Nauthólsvík - borga eða ekki?

Í fyrrasumar byrjaði ég að stunda sjósund, þ.e. ég fór í Nauthólsvíkina flesta þá daga sem ég var í bænum, synti í 10 mínútur og fór í stóra pottinn. Það var undir hælinn lagt hversu lengi ég staldraði við, stundum var ég í nokkrar mínútur en stundum meira en klukkutíma, fór eftir þeim tíma sem ég hafði, veðri og félagsskap. Og nú skal viðurkennt að ég hef sáralitlu eytt á staðnum sem kemur til af þeirri einföldu ástæðu að ég kem alltaf hjólandi og vel að taka engin verðmæti með mér af því að maður getur ekkert læst inni. Búningsklefarnir eru frumstæðir, engir skápar, varla ylur þar inni og ég dríf mig bara upp úr, í sturtu, í fötin, út og hjóla heim.

Nú eru uppi hugmyndir um að fara að rukka fyrir aðstöðuna.

Í fundargerð ÍTR frá 21. ágúst segir:

2. Lögð fram að nýju svofelld tillaga meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata vegna Nauthólsvíkur:
 
Íþrótta- og tómstundaráð felur sviðsstjóra að útbúa hugmyndir um gjaldtöku við Nauthólsvík allan ársins hring. Tillögur verði lagðar fyrir ráðið.
Greinargerð.
Reykjavíkurborg greiðir þjónustu við Nauthólsvík svo sem búningsklefa, heitan pott og gufu og starfsmenn allan ársins hring. Eðlilegt er að iðkendur greiði fyrir þá þjónustu sem þar er veitt.
 
Samþykkt samhljóða.
 
Tilfinningar mínar eru beggja blands. Fyrir örfáum árum var ekki heldur rukkað inn í búningsklefana á veturna. Sumir urðu dálítið foj þegar byrjað var á því. Í mínum augum er þetta þó fyrst og fremst undir þjónustunni komið. Ef ég get læst dótið inni er það aukin þjónusta sem er eðlilegt að rukka fyrir. Ef sturturnar verða alltaf ásættanlega heitar finnst mér sömuleiðis sjálfsagt að rukka. Í hálfan mánuði í sumar voru þær hrollkaldar. Ef búningsklefinn er upphitaður er það kostnaður sem er eðlilegt að fá til baka í formi aðgangseyris. Þegar eitthvað hefur verið ókeypis er erfitt að byrja að rukka fyrir það og þá þarf að auka þjónustuna.
 
Sumir kunna kannski vel við það hve frumstæð aðstaðan er en ég get vel sætt mig við aukna þjónustu og eitthvert gjald fyrir hana.
 
En tillaga meiri hlutans er nú lögð fram öðru sinni. Hvað gerðist í hið fyrra sinn?

... skila arði? Eða greiða vexti?

Í hádegisfréttum RÚV var viðtal við Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans, um arð til hluthafa og arð til eigenda, landsmanna.

Við erum öll meira og minna að verða ónæm fyrir upphæðum og ég tók ekki eftir hvort arðurinn var 2, 20 eða 200 milljarðar (ekki alveg satt) en svo sagði bankastjórinn að ekki væri hægt annað en að greiða þeim 200 milljörðum sem væru í vinnu arð (eigendum þeirra eins og ég skil það).

Væri þá ekki nær að tala um að fjárfestar legðu peninginn sinn inn í bankann eins og við landsmenn gerum og fengju svo vexti á inneignina? Er það ekki hægt vegna þess að þeirra vextir yrðu 20% en okkar hinna 0,2% þótt útvextir séu 10%?

Launþegar og litlir sparifjáreigendur eru pirraðir út í fjárfestana hvort eð er. Væri ekki betra að tala um hlutina eins og þeir eru? 


Maraþondagurinn

Ég er frekar þrautseig en ekki hraðskreið á hlaupum. Ég hef aldrei haft metnað til að verða afreksmaður í íþróttum en ég vil hreyfa mig, vera hraust og hafa gaman. Og mér finnst gaman að heyra fólk hvetja til þess arna.

Fyrirlestur Halldóru Geirharðs var feiknarlegur innblástur á hádegisfundinum í dag. Góð vísa er aldrei of oft kveðin og hún tók okkur vara við því að óttast hið óþekkta. Sjálf tók hún þeirri áskorun að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu þrátt fyrir að hlaupa aldrei. Ekki síður var athyglisvert hvernig hún talaði sjálfa sig inn á að vera ekki börnum sínum slæm fyrirmynd þegar fjölskyldan var á heimshornaflakki og lagði leið sína í hinn dimma og óþekkta Amazon-skóg.

Og kannski var Kathrine Switzer ekki með nein glæný sannindi þegar hún talaði um hvernig konur hefðu ekki mátt keppa í maraþonhlaupum -- en það er bara vegna þess að hún er meðal þeirra sem ruddu brautina. Ég vissi ekki í síðustu viku að konum hefði verið bannað að keppa og borið við að þær gætu orðið skeggjaðar og fengið legsig! Í ár eru 100 ár liðin síðan konur á Íslandi fengu kosningarrétt. Okkur þykir það sjálfsagt í dag en okkur er hollt að minnast þess að áfangarnir í jafnréttismálum vinnast ekki baráttulaust. Og við eigum að halda áfram að velta steininum.

Það geislaði alveg af Kathrine SwitzerOg nú er til 261-klúbburinn sem er hvatning til kvenna


Kathrine Switzer

Spennan fyrir RM vex. Nú er Íslandsbanki búinn að flytja inn merkiskonu til að hvetja okkur, bæði í jafnréttismálum og á hlaupum, eins og ég skil lýsingarnar. Á morgun verður áreiðanlega fjölsóttur fyrirlestur í Hörpu þegar Kathrine Switzer segir okkur frá því hvernig mótshaldari ætlaði að bola henni úr keppni í Boston árið 1967. Þá var hún tvítug, hafði æft mjög vel og var búin að skáka þjálfaranum sínum. Það var fyrir 48 árum! Þá trúðu menn því að konur hefðu ekki skrokk til langhlaupa. Hvað heyrði ég? Að legið gæti sigið og eggjastokkarnir eyðilagst?

Kathrine Switzer afsannaði það svo sem ekki en fjöldi maraþonhlaupakvenna á börn engu að síður.

En þegar ég smelli á fréttina á RÚV sé ég bara villuna.

„Hún braut blað í sögu maraþonhlaups með því að hlaupa maraþonið í Boston fyrst kvenna árið 1697.“

 


Hlaupastyrkur eða hlaupaáheit

Nú þarf ég að stíga varlega til jarðar. Eftir rúma viku er árvisst Reykjavíkurmaraþon, dásamlegur viðburður sem ég hlakka til á hverju ári. Ég hef tekið þátt síðan 1985 þegar RM byrjaði, skokkaði í skemmtiskokkinu, 7 km, meðan það bauðst og uppfærði mig svo í 10 km þegar 7 km buðust ekki lengur. Alltaf án æfingar.

Síðustu árin hefur RM verið vettvangur ýmiss konar söfnunar. Flestar safnanirnar eru góðra gjalda verðar, margir eru verðugir -- en almáttugur, alltof margir þykjast vera að hlaupa í nafni góðgjörðarsamtaka. Ef fólki er alvara með að vilja láta gott af sér leiða á það að leyfa einhverjum einum að safna fyrir tiltekinn félagsskap og styrkja hann en ekki dreifa þessu út um allt.

Í fyrra strengdi ég þess heit að styrkja engan en á endanum lét ég undan og lagði inn hjá nokkrum af því að þetta verður svo persónulegt, fólk verður leitt yfir að safna engu eða mjög litlu. Keppendur auglýsa styrksíðurnar sínar á Facebook og vinir þeirra læka í gríð og erg -- og leggja svo ekki inn. Hvað er það? Eru einhver gæði fólgin í að smella læki á að einhver sé að safna, þ.e. reyna að safna? Ef ég læka legg ég líka inn og það finnst mér að eigi að vera reglan.

En það sem mér gremst umfram allt er að þetta sé kallað áheit. Þetta eru ekki áheit, þetta eru styrkir og svo sem gott með það. Ef þetta væru áheit myndi maður geyma peninginn þangað til fólk hefði sannanlega farið vegalengdina. Þá væri maður að heita á keppendur að þeir kæmust á leiðarenda. 

Hvernig er annars með Strandarkirkju sem fær fúlgur fjár í áheit á hverju ári? Heitir ekki fólk á hana og ef það fær bata, endurheimtir ástvin eða hvað það er sem það helst óskar sér borgar það upphæðina sem það hét á kirkjuna?

Annars hlakka ég bara til að hlaupa mitt hálfa maraþon 22. ágúst og heiti á veðurguðina að tryggja mér gott hlaupaveður og láta hnéð duga í tilskilinn tíma. Þá skal ég ekki nöldra neitt 23. ágúst ...


Vegur um Teigsskóg

Dálæti mitt á Vestfjörðum er ærið en dálítið nýtilkomið þannig að ég er enn að reyna að glöggva mig á ýmsu. Teigsskógur er þar á meðal. Ég er nýbúin að keyra Þorskafjörðinn fjórum sinumm og hef algjörlega látið undir höfuð leggjast að skyggnast um eftir Teigsskógi. Hvar er hann? Nálægt minnismerkinu um Matthías Jochumsson (frá Skógum!)? Hins vegar hef ég spjallað um hann við heimamenn á Patró og Tálknafirði sem og norðar á Vestfjörðum, svo sem í Bolungarvík, og ég fæ ekki betur heyrt en að menn þar séu á einu máli um að Teigsskógur sé eins og annað birki (endilega skiljið ekki orð mín sem beinar tilvitnanir) og það sé út í bláinn að nota ekki svo gott vegstæði fyrir láglendisveg. Staðkunnugir vilja sleppa við hálsana, ekki síst á veturna, og finnst óþarft að varðveita birkið í Teigsskógi sem er víða að finna hvort eð er.

Ég les aðsendan pistil á Reykhólavefnum. Hann er að megninu til afrit af frétt Stöðvar 2 og það litla sem Dýrfirðingarnir skrifa í eigin nafni er að mínu mati fullmiklar blammeringar af því að þeir leggja í raun ekki til neinn rökstuðning sjálfir. Kannski eru þeir búnir að tala af mikilli rökvísi oft og mörgum sinnum á öðrum vettvangi og nú farnir að reyna annars konar nálgun. Ég skal ekki segja.

Svo sé ég grein með skóginum frá árinu 2007 sem byggir á þeim tilfinningarökum að skógurinn sé fallegur og að hægt sé að leggja göng um Hjallaháls og jafnvel líka Gufudalsháls og þannig bæta samgönguæðarnar. Ég er hlynnt tilfinningarökum en samt hlynntari staðreyndum.

Er sams konar birki úti um alla Vestfirði?

Fyrir fjórum árum var lögð fram þingsályktunartillaga um þjóðgarð við Breiðafjörð norðanverðan. Hún varð ekki útrædd frekar en margar þingmannatillögur en af umræðunni má skilja að menn reyni að hugsa um hvernig megi samþætta vegabætur, náttúruvernd og atvinnulíf.

Og ég er auðvitað engu nær um hvað best er að gera, hvaða sjónarmið er „réttast“ en tilfinning mín er samt skýr ...

 


Við eftir David Nicholls #einskonarritdómur

Lífefnafræðingurinn Douglas Petersen er litlaus sögupersóna, tilþrifalítill eiginmaður, ferkantaður faðir og vel látinn vísindamaður sem fær sífellt meiri ábyrgð og virðingu í starfi. Sagan byrjar þar sem dæmigerðustu ástarsögur enda, þegar hann og hún hafa náð saman og ganga í hjónabandið. Frá upphafi er Douglas vantrúaður á gæfu sína. Hann veit að hann er óminnisstæður, laus við sjálfsprottna fyndni, mjög vanafastur, algjörlega laus við hvatvísi og ekki finnst honum útlit sitt upp á marga fiska. En Connie sér eitthvað og hjúskaparboltinn byrjar að rúlla.

Bókin er 414 síður. Fyrstu 100 eru ágætlega áhugaverð kynning, svo kemur góður slatti sem var að ganga frá mér af leiðindum en síðustu 100 blaðsíðurnar eða svo bættu alveg fyrir leiðindin í miðkaflanum. Ég er ekki í raun að segja að höfundur hafi verið of margmáll, Douglas Petersen er bara svo víðáttuleiðinlegu þangað til hann setur sig í fluggír og leggur allt undir til að sættast við 17 ára uppivöðslusaman son sinn og halda Connie hjá sér.

Tekst það? 

Það var æsispennandi söguþráður, og sögulokin komu mér á óvart. Eða ekki.

Ég ætla ekki að hafa nein orð um þýðinguna, ég skil bara ekki af hverju ekki stendur á saurblaði hvað bókin heitir á ensku. Þar stendur Við. Við vitum alveg að hún heitir Us á frummálinu. Vantar ekki bara betri prófarkalestur hjá Bjarti?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband