Sigurvegari kosninganna í gær

Er það ekki hitt jafna hlutfall kynjanna? 30/33. Og taparinn er hin litla kjörsókn. Grátlegt.


14 kr. á lítrann

Ég er að horfa á kosningasjónvarpið. Alveg. En ég keypti líka bensín í dag. Mig vantaði bensín og fyrir tilviljun auglýstu þrjú bensínsölufélög verðlækkun í sms-i hjá mér. 14-15 kr. á lítrann. Úr tæpum 200 kr. 

Reiknum þetta aðeins. Ég á Polo sem tekur 40 lítra. 40*15 kr. eru 600 kr. Ef tankurinn væri tvisvar sinnum þetta erum við vissulega að tala um 1.200 kr.

„Fullt verð“ er 197 kr. núna ef ég man rétt. 197*80 lítrar ef við tölum um jeppa. 15.760 fyrir að fylla tankinn. 7% lækkun. Ég myndi ekki ræsa bílinn og fara í leiðangur fyrir það. Og af hverju í ósköpunum er ekki bara lægra verð en það er? Alltaf.


Útganga kvenna

Ég stimplaði mig út úr vinnunni í dag kl. 14.38. Við vorum hvattar, og hvött, til þess þannig að ekki er um eiginlegt verkfall að ræða sem það þó þyrfti að vera. Engu að síður var frábært að mæta á Austurvöll og sjá mannmergðina. Reyndar var fáránlega hlýtt. Ég er mjög mikið fyrir sól og hlýindi en svona blíða í október getur ekki verið góð fyrir andrúmsloftið á heimsvísu.

Fluttar voru örræður. Að öðrum ólöstuðum skaraði Una Torfadóttir fram úr, unglingur með ákaflega sterka réttlætiskennd, máttuga rödd og óaðfinnanlegan flutning. Eitt af því frábæra sem hún sagði var samanburður á límmiðum fyrir verkefnavinnu. Hvaða sanngirni er í því að strákur sem vinnur verk(efn)ið eins og stelpa fái fleiri límmiða en stelpan? Biður stelpan um það? Vill hún vera skör lægra? Vill hún ekki fá verðskuldaða umbun?

Við bíðum ekki til 2068 eftir leiðréttingu launanna. Við krefjumst einfaldlega sömu launa fyrir sömu vinnu. Það er sanngirni.


Viðhorf, ekki hvað er í sjónvarpinu MÍNU

Vinkona mín ein segir á Facebook að henni mislíki útlendingahatrið í sjónvarpinu sínu. Önnur vinkona mín skrifaði um daginn að henni þætti ógurlega leiðinlegt að [einhver] í menningarþætti segði ekkert gagnlegt um leiksýningu sem hún var að hugsa um að sjá.

Og vitið þið hvað? Fyrstu viðbrögð hjá vinum beggja voru: Slökktu á sjónvarpinu þínu.

Ég verð svo leið þegar ég sé svona viðbrögð og get ekki blandað mér í umræðuna af því að ég þekki ekki fólkið sem gerði þessar athugasemdir. Af hverju heldur fólk að málið snúist um SJÓNVARPSÁHORFIÐ? Í öðru tilfellinu snýst það um sjónarmið sem vinkonu minni líkar ekki, að einhver frambjóðandi til þings amist við útlendingum, og í hinu tilfellinu var vinkonu minni raun að því að fá ekki frjóa og upplýsandi umræðu um menningarviðburð.


Orðanetið

Það lofar góðu. 


i-padinn minn

I-padinn kannski? Ipadinn? Mikið vildi ég detta niður á gott orð því að ég hef knýjandi þörf fyrir að lofa græjuna í hástert. Ég fékk svona tæki í jólagjöf síðast, sem leikfang, en núna er ég í námi og hlusta á fyrirlestra í honum, fletti upp í tíma og heima, tek á hann myndir (sjaldan samt) og hann fylgir mér hvert fótmál ef ég vil. 

Hvernig var lífið fyrir tíma internetsins? #dæs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband