Hvað varð um fyrirtækið með kjötlausu kjötlokuna?

Ég hef ekkert frétt af Gæðakokkum í slétt tvö ár.


Grænu eggin

Það eru bara tæpir 100 starfsmenn hjá Matvælastofnun. Þar af 19 á sviðinu neytendavernd. Og 13 á sviðinu dýraheilsa. Ekki nema von að Brúnegg komist upp með allan andskotann.

Ég reyni að forðast vinsældavagna en það má mikið vera ef það er ekki mikið að marka umfjöllun Kastjóss. Hún virðist reist á rökum og málefnum. Því miður. Mér finnst sorglegt að fólk hafi það í sér að fara illa með dýr.


,,Hún segir að þeim viðurlögum sé þó sjaldan beitt gegn opinberum starfsmönnum.''

Hver hringdi í Láru? Einar fréttamaður? Kennarar eru hársbreidd frá blóðugri baráttu fyrir kjörum sínum og sérfræðingur í vinnurétti æðir inn á vígvöllinn með kökugaffal og hrópar á steik. Fyrirgefið skort á vönduðu myndmáli, ég er bara svo stórkostlega bit á að sérfræðingur í vinnurétti hengi sig í að kennarar sýni mikilvægi sitt með því að fara af vinnustaðnum hálftíma áður en formlegri kennslu lýkur.

Ég hef aðeins gluggað í lög og veit að það er lagalega flókið að segja fólki upp störfum þótt það mæti lyktandi af áfengi, rammskakkt til augnanna, hringi sig reglulega inn veikt, vinni með handarbökunum og/eða rakki vinnustaðinn niður. Víða mætti auðvelda stjórnendum að segja upp óhæfu fólki en það að láta sér detta í hug að argast yfir því að fólk hafi metnað til að sinna lífsköllun og fá fyrir það boðleg laun kalla ég að lesa stöðuna kolrangt.

Já, í hópnum sem gekk út í gær eru bæði svartir og gráir sauðir en við verðum að varast að láta undantekningarnar ráða umræðunni. Í gær birtist grein sem mér finnst segja ansi mikið. Ég hef hins vegar lokið máli mínu ...


Lækkar MS verðið?

MS slapp við 440 m.kr. sekt - hlýtur þá ekki vöruverð að lækka? Forstjórinn missti út úr sér í haust að sektarupphæðin færi beinustu leið út í vöruverðið, dró síðan orð sín (í orði kveðnu) til baka. En fréttin í fréttinni er auðvitað að fákeppnisfélag má selja sjálfu sér á lægra verði en samkeppnisaðilum. Er það ekki magnað?

Og einhvers staðar las ég að í áfrýjunarnefnd samkeppnismála væru þrír menn. Ákvörðunin um þetta hvílir þá á herðum tveggja manna. Samúð mín er ómæld.


Ég sökka fyrir íslenskunni

Ég fór á hátíðardagskrá í Hörpu í dag. Eins og við var að búast var stundin dásamleg. Fyrst var forseti Íslands með annað erindi en á málræktarþinginu í gær, en fyndinn og orðheppinn eins og ég er farin að vænta af honum í hvert sinn. Eitt af því sem bar á góma var auðvitað að tungumálið væri lifandi og síkvikt. Þess vegna á ekki að vernda það eins og viðkvæmt og dauðvona blóm heldur leyfa því að njóta sín og sprikla. Það má sletta. Mér finnst það. En ekki endilega í hverri setningu.

Sigurður Pálsson fékk makleg verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og þeim hafa verið gerð skil í fjölmiðlum dagsins en minni athygli fékk Ævar vísindamaður sem fékk viðurkenningu og flutti svo fallegt erindi sem endaði á upptalningu á nokkrum kennurum sem vörðuðu leið hans út í lífið. Ef við höfum ekki kennara sem láta sér annt um nemendur fækkar þeim sem brillera í lífinu.

Og það er mjög erfitt að kenna yngsta aldurshópnum. Ég vona að viðsemjendur kennara átti sig á ábyrgðinni.


Ef væri ég kennari ...

Ég er kennari. Að mennt. Ég kenndi nokkur ár í framhaldsskóla og fannst ég aldrei búin í vinnunni. Ég þurfti að undirbúa tíma, ákveða hvað ég ætlaði að tala um og hvernig, ákveða hvernig ég ætlaði að virkja nemendur og svo þurfti ég að virkja nemendur í tímum. Ég þurfti að fara yfir verkefni. Þegar ég var að þessu öllu var ég að því. Þegar ég var ekki að því var ég að hugsa um það, stundum með nagandi samviskubit.

Allir páskar voru undirlagðir af ritgerðum. Ég þurfti klukkutíma til að fara yfir stóra ritgerð sem ég vildi skrifa uppbyggilegar athugasemdir við. Það þýddi að ég fór með sæmilegu móti yfir átta ritgerðir á dag í dymbilvikunni og yfir páskadagana. Nema ef ég sleppti páskadegi og var þá í öngum mínum yfir sleifarlaginu.

Aldrei myndi ég treysta mér til að kenna yngstu börnunum. Þau kunna ekki að lesa fyrr en búið er að kenna þeim það. Sum koma læs í skólann á fyrsta degi. Þá eru sum læs í 1. bekk og sum ekki. Það gerir kennaranum sennilega erfiðara fyrir.

Það er mikilvægt að grunnurinn sé vel lagður, að við höfum hæft og áhugasamt fólk til að kljást við það erfiða verkefni, áreiðanlega oft gefandi en samt krefjandi.

Af hverju er þetta fólk ekki á háa kaupinu?

 


Alzheimer-buffið

Guðna tekst það aftur. Með því að gera sjálfan sig að aukaatriði vekur hann athygli á verðugu málefni.


Karl Ágúst á Hringbraut

1/5 af Spaugstofunni er orðinn reglulegur gestur Hringbrautar í stofunni hjá mér. Hann er bæði fyndinn og fundvís á forvitnilega nálgun á hin ýmsu mál. Nú er hann t.d. að tala um ... ýmislegt. 


Hjáróma í kórnum um kjararáð

Ég er orðin nógu gömul til að hafa kosið oft og mörgum sinnum og hef í hvert skipti verið óvissuatkvæði þannig að það sem einhver kann að lesa hér á eftir út úr skrifum mínum um flokkspólitíska afstöðu er örugglega rangt. Hún er ekki til.

Kjararáði er nauðugur einn kostur að úrskurða á kjördegi, eina daginn sem það veit ekki hverjir eru þingmenn þannig að ekki sé hægt að kalla hækkunina flokkspólitíska.

Laun þingmanna hafa verið lág. Laun margra annarra hafa líka verið og eru lág. Þingmenn sem taka starf sitt alvarlega eru alltaf að, lesa, hlusta, fylgjast með innlendum markaði, hitta fólk, fylgjast með erlendum hreyfingum og eru alltaf í vinnunni. Það er ekki endilega hollt eða ástæða til að mæla með því en það er þannig ef þingmaður hefur metnað og eldmóð. Starfið er lífsstíll og áhugamál. Margir segja að þingmenn byrji af krafti og ástríðu en að það eldist fljótt af þeim. Það kann að eiga við um suma en það á líka við um flestar stéttir.

Sjálfri finnst mér hækkunin of brött og sjálfri finnst mér óeðlilegt og rangt að margt sé greitt fyrir þingmenn, svo sem starfskostnaður. Laun þingmanna eiga að vera gagnsæ og þau eiga að vera ágæt.

Ég sit ekki í kjararáði, þekki ekkert af því fólki og skrifa þetta bara út frá einstaklingsskoðun minni.

Ég gæti líka talað um laun leikskólakennara og hjúkrunarfræðinga en þegar við tölum um laun erum við í raun alltaf að tala um samanburð. Hvað fáum við fyrir launin? Hvað getur næsti maður sem líka ber mikla ábyrgð og vinnur langan vinnudag leyft sér? Hvað kostar fasteign?

Við eigum að borga löggjafanum góð laun og við eigum að gera miklar kröfur, m.a. um að þingmenn búi okkur þannig lagaumhverfi að við getum lifað mannsæmandi lífi á laununum okkar og að launin okkar séu í samræmi við menntun, framlag, ábyrgð og vinnutíma.

Finnst annars engum skrýtið að allir óbreyttir þingmenn séu á sama kaupinu, að ekki sé meira borgað fyrir starfsaldur, lífaldur og menntun? Og hvað um vinnuaðstöðuna í þingsalnum sem Vinnueftirlitið myndi trúlega ekki samþykkja á öðrum vinnustöðum?

Og aftur: Nei, ég er ekki þingmaður, ekki í kjararáði og ekki flokksbundin neins staðar. Mér finnst ég hafa rétt til að hafa skoðun, ég hef reynt að rökstyðja hana en skil að fólk sé ósammála mér.

Væri ekki upplagt að hálaunaða þingið myndi skoða það að lögbinda lágmarkslaun sem hluta af öðrum launum? Hvernig væri tillagan um að hæstu laun mættu ekki vera hærri en fjórfjöld lægstu laun? Ef lægstu laun eru 200.000 eru hæstu laun 800.000 í hæsta lagi. Og hvaða stétt yrði tekjuhæst?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband