Hver borgar matinn ofan í leiðsögumenn og bílstjóra í ferð?

Á síðunni Bakland ferðaþjónustunnar var í gær fjörleg umræða um það hvort leiðsögumaður eigi að borga fyrir matinn sinn þegar hann kemur með borgandi gesti á veitingastað.

Ég held að engum blandist hugur um að starfsmaður sem er langt utan heimasvæðis síns á ekki sjálfur að greiða fyrir matinn sinn. Á mörgum staðarvinnustöðum er niðurgreiddur matur þótt fólk hafi val um að taka með sér nesti að heiman, kaupa sér í nærliggjandi búð eða nýta sér mötuneyti vinnustaðarins. Leiðsögumaður í hringferð borgar þannig ekki matinn í Vík, á Höfn, á Egilsstöðum, Akureyri, Húnavöllum eða í Borgarnesi. Þá er spurningin: Borgar vinnuveitandinn? Og í hvaða formi borgar vinnuveitandinn?

Til margra ára hefur leiðsögumaður fengið „frían“ mat á veitingastaðnum sem hann kemur á með gestina. Ég tel óhætt að fullyrða að þá er veitingastaðurinn að gefa vinnuveitandanum en ekki starfsmanninum sem á þennan rétt í kjarasamningi. Og enn lifir (hávær) umræða um það hvort leiðsögumaður og/eða bílstjóri sniðgangi veitingastaði sem vilja ekki „gefa“ starfsmönnum ferðaskrifstofu ókeypis að borða.

Vissulega er þægilegt að koma í hádeginu á stað sem afgreiðir matinn hratt og vel, m.a. til starfsmannanna sem fá að sitja í sérherbergi og tala sín á milli án ferðamannanna, en allt fólk þarf líka að borða og ef allir staðir tækju sig saman um að gera eðlilega samninga við ferðaskrifstofurnar gætu leiðsögumenn/bílstjórar ekki látið geðþótta, fýlugirni eða hentistefnu ráða matarstoppunum.

Sjálf vildi ég helst fá dagpeninga og ráða því hvort ég fæ mér heitan mat í hádeginu eða læt kannski ís og appelsínu stundum duga.

Í öllu falli finnst mér fráleitur hótunartónn sem maður heyrir í sumum í stéttinni um að sniðganga einhvern stað sem „gefur gæd og bíltjóra ekki að borða“.

Ég er leiðsögumaður sem gafst upp á innviðunum og lágu laununum 2013 og er nú í sumarfríi í sumarfríunum mínum, ræð mínum hádegisverðarstað og borga fyrir matinn minn, kannski ekki alltaf með glöðu geði (pastaréttur á 3.500 kr. gekk fram af mér um daginn) en nógu glöðu geði.


Lífshættulegt að hjóla?

Ég hjóla ekki oft í Elliðaárdalnum en það kemur alveg fyrir að ég hjóli úr hverfi 105 í hverfi 220, þá alltaf afar rólega og yfirvegað. Ég nota hjólið til að komast á milli staða og er á því að bílafólk ætti að þakka fyrir að hjólafólki fjölgar því að um leið fækkar trúlega bílunum á götunum. Allir vinna.

En nú hafa borist fréttir af því að einhverjir hafi strengt snæri þvert yfir brúna við Kópavogslæk og kannski víðar, kannski í Elliðaárdalnum sem mér finnst ég hafa fengið spurnir af. Ef fólk hjólar á alveg eðlilegum hraða á snæri í höfuðhæð get ég rétt ímyndað mér hversu sárt það væri. Og nú er ég farin að skilja ónot sjálfrar mín þegar ég læt mig renna frjálslega niður Bankastrætið, yfir Lækjargötuna og inn á Lækjartorg (á grænu ljósi). Mér finnst ég alltaf þurfa að hægja á mér til að forðast harðan árekstur við ímyndað snæri í loftinu.

Ég hef hjólað í rólegheitunum fyrir neðan Öskjuhlíðina þegar fjölmargir hraðir hjólamenn geysast fram úr og mér finnst það ekki í lagi. Mér finnst að hjólamenn eigi að æfa sig á brautum - kannski á götunum? - en mér finnst ekki í lagi að veita þeim tilræði.

Er hægt að koma upp æfingabrautum fyrir þá sem hjóla í æfinga- og þjálfunarskyni fyrst og fremst?


Í sjóinn í gallabuxum?

Á morgun verður þreytt Helgusund í Hvalfirðinum og enn eitt árið læt ég það framhjá mér fara. Mig dauðlangar en af því að ég fór fýluferð í fyrra - m.a.s. kakjakræðararnir máttu hafa sig alla við að komast aftur í land og sundinu var aflýst - er ég efins um að skipulagið sé nógu gott. Agalega leiðinlegt að líða svona en nýliðin vinnuvika býður ekki upp á óþarfan akstur á laugardegi. Ég er samt loks búin að kaupa feit sundgleraugu þannig að Helgusund er ótvírætt á dagskrá 2017, reyndar Viðeyjarsundið líka og kannski fleiri langar sjósundsleiðir.

En gallabuxurnar, hvað með þær? Nei, ég ætlaði nú bara að synda í sundbol og með sundhettu eins og áskilið er. Hins vegar segir sagan:

Nú töluðu þeir um höfðingjarnir að ráð væri að fara eftir Helgu og drepa sonu þeirra Harðar. Þá þótti sumum of síð dags. Höfðu þeir þá að því samtak að þeim skyldi engi grið gefa né ásjá veita ella skyldu allir þeim hefna. Svo var ríkt við lagið. Þeir ætluðu út um morguninn en voru þar um nóttina.


38. kafli

Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vélar og svik landsmanna. Hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr hólminum um nóttina og flutti með sér Björn son sinn fjögurra vetra gamlan til Bláskeggsár. Og þá fór hún móti Grímkatli syni sínum átta vetra gömlum því að honum dapraðist sundið þá og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund. Þau fóru um nóttina upp á fjall frá Þyrli og hvíldust í skarði því er nú heitir Helguskarð. Hún bar Björn á baki sér en Grímkell gekk.

Ég hef löngum velt fyrir mér klæðnaði Helgu við þetta tækifæri. Hún synti rúmlega 1,5 km í köldum sjónum til að bjarga lífi sínu og sona sinna tveggja. Hvernig var hún klædd? Var hún í síðu vaðmálspilsi? Þungu? Sem varð níðþungt í vatninu? 

Auðvitað eru ekki til neinar myndir en fyrir skemmstu var í sjónvarpinu heimildarmynd um upphaf sundkennslu á Íslandi og ekki síður um upphaf kvennasunds. Konum var óheimilt að synda og sú fyrsta sem synti í laug með körlum gerði það í óþökk þeirra. Þeir voru naktir og hafa sennilega flotið í hægðum sínum og léttleika.

Og, já, þá hlýt ég að velta fyrir mér hvernig væri að synda í gallabuxum og lopapeysu. Eða búrkíní. Og nú ætla ég að nota helgina til að hugsa um trú, trúarbrögð, rétttrúnað og mögulega ánauð kvenna því að ég er enn eingöngu að hugsa um praktísku hliðina af því að synda í miklum og víðum fötum.


Ásetið land?

Ferðaþjónustan er ein af þremur meginstoðum atvinnuveganna um þessar mundir. Mörg hótel eru í byggingu í Reykjavík, margt fólk leigir íbúðirnar sínar í gegnum Airbnb og í einhverjum bæklingum er talað um að Ísland sé uppselt í júní, júlí og ágúst.

Ég fór hringinn seinni partinn í júlí og mér kom verulega á óvart að víða um land mætti ég engri rútu klukkutímum saman, kannski bílaleigubílum, ég er ekki nógu glögg á þá, en alls ekki heilu förmunum af túristum. Auðvitað er ósköp notó að eiga stór landflæmi fyrir sig og gönguhópinn sinn en að sama skapi er skelfilegt að koma á fjölförnu staðina á suðvesturhorninu og Stór-Mývatnssvæðinu þar sem ekki verður þverfótað fyrir fólki sem kemur til Íslands í von um að upplifa auðn og fólksfæð.

Undanfarið hef ég hins vegar spjallað við marga útlendinga í Reykjavík og þótt þeir dásami land og þjóð, náttúru og m.a.s. veðráttu kemst alltaf fljótt til tals að hér sé ALLT rándýrt.

Dreifum fólki víðar um land og stillum í hóf verðlagningu á algjörlega samanburðarhæfum vörum milli landa.

Nú bíð ég spennt eftir að Samtök ferðaþjónustunnar hafi samband og bjóði mér vinnu við að útfæra hugmyndir mínar frekar.


Tillitssemi bílstjóranna

Ég sé alltaf annað slagið einhverja bölsótast út í bílstjóra fyrir framkomu við hjólreiðafólk. Ég hef allt aðra sögu að segja. Ég er á dæmigerðu götuhjóli til að komast á milli staða, þ.e. ekki hraðskreiðu, frambeygðu hjóli sem nær næstum bílhraða, og hjóla daglega. Bílstjórar sýna mér fyllstu kurteisi, stoppa alltaf við gangbrautir og stundum víðar (sem er reyndar óþarfi). 

Ég geri ráð fyrir að ég sé dálítið sýnileg og það sé kannski ástæðan en ég er alveg sannfærð um að fæstir bílstjórar svíni meðvitað á hjólreiðamönnum.


Nýr forseti

Það vantaði bara herslumuninn að tekið yrði viðtal við mig á Austurvelli áðan. Ég vildi það alveg en fannst ég ekki alveg nógu vel tilhöfð til að birtast öllum landsmönnum þannig að ég tranaði mér ekkert fram -- eins og mig langaði þó. Svo mikið langaði mig til að taka undir með já-kórnum, svo full tilhlökkunar er ég gagnvart framtíðinni með þessa fjölskyldu á Bessastöðum.

Af hverju?

Af því að Guðni sló fallegan og hógværan tón í ræðunni sem er full fyrirheita um aukið jafnrétti og að þau gildi sem mér þykja mikilvæg verði borin fyrir brjósti. Ég hef lengi vitað af Guðna en þekki hann því miður ekki persónulega. Eliza lofar líka góðu, kraftmikil kona sem virðist drífa í hlutunum og hefur að auki lært íslensku bærilega eftir að hún flutti hingað.

1. ágúst 2016 er sannarlega gleðidagur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband