Læf of Pæ

Nei, sagan hefur verið þýdd sem Sagan af Pí, m.a.s. á vef Ríkisútvarpsins. Þess vegna finnst mér ótækt að þulur ríkissjónvarpsins hafi kynnt myndina sem Life of Pi og þar að auki sagt að hún hafi hlotið fjögur verðlaun. Hvort tveggja skar í eyrun. Hefði hún getað hlotið eitt, tvö eða þrjú verðlaun? Nei, verðlaun er fleirtöluorð.

Og hananú.


Einkavæðum þjóðkirkjuna

Ég trúi meira á álfa og tröll en hinn eina sanna spekúlant á himnum og allra minnst trúi ég á kirkjujarðir sem ríkið á enn að vera að borga kirkjunni leigu af. Og ég viðurkenni að ég trúi alls ekki að biskupinn verðskuldi hækkun umfram hjúkrunarfræðinga.


Hver á ,,réttan íslenskan rithátt"?

Ég er ekki fyrst til að hafa orð á þessu, ég veit, en mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna íslenskar orðabækur eru ekki aðgengilegar öllum á netinu. Nú er ég með svokallaðan gestaaðgang að Snöru sem er ágæt orðabók en ef ég ætla að opna hana í öðrum vafra en ég setti hana upp á telst það nýr aðgangur og mér er boðið að kaupa svona aðgang:

Hversu mörg tæki má bjóða þér?
3 tæki fyrir 624 kr. á mánuði
4 tæki fyrir 817 kr. á mánuði
5 tæki fyrir 995 kr. á mánuði
6 tæki fyrir 1.158 kr. á mánuði
 
Af hverju ætti ég að þurfa að kaupa aðgang að íslenskri orðabók fyrir mörg þúsund á ári? Sumt virkar betur í Chrome og annað í Torch. Svo er Safari í spjaldinu. Ég er alveg til í að borga fyrir orðabækur í sjálfu sér en þetta flækjustig gerir það að verkum að fólk gáir síður að „réttum“ rithætti.
 
Ég er gröm -- en núverandi ríkisstjórn ætlar að gera menntun hærra undir höfði. Ég bíð spennt.

Gjalddagi -- merking

Fyrr á árinu varð ég fyrir tjóni sem tryggingafélagið borgaði að hluta en ég þurfti að borga að hluta. Gott og vel. Í gær, 6. desember, opnaði ég heimabankann og sá reikning frá tryggingafélaginu með GJALDDAGA 16. nóvember og EINDAGA 16. desember. Reikningurinn var mögulega kominn í heimabankann um mánaðamótin en sannarlega ekki 16., 17., 18. eða 19. nóvember.

Ég hringdi í tryggingafélagið til að fá botn í skuldina (vatnstjónið varð í apríl og ég hélt að tryggingin hefði dekkað það þannig að skuldin kom mér í opna skjöldu) og stúlkan stóð í þeirri meiningu að gjalddagi væri dagurinn þegar reikningurinn væri gefinn út. Því ber ekki saman við minn skilning sem er sá að gjalddagi sé dagurinn sem maður á að greiða reikninginn án aukakostnaðar en með eindaga fær maður aukafrest með litlum aukakostnaði, stundum engum.

Snara er sammála mér.

gjald·dagi

-a, -ar KK viðsk./hagfr.
sá dagur þegar gjald verður kræft, síðasti dagur til greiðslu skuldar án dráttarvaxta e.þ.h.
greiddi afborgunina á gjalddaga
falla í gjalddaga verða gjaldkræfur
 

ein·dagi

-a, -ar KK
gjalddagi
síðasti dagur sem hægt er að greiða skuld án þess að á hana falli dráttarvextir eða annar kostnaður
vera kominn í eindaga með e-ð vera orðinn seinn fyrir með e-ð
 
Miðað við orðabók er verið að flækja málin að óþörfu en gjalddagi er sannarlega ekki útgáfudagur. Reikningurinn á að hafa borist manni fyrir gjalddagann. Punktur.

Sundhöll Reykjavíkur -- 2017

Ég var lengi búin að hlakka til að fá útisundlaug í hverfið og dreif mig áðan í skoðunarferð. Fyrsta mat: Skemmtileg, falleg og frábær viðbót við það sem við höfðum. Alltof lítil samt. Aðeins fjórar sundbrautir og grunni endinn er svo grunnur að maður þarf að passa sig. Heiti potturinn ílangur eins og í Nauthólsvík og sætin góð (maður er ekki á fleygiferð eins og í sjópottinum í Laugardalnum) en helst til stutt á milli hliðanna. Ég teygði aðeins úr mér og gaf umsvifalaust ókunnugum manni undir fótinn.

En kannski þjónar hún fyrst og fremst sem busllaug með sólbaðsaðstöðu því að laugin mun umfaðma sólina á sólardögum og ég er alveg sátt við það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband