Lækkað verð > ódýrari lán

Fyrir viku fussaði ég svolítið ofan í lyklaborðið yfir æsingi fólks út af Costco. Í millitíðinni hefur mér verið boðið upp á fersk jarðarber og vínber þaðan, fólk á mínum vegum hefur keypt inn til veisluhalda og sparað ógrynni, fréttir borist af lækkandi vöruverði í öðrum búðum, jafnvel búðum sem hafa kynnt sig sem lágvöruverðsbúðir -- og nú skilst mér að kostnaður við húsnæðislán lækki vegna lækkaðs verðs.

Kannski fæ ég nýjar fréttir í næstu viku en nú trúi ég smá á samkeppnina. Ég er stútfull af bjartsýni í sumarbyrjun.

Samt galli að öll ferskvaran sé í hörðu plasti.


Korputorg

Ég þekki fólk (eina manneskju) sem vinnur í Costco í Garðabæ en hef hvorki keypt mér aðgang né skipulagt ferð þangað. Ég fagna heilbrigðri samkeppni og vona innilega að hún nálgist íslenskt viðskiptalíf. Ég sé bara ekki hvernig risabúð í jaðri höfuðborgarinnar á að tryggja það til lengri tíma. Ég á bíl og er með bílpróf en mér hrýs hugur við að leggja það á mig að fara í leiðangur í risabúð til annars en að kaupa hrærivél eða mannhæðarháan bangsa.

Mér dettur ekki í hug að tala eftirspurnina niður enda keypti ég fjölskyldustærð af m&m áðan á 1 kr. lægra verði en bauðst í Garðabæjarbúðinni.

En hvernig gengur með Korputorg?


Fyrsta maraþonið

Ég get ekki lagt þennan tengil á Facebook-vini mína þannig að ég ætla að geyma hér hina stórkostlegu minningu um klukkutímana fimm sem ég varði á hlaupum um Kaupmannahafnarborg á sunnudaginn. Auðvitað hefði ég getað lagt mig aðeins meira fram en 1) maður á að byrja verr en vel, 2) ég vildi njóta umhverfisins og 3) ég er svo gott sem harðsperrulaus. Það var heitt, sólin skein, fólk hvatti mann meðfram brautinni, meðhlaupendur peppuðu og stemningin var í alla staði algjörlega frábær.

 


10 sinnum lægri laun?

Ég þurfti að horfa tvisvar á 10-fréttatíma RÚV til að trúa eigin eyrum. Haraldur Teitsson hjá rútufyrirtækinu Teiti Jónassyni sagði að útlendu bílstjórarnir sem keyrðu hér með túrista í vaxandi mæli væru með 10 sinnum lægri laun.

Ég skil að hann hafi mismælt sig en hvað vildi hann sagt hafa? Að útlendu, undirborguðu bílstjórarnir væru með 10 kr. lægra tímakaup? 10.000 kr. minna á mánuði? 10% lægra kaup?

Datt fréttamanninum ekki í hug að staldra við þetta?

Íslenskir rútubílstjórar voru á smánarlaunum meðan ég vann sem leiðsögumaður. Vonandi eru þau orðin skárri þótt ég leyfi mér að efast um það. Ástæðan fyrir að þeir tolla í starfinu er að þeir búa þó við nokkurt atvinnuöryggi og ég held að þeim finnist innan um og saman við dálítið næs að vera á kaupi tímunum saman í bílnum eða á spjalli við aðra í ferðaþjónustunni meðan leiðsögumaður gengur upp að fossum, upp á jökla og niður með ám með túristunum sínum. Þeir eru bundnir í vinnunni en geta aðeins um frjálst höfuð strokið. Ég vona að enginn lesi öfund úr orðum mínum, ég þekki marga frábæra rútubílstjóra og mér hefur mest sviðið að þeir séu ekki á samkeppnishæfum launum. Þeir hífa upp launin með yfirgengilegri aukavinnu.

En 10 sinnum lægri laun þýðir líklega að útlensku bílstjórarnir borga með sér og það dálítið ríflega -- og þá er von að Halli eigi erfitt með að keppa við þá.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband