Er slæmt að hafa langan starfsaldur hjá sama fyrirtæki/sömu stofnun?

Ég heyrði nýlega frá yfirmanni (ekki mínum) að meðal þess sem ynni gegn fólki (kannski ekki öllu fólki) væri að hafa of langan starfsaldur hjá sama fyrirtækinu. Mig setti hljóða. Er tryggð við fyrirtæki/atvinnurekanda ljóður á ráði manns? 

Að sönnu getur fólk komið sér fáránlega vel fyrir í vinnunni, haft frjálsar hendur og orðið latt og sérgott. Auðvitað getur langur starfsaldur þýtt að starfsmaður hafi ekkert frumkvæði, treysti sér ekki til að læra neitt nýtt og treysti sér ekki til að söðla um. 

Mér finnst eðlileg starfsmannavelta sjálfsögð og sem betur fer vilja ekki allir sitja á sama fleti ævilangt en það að halda til á sama vinnustað í áratugi þarf ekki að þýða stöðnun eða að maður breyti ekki til. Á sumum vinnustöðum eru fjölbreytt verkefni sem eru næstum ígildi þess að skipta um vinnu. Fólk þróast - og er það ekki örugglega þannig að maður flytji EKKI með sér öll áunnin réttindi? Mér finnst eðlilegt að menn fái aukinn frama innan stofnunar þegar svo ber undir.

Maður þarf líka að núllstilla varðandi hlunnindi og byrja aftur að klifra upp launastigann.

Að þessu sögðu: Vill einhver bjóða prófarkalesara fast starf? Eða kannski leiðsögumanni?


Hlaupastyrkur - meint áheit

Ég hugsa þetta minnst einu sinni á ári og hef örugglega hugsað þetta upphátt hér áður. Þegar fólk skráir sig í Reykjavíkurmaraþon er það hvatt til að hlaupa til styrktar góðu málefni. Flestir hlauparar hlaupa sér til skemmtunar og margir hlaupa hvorki á góðum tíma almennt né slá persónuleg met. Allt í lagi, ég er aðeins að alhæfa en ég spyr samt: Væri ekki nær að fólk sem vill leggja góðu málefni lið legði pening til? Ég hef á hverju ári orðið meðvirk og styrkt einhvern/ýmsa og alltaf með óbragð í munni af því að viðkomandi hlauparar sjá ekki sóma sinn í að styrkja málefnið sitt með fjárframlagi. Og þar fyrir utan læka bæði andskotinn og amma hans það að fólk hlaupi til styrktar en styrkja svo ekki um tíeyring.

Þetta var nöldrið í ár.

Ég versla við Krabbameinsfélagið (í búðinni), ég er heimsforeldri og kaupi stundum happdrættismiða og svona til að styrkja verðug málefni en þetta betlfyrirkomulag í kringum hlaupahátíð er gengið sér til húðar.


Frakkland versus Portúgal

Ég hef engu meiri áhuga á fótbolta núna en í júníbyrjun. Hins vegar hefur verið gaman að fylgjast með jákvæðninni og gleðinni sem fylgt hefur mótinu, einkum íslenska liðinu (sem ég hef tekið eftir) og ekki síst stuðningsmönnum íslenska liðsins. Nema hvað, ég heyrði marga óska þess að Frakkar ynnu mótið úr því að þeir unnu okkur 5-2. Mér er náttúrlega sama hver verður Evrópumeistari úr því að það er ekki Ísland en er ekki einmitt betra fyrir egóið okkar að Portúgal hafi unnið? Við gerðum 1-1 jafntefli við Portúgal og grættum Ronaldo. Svo vann Portúgal liðið sem vann okkur mjög sannfærandi sem þýðir að dagsformið skiptir máli þegar lið eru komin svona langt.

Við komum sjálfsagt ekki aftur á óvart, keppinautar okkar vita nú að Ísland er til alls víst, en við eigum kannski samt eftir að toppa okkur, þessi fámenna þjóð sem æfir úti í kulda og trekki (að hluta til). 

Gott hjá Portúgal og ég myndi óska Ronaldo til hamingju ef hann væri í kallfæri.


Áfram Ísland

Ég veit að allir eru að segja það en ég ætla að halda því til haga á blogginu mínu. Ísland tapaði 2-5 fyrir Frakklandi á Evrópumeistaramótinu 2016 og lauk þar með keppni sem eitt af átta bestu liðunum í Evrópu. Frakkland var augljóslega betra liðið í leiknum en við unnum seinni hálfleikinn ef maður horfir á tölurnar sem sýnir styrk íslensku strákanna. Þeir lögðu ekki niður vopnin þótt þeir væru undir. Frábær frammistaða og sérlega mikil brýning til okkar allra um samstöðu, baráttugleði og jákvæðni.

Mér skilst að stelpurnar okkar eigi næsta stórmót og þá verður spennandi að sjá og upplifa orkuna í kringum þær.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband