Ekkert í fréttum ...

Í dag er 28. apríl, þingi var slitið á miðjum degi eftir romsu af Evróputilskipunum, Árni Páll býður sig fram til formanns Samfylkingarinnar, maður hótar pústrum, WOW skilar hagnaði (hvert?), 101 Austurland er í vinnslu og mig vantar sýndarpermanent á laugardaginn. 

Allt með kyrrum kjörum.


Af hverju ég vil ekki hafa Ólaf Ragnar lengur á Bessastöðum

Dómsdagur! Ég vakna í Reykjavík um miðjan apríl í snjókomu. Táknrænt! Djók.

En nú að forseta Íslands:

Hann er búinn að vera í 20 ár og heldur að hann sé ómissandi.

Hann er ímynd gamals tíma og fulltrúi valdablokka.

Hann er of afskiptasamur og athyglisfrekur.

Ég er bandsjóðandi viss um að hann gengur annarlegra erinda.

Fólki er hollt að skipta um skoðun ef rök hníga að því en Ólafur Ragnar hefur of oft haft flokkaskipti, klappað upp útrásarvíkinga, talað þá niður, látið umskrifa kafla í bók um sig og almennt snúist eins og hani í vindstrekkingi þegar hann talar um „fólkið í landinu“. Við höfum ekki getað reiknað út, t.d. eftir stjórnarskránni, hvenær hann muni synja lögum staðfestingar.

Ég vil breyta kvótakerfinu. Ef það væri eitthvað eitt sem ég mætti breyta á Íslandi á stundinni myndi ég banna framsal á óveiddum fiski milli landshluta. Ný stjórnarskrá gæti tekið á þessu og ég treysti ekki núverandi bónda á Bessastöðum til að ryðja henni farveg. 

Í valdamesta embætti í heimi situr maður í mesta lagi tvö kjörtímabil, átta ár. Þess vegna standa alvöruforsetakosningar fyrir dyrum í Bandaríkjunum. Þegar Ólafur bauð sig fyrst fram, 1996, fannst honum hæfilegt að vera tvö til þrjú kjörtímabil. Til 2004, í mesta lagi 2008.

Ég er flokkspólitískt óvissuatkvæði í þingkosningum og ég bið ókunnuga lesendur mína að vera ekki að spyrða mig við einhvern flokk þótt ég lýsi mig ósátta við framboð Ólafs í sjötta sinn. Árið 1996 vildi ég engan frambjóðanda sem var í boði af því að þau voru öll tengd einhverjum stjórnmálaflokki. Ef við ætlum að hafa forseta yfir landinu vil ég að hann sé ópólitískur - og til vara vil ég að við tökum sameiginlega ákvörðun um það í landinu að embættið sé pólitískt.

Ég man hvernig Ólafur nötraði og skalf í beinu útsendingunni í júní 2004 þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Þá var hann samt búinn að vera forseti í átta ár, þar á undan á þingi og ráðherra og þar á undan háskólakennari og tíður gestur í sjónvarpi. En embættið á ekki að snúast um að standa uppi í hárinu á ríkisstjórninni hverju sinni.

Svo virðist sem ég sé í mótsögn við sjálfa mig, að ég vilji annars vegar áferðarfallega silkihúfu á Bessastöðum og hins vegar mann sem beiti sér í deilumálum. Ég á dálítið erfitt með að sjá út vegna þess að Ólafur stendur alltaf í gættinni og byrgir mér sýn. Ég hefði viljað að næsti forseti hefði þjóðina meira með sér og ynni með sem flestum en ekki á móti. 

Ég á eitt atkvæði og ég greiði það ekki núverandi forseta.


Skoðanakannanir um forsetaframboð

Ég hugsaði um það þegar ég fór að sofa í gær og líka þegar ég vaknaði í morgun en gleymdi því þegar ég var komin á fætur hvort ekki ætti að fara að kanna hug fólks til forsetaframbjóðendanna.

Ég hugsaði líka um hver borgaði þær. Er einhver ástæða fyrir að við höfum ekki fengið að sjá neinar skoðanakannanir í margar vikur?


Hvað ef fólk hefur fengið afskrifað og á svo eignir á Tortólu?

Þá sjaldan ég skrifa hér í mesta meinleysi um eitthvað sem mér finnst í ólagi í samfélaginu hefur einhver óþekktur vænt mig hér á þessum vettvangi um öfund. Þess vegna ætla ég strax að játa að mér blöskrar að stór kotasæludós skuli kosta 438 kr. og askja af kirsuberjatómötum 369 kr. Að sama skapi finnst mér undarlegt að 2 l af pepsíi skuli einungis kosta 198 kr. Ég held að það sé pólitík að hafa hollari vörur á lægra verði og ég veit að ég er ekki alveg ein um þá skoðun. Hvernig verðpólitík er þetta?

Nú er kominn hálfur mánuður síðan afhjúpunarþátturinn var sýndur á RÚV og okkur var brugðið. Við vitum að þetta er lítið brot af alheimsspillingunni og misskiptingunni. Okkur skilst að nöfn allt að 600 Íslendinga séu i Panama-skjölunum og nú dettur mér í hug hvort það sé sama fólkið og fékk afskrifaðar skuldir í niðurfellingunni stóru. Og af því að ég, meinleysinginn, er vænd um öfund þegar ég voga mér að segja svona á bloggsíðunni minni tek ég fram að ég sótti ekki einu sinni um afskrift eða niðurfellingu eða afslátt af húsnæðisskuldum þannig að ef ég öfunda einhvern eru það útlendingar sem geta keypt flunkunýtt, safaríkt mangó heima hjá sér án þess að borga offjár. Og geta þar að auki borðað það.

Ég held að við þyrftum að þræða okkur marga áratugi aftur til að finna upphafið að spillingunni. Fólksfæðin er eitt svarið. 

Ég viðurkenni að þetta er heldur ruglingsleg færsla. Samantekin er hún svona: Það þarf að skera samfélagið upp og fjarlægja meinið sem er misskipting gæða landsins. Framseljum ekki óveiddan fiskinn, seljum þeim ekki rafmagn gegn lágu verði sem geta borgað markaðsverð, reynum að styðja íslenska framleiðslu, t.d. framleiðslu grænmetis, til að spara innflutning (þ.m.t. gjaldeyrisnotkun) og í guðanna bænum, látum ekki heilbrigðiskerfið deyja drottni sínum.

Svo öfunda ég aðallega þá sem geta hlaupið hraðar en ég.


Herraklipping

Ég er að tala um klippingu á hárgreiðslustofu. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju skilgreind dömuklipping er sjálfkrafa dýrari en herraklipping. Ef eitthvað ætti að skipta máli er það a) tíminn sem fer í klippinguna, b) hársíddin, c) hárgerðin. Það að kynið sé breyta þýðir í mínum augum – hafið yfir vafa – að konur láta einfaldlega bjóða sér mismunun í þessum efnum.


Beinar tilvitnanir

Andri Snær og stuðningsmenn hans leigðu Þjóðleikhúsið fyrir fund. Ég get trúað eða ekki trúað að leigan sé bara venjuleg (ég trúi því) en ég trúði varla mínum eigin augum þegar ég sá að blaðamaðurinn vitnaði í lög, hafði utan um þau gæsalappir og fór rangt með.

Þjóðleikhúsið er ríkisstofnun en um það er fjallað í leiklistarlögum. Þar segir meðal annars að „[þ]egar Þjóðleikhússbyggingin er ekki notuð til reglubundinnar starfssemi samkvæmt þessum lögum má nota hana til annarrar menningarstarfssemi.“

Í leiklistarlögunum stendur:

11. gr. Þegar Þjóðleikhúsbyggingin er ekki notuð til reglubundinnar starfsemi leikhússins samkvæmt þessum lögum má nota hana til annarrar menningarstarfsemi.

 

Ég veit að blaðamenn þurfa einlægt að hafa hraðar hendur en ég leyfi mér að efast um að það sé tímafrekara að fara rétt með en rangt.


... stígur niður?

Síðustu fjóra dagana hefur samfélagið verið á fleygiferð og margir talsmenn verið kallaðir til. Þá meina ég ekki málsvara, formælanda eða málflutningsmann eins og orðabókarskýringar herma, heldur menn sem tala. Nú kemur vel á vondan (mig) að vera með svona lélegan útúrsnúning á íslensku orði því að umtalsefni mitt hér og nú er fljótfærnislegt orðalag sem borið hefur á. Eða finnst fólki eðlilegt að stíga niður sem forsætisráðherra?

Nei, fjandakornið, menn víkja, hætta, láta af störfum, segja af sér eða láta gott heita. In English they most definitely step down though. Or resign ...


Hrútar

Nei, ég ætla ekki að blogga um ríkisstjórnina heldur Hrúta. Ég þóttist hafa himin höndum tekið þegar hún var á dagskrá RÚV um páskana því að auðvitað hafði ég ekki hundskast á hana í bíó. Ég gat ekki vakað yfir henni og undraðist himinskautin sem hún hafði farið með. Nokkrum dögum síðar horfði ég svo á hana í sarpinum (í tölvunni) og get sagt fyrir mína parta að Siggi Sigurjóns og Theodór Júlíusson eru stórkostlegir leikarar. Mér fannst söguþráðurinn dálítið hægur, ég játa það, en þegar bræðurnir voru á skjánum fannst mér samt æsispennandi að fylgjast með svipbrigðum þeirra eða svipbrigðaleysi. Þeir búa talsvert afskekkt, hvor í sínu lagi, andskotast hvor út í annan áratugum saman en ná saman um sitt sameiginlega áhugamál. Ærkynið.

Það lá við að ég fyndi lyktina af þeim í tölvunni. Stórkostlegur leikur og stórkostlegt lokaatriði.


Af hverju vilja karlar ekki raka á sér leggina?

Djók! Fyrirsögnin er bara yfirvarp svo enginn sjái mína raunverulegu skoðun sem er sú að stjórnmálamenn sem véla um fé almennings verða að hafa trúverðugleika. Ég treysti því bara að enginn átti sig á að ég haldi að nokkur trúverðugleiki sé í uppnámi. 


Skatthol

Einu sinni átti ég skatthol.

Ég á það ekki lengur og eignaðist aldrei mynd af því heldur stalst núna til að fá lánaðar myndir af netinu ... Ég vona að mér verði ekki stungið í aflandið fyrir það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband