undir því fororði að láta Unicef og Rauða krossinn njóta góðs af svona átaki meini það sem þeir segja og segi það sem þeir meina. Og Stundin teflir fram slíkri frétt í dag. Er bókhaldið uppi á borðinu? Getum við fengið að vita hversu hátt hlutfall söfnunarfjár fer þangað sem það nýtist best?

En ég hef ekki heyrt neinn keppanda kvarta svo því sé haldið til haga. Þetta er sennilega bara meinbægni í mér ...


Stolin ritgerð

Í mínu fyrra lífi kenndi ég ritgerðasmíð, textameðferð, heimildanotkun og tilvísanir, að vísu ekki í háskóla. Þegar ég hætti framhaldsskólakennslu var internetið rétt að byrja að ryðja sér til rúms þannig að bíræfnustu nemendur mínir afrituðu texta úr bókum, jafnvel fræðibókum sem við notuðum í tímum, án þess að geta heimildar. Það heitir ritstuldur og ég brást ókvæða við þegar ég stóð nemendur að honum. Ég veit auðvitað bara um dæmin sem ég uppgötvaði en þegar maður þekkir nemendur sína veit maður nokk til hvers þeir eru líklegir, maður þekkir orðanotkun og áferð texta úr prófum.

Því er síður til að dreifa þegar háskólakennarar taka að sér að leiðbeina útskriftarnemendum. Engu að síður verð ég að lýsa undrun minni ef rétt er farið með upplýsingar um nemandann sem skáldaði viðtöl við fólk í ferðaþjónustu. Ritgerðin hefur verið fjarlægð úr Skemmunni enda eitthvert ferli farið í gang, vonum seinna ef eitthvað er að marka fréttaflutning.

Ef ég hefði verið beðin að prófarkalesa ritgerðina hefði ég hnotið um misræmið í orðalagi rannsóknarspurningarinnar fremst og aftast. Ég sver það. Hvernig viðskiptafræðingur verður maður sem vandar sig ekki við neitt í lokaritgerðinni sinni? Hvað má segja um deild í HÍ sem lætur svona líðast? Hversu mikil brögð eru að svona nokkru? Hversu mörg dæmi uppgötvast ekki?

Ég er dálítið bit þótt ég geti tekið undir þau orð rektors að ekki megi dæma heila stofnun þótt einn nemandi af 14.000 gerist brotlegur. Þetta er samt spurning um verklag ...


Kvennaþing?

Samkvæmt Hagstofunni vorum við 329.100 manns 1. janúar sl. Ég hef greinilega misst af fjölgun upp á 5.000 eða svo síðan ég fór í mínu síðustu ferð sem leiðsögumaður. Þar af eru konur 163.914 og karlar þá 165.186, nokkuð jafnt. Tæplega 80.000 eru ekki komin með kosningarrétt en 250.000 hafa hann og eru kjörgeng að auki. 

Má útiloka 125.000 Íslendinga í kosningunum 2017? Ragnheiður Ríkharðsdóttir varpaði þeirri róttæku hugmynd fram á þingi í gær. Hvað gæti áunnist? Það gæti sannast að konur vinni betur saman. Að konur séu lausnamiðaðri en karlar. Að konur skipi sér ekki í fylkingu stjórnar og stjórnarandstöðu, fari vel með fé, afstýri verkföllum, jafni launin, miðli málum, leysi málin. En auðvitað eru 63 konur einstaklingar eins og 63 manns yfirleitt. Kyn er bara ein breyta; uppeldi, menntun, gen, félagsskapur og tilviljun skiptir líka máli þegar manneskja verður til, þroskast og gerir sig gildandi. Þær konur sem byðu sig fram ættu það væntanlega sameiginlegt að vilja láta kjósa sig og vildu sjálfsagt hafa áhrif á þjóðmálin.

Og mögulegir gallar við hugmyndina? Að vondar konur yrðu fyrir valinu; áhugalausar, heimskar, illa meinandi, gírugar, latar og ólæsar á tölvur.

En ætli við gætum ekki fundið 63 dugmiklar og klárar konur í safni 125.000 kvenna? Ég er svolítið skotin í þessari hugmynd á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna (jú, skv. stjórnarskrá eru -rr- í orðinu) þar sem öll kerfi útiloka fullt af fólki hvort eð er. En hugmynd þingmannsins er að ekki þyrfti að vera um að ræða stjórn og stjórnarandstöðu, bara hóp (kven)manna sem ynni sameiginlega að markmiðunum. Útópía?

Önnur hugmynd er að velja tilviljunarkennt úr þjóðskrá. Það er líka athugandi ...


Vesen og vergangur - til fyrirmyndar

Það er merkilegt hvað maður skrifar stundum lítið og jafnvel ekki neitt um fólk og fyrirbæri sem skipta mann miklu máli. Gönguhópurinn Vesen og vergangur (andheiti, markmiðið er að losna við vesen og vergang með því að leigja rútu til að fara mörg saman í gönguferðir A-B) hefur verið snar þáttur í félagslífi mínu og risastórt áhugamál í bráðum fjögur ár og ég held að ég hafi aldrei nefnt hann á blogginu. Hann er hins vegar umfangsmikill á Facebook-síðunni minni. En nú langar mig allt í einu að birta eina mynd sem ég tók í gær þegar við vorum að klára 15 km göngu úr Bláfjöllum yfir að Hlíðarvatni við Selvog.

IMG_0092

Þegar við komum niður á veginn sýndist okkur uppgufun stafa frá vatninu. Það reyndist hins vegar flugnager mikið og ég tók mynd af því þegar við vorum komin inn í rútuna og keyrðum inn í sveiminn. Auðvitað er gaman að horfa til fjalla og jökla, stöðuvatna og mosaþembna en það er líka svo gaman að láta koma sér á óvart og upplifa eitthvað glænýtt. Ég held að ekkert okkar hafi séð svona mikið mý í einu. Eymingjans flugurnar lifðu það ekki allar af að rútan keyrði inn í „þvöguna“.

Liðin lík

Að lokum er ástæða til að nefna að Einar Skúlason, forsprakki gönguhópsins, var að fá í hendurnar lausblaðabók með 20 leiðarlýsingum, kortum og örsögum og útgáfuhófið verður á fimmtudaginn í Cintamani-búðinni í Bankastræti kl. 17. Mér er nú líka málið skylt ...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband