50% atvinnuleysi?

Ég var að horfa á kosningaþátt Stöðvar 2, stórkostlegt sjónvarpsefni. Ein hugsun sem ég tek með mér inn í kvöldið er sú um fjórðu iðnbyltinguna. Ef störf úreldast vegna þess að tækninni fleygir fram -- hefur fleygt fram -- er þá ekki upplagt að vinnudagurinn verði fjórir tímar; vinnuvikan 20 tímar hvernig sem þeim er deilt á dagana? Hverjar eru grunnþarfirnar? Að hafa mat og til þess þurfum við framleiðslu. Að hafa húsnæði og til þess þurfum við alls kyns þekkingu, sem sagt kennara og menntun. Hvað annað? Samgöngur? Ég meina til að lifa af. Fjölmiðla og aðra afþreyingu? Tjah, nei, varla til að lifa af. Menningu? Til að sjá tilgang með lífinu. Grill?

Ef við þurfum fyrst og fremst mat, föt, þak yfir höfuðið og að losna við sorp, já, og farga því, þurfum við kannski bara að vinna að meðaltali 20 tíma á viku. Er það alveg skelfileg tilhugsun?

Ég hef mína framfærslu af prófarkalestri og kennslu. Ef stemning verður fyrir því á næstu 20 árum, sem ég efast um að ég upplifi sjálf, að hætta að varðveita tungumálið og láta slag standa verð ég að finna mér annan vettvang. En ef engin störf verða fyrir helming þjóðarinnar, verða þá engar tekjur heldur? Ef helmingurinn framleiðir nóg og kann nóg ...


Forgangur

Ég er dálítið erfiður kjósandi. Nú sé ég fjórðu iðnbyltinguna nálgast og nú finnst mér mjög brýnt að efla menntun, einkum er varðar nýsköpun og frjóa hugsun. Ég hef alla mína fullorðinsævi haft framfærslu mína af prófarkalestri, kennslu og leiðsögn. Ef þessi störf úreldast vil ég vinna við eitthvað annað og kannski er ég ekki rétta manneskjan til að hanna nýju störfin. Einhver annar er góður í því en ég kannski betri í hinu.

Það er áreiðanlega klausa um þetta í öllum stefnuskránum. Hvaða flokkur eða einstaklingur er hins vegar líklegastur til að fylgja því eftir?


Vika til stefnu

Ég var að horfa á þátt Gísla Marteins þar sem yfirvofandi kosningar komu við sögu. Ungir viðmælendur Berglindar festival ætla að kjósa í alþingiskosningunum 28. október en vildu gjarnan vita hvað frambjóðendur væru til í að gera fyrir ungt fólk, t.d. í húsnæðismálum.

Það er samt viðbúið að margt ungt fólk kjósi ekki sem er grátlegt. Ég hef lengi verið mér meðvituð um að atkvæðisrétturinn er ekki sjálfgefinn en í gær fór ég aukinheldur á frábæran fyrirlestur á vegum Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum, fyrirlestur sem vinkona mín samdi reyndar og flutti, um réttinn til að kjósa. Fyrir 100 árum fékk fólk ekki að kjósa ef það var skuldsett. Það gat jafnvel haft atkvæðisrétt en misst hann ef það fór „á sveitina“. Ein átakanleg saga var af konu sem var mætt á kjörstað en var ekki á kjörskrá og var því gerð afturreka.

Ef fólk þáði fátækrastyrk gat það ekki kosið og það var að hluta til undir yfirvaldinu komið hvernig styrkþegi var metinn. Og yfirvaldið var gjarnan frambjóðandi.

KJÓSUM. Veljum þann lista sem við trúum mest á.


#metoo #höfumhátt

Fyrir nokkrum árum var ég leiðsögumaður með lítinn þýskumælandi hóp. Í annarri gistingunni vorum við bílstjórinn látin vera saman í smáhýsi. Við fengum samt hvort sitt herbergið. Ég hef samúð með ferðaþjónustunni þannig að ég lét gott heita. Bílstjórinn virtist í lagi, ekkert aðlaðandi en fínn bílstjóri, duglegur að tala við túristana og svona, en undir háttumál, þegar ég lá í rúminu mínu í mínu herbergi og var að lesa mér til fyrir næsta dag kallaði hann innan úr stofunni að ég læsi of mikið og kom svo inn, strauk handarbakinu við kinnina á mér og sagðist gjarnan vilja liggja með mér.

...

Ég, alveg bullandi meðvirk, vék mér undan og sagði: Nei, takk.

Nei, takk!?

Þegar ég fór að sofa staflaði ég bókum við hurðina því að enginn var lásinn.

Ég hafði enga ástæðu gefið honum til að halda að mér fyndist þetta góð hugmynd. Næstum öll ferðin var eftir. Ég forðaðist bílstjórann eins og ég gat. Mér leið óþægilega og það smitaðist út í ferðina.

Þegar ferðin var búin skilaði hann mér heim og ég hálfhljóp í burtu en samt spurði hann: Fæ ég ekki einn koss í kveðjuskyni?

...

Ég hef ekkert oft lent í þessu. Flestir bílstjórar sem ég hef keyrt með eru frábærir og faglegir samstarfsmenn. Ég man m.a.s. sjaldnast eftir þessu atviki en, fokk, hvað þessi maður kunni ekki mannasiði. Og ferðaskrifstofunni var alveg sama. Ég man ekki lengur hvað bílstjórinn heitir en ég gleymi ekki hver réð mig í þessa ferð.


Hattur ofan

Ekkert er mér hugleiknara núna en að fá fram skýr kosningaúrslit 28. október nk. Fólk sem velst til þingmennsku þarf að vera skýrt í hugsun og tali, hafa metnað fyrir hönd þjóðarinnar og vilja til að vinna vel í þágu okkar, almennings. Vissulega má gera ráð fyrir að í hópi frambjóðenda séu svartir sauðir en heilt yfir trúi ég því að fólk hafi heiðarlegan ásetning og ég verð að taka undir með einum eða tveimur í kringum mig sem hafa hrósað fólki sem gefur kost á sér til samfélagsstarfa þar sem úrlausnarefni eru oft flókin og tímafrek.

Ég veit mætavel að veist hefur verið að fólki sem hefur lagt sig allt fram um að vinna í þágu stóra hópsins en ég vona að við vöndum valið eftir tæpan hálfan mánuð og fáum bestu úrslitin -- skýr úrslit og starfhæfa ríkisstjórn.


Ekki gleyma því að kjósa 28. október

Nú er mánuður til kosninga. Ég heyri í kringum mig að fólki finnist ekki taka því að kjósa. Hroðalega dapurlegt. Hins vegar tekur fleira fólk þátt í skoðanakönnunum sem er ánægjulegt. Vonandi þýðir það að fólki finnist skipta máli að taka þátt í kosningum, nýta atkvæðisréttinn.

Mig langar bara að orða þetta svona í bili: Ímyndum okkur að ríkisbókhaldið sé heimilisbókhald með 1.000 milljörðum. Hvaða flokkur lofar að nota peningana í málaflokka sem eru þér að skapi og er líklegur til að standa við loforðið?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband