Til hamingju - allra?

Ég kaus að sönnu þann sem verður forseti okkar eftir rúman mánuð, ekki til að standa uppi í hárinu á einhverjum öðrum heldur af því að mér finnst hann hafa það sem þarf. Ég er búin að vita af honum í um það bil 20 ár, og þekkti reyndar til átta af níu frambjóðendum, og kaus hann af því að hann hefur alltaf komið mér fyrir sjónir sem vel gefinn, réttsýnn, hlutlaus og vandaður fræðimaður. Hann er enginn veifiskati og tekur ekki á valdhöfum með silkihönskum. Ég trúi að hann muni vanda sig við að vera fulltrúi allrar þjóðarinnar, kannski ekki öllum stundum af því að við erum mismunandi en að hann muni ekki mismuna hópum eftir geðþótta sínum eða annarra. Ég trúi á beinið í nefinu í honum ef á reynir en aðallega trúi ég því að hann verði ekki sá maður átaka sem ég vil ekki hafa í þessu sæti.

Ég vil að þingmenn setji okkur lög og vandi sig við það. Ég myndi vilja sjá ýmislegt öðruvísi, ekki síst dreifingu skattfjár. Ég myndi vilja sjá heilbrigðiskerfið dafna og til þess að það dafni þarf menntakerfið betri stuðning. Mér finnst brýnt að fólk læri að skera upp, kunni á lyf, kunni að teikna og byggja hús, leggja lagnir, tryggja mér rafmagn, yrkja jörðina og framleiða gott matarhráefni. Mér finnst líka brýnt að matvælaöryggi sé mikið og ég vel fjölbreytni í matnum. Af hverju fá garðyrkjubændur ekki magnafslátt af rafmagni? Ég vildi sjá miklu betra vegakerfi og öflugri samgöngur, bæði innan lands og utan. Ég hef áhyggjur af loftslagsmálum og ólæsi, afdrifum fólks sem hrekst að heiman og guðminngóður [innsog], það sem ég vildi að laun væru sanngjörn og óháð kyni þess sem gegnir starfinu.

Ég kaus að sönnu Guðna sem forseta og líður vel með það og að hann hafi verið kjörinn en ég hefði unnt öðrum sigursins ef á hefði reynt og skilyrðislaust leyft fólki að sanna sig - eða afsanna. Þess vegna blöskra mér skrif í Kvennablaðinu í gær. Allir eiga rétt á skoðunum sínum en ég sé ekki nein rök í greininni.


Eitt kjördæmi

Eini fulltrúi þjóðarinnar sem er kosinn beint af fólkinu er forsetinn. Af hverju er landið ekki eitt kjördæmi, a.m.k. í forsetakosningum?

Ég horfði ekki nógu nákvæmlega á kosningasjónvarpið í gær. Ég fór á kosningavöku nýja forsetans og heyrði mest lítið í sjónvarpinu en þykist vita að áhorfendur hafi þurft að bíða eftir tölum. Svo birtast tölur flokkaðar eftir kjördæmum. Hvers vegna?

Engu að síður er ég sæl með niðurstöðuna og hlakka til næstu mánaða og ára.

Svo er landsleikur í Nice á morgun. Áfram, Ísland!


Heildarlausnir í fótboltaáhorfi

Djók, það er ekki séns að ég ætli að tala niður 2-1 sigur Íslendinga á Austurríkismönnum á EM. Ég var mjög spennt nema ég svaf af mér auglýsingahléið en það er bara af því að ég fór á Snæfellsjökul í gær og var fram á morgun að sækja orku fyrir landsliðið og hafði ekki sofið nema klukkutíma frá kl. 7 í gærmorgun.

Auðvitað er meira gaman að fylgjast með liði sem sýnir karakter, snerpu, sigurvilja og einhverja færni, liði sem maður getur haldið með. Ég fór SAMT að hugsa um hvort fótboltareglur væru nokkuð klappaðar í stein. Má ekki hafa bara 10 í vörn þótt 11 séu í sókninni? Má ekki hafa fótboltann stærri/léttari/úr plasti eða eitthvað? Láta leikinn standa í 70 mínútur frekar en 90?

Ókei, ég er búin að koma upp um mig, ég horfi allajafna ekki á fótbolta, en spyr einmitt þess vegna hvort ekki megi breyta reglunum til að fjölga mörkunum ...

Fyrir mótið spáði ég okkur 16. sæti. Í ljósi þess að við erum komin þangað hlýt ég að mega endurskoða spána. En á mánudaginn keppum við reyndar við England ...


Pólitískur forseti

Ég er að hlusta á Ólaf Ragnar Grímsson, fráfarandi forseta, í drottningarviðtali á Sprengisandi. Mér finnst Páll Magnússon standa sig vel í þáttarstjórnuninni og eftirláta mér að undrast oflof forsetans um sjálfan sig og dylgjur í garð tveggja núverandi forsetaframbjóðenda sem hann vill ekki fylgja eftir.

Að öllu samanlögðu ofbauð mér þó mest þegar hann talaði um að hafa setið til borðs með „fyrrverandi samherjum sínum, fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórninni í landinu“ og gert annað en þau reiknuðu með -- af fyrrverandi samherja!

Drepið mig ekki á færi -- hann sannar heldur betur að við getum ekki kosið okkur mann með flokkspólitíska fortíð. Ef það litar ekki forsetann sjálfan litar það þá sem hafa flokkspólitískar væntingar til forsetans.


16. sætið?

Öll erum við spurð í hvaða sæti íslenska karlalandsliðið lendi á EM, ég líka. Þegar ég var spurð (bara einu sinni) svaraði ég að bragði: 16. sæti. Ég held að það sé sígilt svar þess sem hefur ekkert sett sig inn í umrædda íþrótt.

Nema hvað, nú er ég búin að átta mig á því að ef við komumst upp úr riðlinum, sem vel gæti gerst, erum við þegar búin að tryggja okkur 16. sætið. Ég er að hugsa um að endurskoða spána.


Eitthvað annað en lýsi? Eða Lýsi?

Í ljósi nýjustu tíðinda er freistandi að hætta að innbyrða það lýsi sem hefur daglega verið á borðum. Þá leitar maður fanga annars staðar. Veit einhver eitthvað um Margildi?


Má breyta nöfnunum?

Við höfum löngum haft skoðanir á mannanöfnum og þó fyrst og fremst þó ákvörðunum mannanafnanefndar

Nú er búið að kynna drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Í 7. gr. stendur meðal annars:

Eiginnöfn skulu vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis.

Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum má sem sagt láta barn heita Þúfa, Skrúfa, Hóll, Stóll, Þak og Brak. Þau mega ekki heita þúfa, hóll og þak og heldur ekki Skrúfan, Stóllinn og Brakið enda dytti engu heilvita fólki í hug að skíra svona nöfnum. Sjálfsagt verður þetta allt í lagi. Blak Briem, ha?

Í athugasemdum stendur meðal annars:

... að öðru leyti falla úr lögum þær takmarkanir sem nú eru á mannanöfnum. Þar á meðal eru takmarkanir á fjölda nafna, vernd ættarnafna, skilyrði um að kenninöfn séu föður- eða móðurnöfn eða ættarnöfn og takmarkanir á heimild til að bera erlend nöfn.

Nafn manns er einhver persónulegasta eignin og mér dytti sjálfri aldrei í hug að breyta mínu. Ég var óhress með að heita Berglind á unglingsárunum en sú óánægja eltist af mér. Ég geri ráð fyrir að ef ég hefði alist upp sem Zoëga, Thorlacius, Stones, Hirst eða Schram væri mér það kært en annars skil ég ekki ættarnafnablætið sem ég heyri fólk tala um. 

Ég hef heyrt því fleygt að það gæti verið vit í því að hafa kenninöfnin -son og -dóttir ókeypis (tíðkast víst sums staðar að hafa sumar útgáfur nafna ókeypis og aðrar ekki) en láta borga fyrir ættarnöfnin. Það hljómar afleitlega í mínum eyrum. Í fyrsta lagi myndi það líta út eins og ég hefði ekki efni á að heita Berglind Vágar, Berglind Bertelsen eða Berglind Dan eða, enn verra, að ég tímdi því ekki! Orðsporsáhætta. Og hvernig ætti að verðleggja nafnið? Árgjald? Skráningargjald? 10.000 kr. breytingagjald? 50.000 fyrir stóra fjölskyldu? 10.000 kr. á ári kannski? 1 milljón? 10 milljónir fyrir vinsælt nafn? 10 milljónir fyrir lítið notað ættarnafn?

Ég held að ég sé ekki sérlega íhaldssöm en ég er hrifin af mannanafnafyrirkomulaginu okkar, segi útlendingum iðulega frá því og þeim finnst allajafna mikið til koma.

Ég veðja á að þegar málið verður tekið fyrir í þinginu verði löng umræða utan og innan þings.


Að reskjast

Ég var að horfa á beina útsendingu á Facebook. Gaman að því. Gestur í sal spurði Guðna um kostnaðinn við forsetaembættið og hann notaði tækifærið til að segja viðstöddum að þegar forseti hættir gilda um hann sömu lög og aðra. Forseti fer ekki á eftirlaun um leið og hann hættir nema hann verði orðinn 67 ára. Þetta er ótrúlega lífseig ranghugmynd. Lögunum var breytt 2009 og síðan eru liðin rúm sjö ár.

Forseti fær ekki eftirlaun fyrr en hann verður orðinn býsna roskinn og mættu fjölmiðlar benda lesendum sínum á það. 


Má vinna fyrir tvo í einu?

Vinkona mín ein sem réð sig í spennandi starf hjá hálfopinberu fyrirtæki skrifaði undir ráðningarsamning sem í stóð að hún mætti ekki vinna fyrir aðra. Þegar ég frétti það spurði ég hvort hún væri þá ekki með mjög góð laun. Jú, líklega væri hún það, var svarið, og svo ræddum við aðeins um þá kröfu að mega ekki vinna fyrir aðra. Önnur vinkona sagði: Af hverju ætti hún að hafa orku á kvöldin til að vinna meira frekar en við hin?

Ókei, hér byrja ég að spyrja: Má almennt skikka fólk til að vinna ekki aukavinnu eða á það bara við um sérfræðistörf? Snýst það um hagsmunaárekstra, að í „hinni vinnunni“ búi maður yfir upplýsingum sem mega ekki spyrjast út? Snýst þetta kannski um þann plagsið sumra að vinna aukavinnuna í vinnutímanum hjá aðalvinnuveitandanum?

Einhver sagði nefnilega við borðið þar sem þetta var rætt að hún þekkti einhvern sem kæmi aldrei svo inn til deildarstjórans síns að ekki væru skjöl á skjánum sem tengdust einkafyrirtæki deildarstjórans. 

Ég er launþegi, þ.e. starfsmaður á plani, ánægð í vinnunni og með skemmtileg verkefni, hef aldrei rekið fyrirtæki og eiginlega aldrei verið með mannaforráð, en ég spyr: Á yfirmaður ekki að geta a) ætlast til þess að fólk sinni vinnunni í vinnutímanum (auðvitað með eðlilegri hvíld), b) fylgst eitthvað með því hvað gengur undan starfsmanninum?

Ég vinn stundum aukavinnu á kvöldin, um helgar og í sumarfríinu. Minna núna en áður en ég hef oft gert skemmtilega hluti sem fólk borgar mér fyrir. Fullt af fólki verður að drýgja tekjurnar með aukavinnu.

Niðurstaðan er þá væntanlega sú að svona klausa í samningi eigi að tryggja fulla afkastagetu (eftir föngum) fólks í vinnutímanum. En er einhver munur á því að fólk vinni fyrir aðra í vinnutímanum eða eyði að jafnaði klukkutíma á dag í að skoða og læka á Facebook?

Ég er mjög hugsi yfir aukavinnubanninu. Láglaunafólk væri væntanlega himinsælt með aukavinnubann -- ef grunnlaunin væru hærri.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband