Jónsmessuhlaupið

Ég er í virkum gönguhóp og við förum bæði stuttar og langar göngur. Þótt margir séu bæði fráir á fæti og ekki gerðir úr sykri eru ýmsir hræddir við bleytu og netta vosbúð. Ég meina auðvitað ekki vosbúð heldur ofankomu og að veðurskilyrði séu ekki eins og tíðkast t.d. á Norðurlöndunum á sumrin. Í vor ætluðum við 70 saman í dagsgöngu en vegna veðurspár hættu 26 við, segi og skrifa. Gangan var hundblaut en hún varð líka minnisstæð og ef maður ætlar einhvern tímann í nokkurra daga göngu um Hornstrandir eða Lónsöræfi, svo dæmi af handahófi séu tekin, er manni hollt að reyna ýmislegt veður á eigin skinni.

Í gær var miðnæturhlaupið í Laugardalnum og aðeins upp úr. Veðurspá fram eftir vikunni var ágæt en svo snerist veðrið í gær og varð svolítið blautt. Samt var metþátttaka í hlaupinu. Góður hópur útlendinga var auðvitað þar á meðal og ég talaði við nokkra sem komu fyrst og fremst út af hlaupinu (hlaupatúristar eins og ég er að verða) þannig að það fólk lætur ekki veðrið stoppa sig en ég er ánægð með þessa aukningu og stemningu fyrir útivist. Ég er svo mikið hjarðdýr ...


Laust fé og fast

Einu sinni miðaði ég við að borga með beinhörðum peningum ef upphæðin var undir 1.000 kr. Nú miða ég við 1.500 kr. Mér finnst í öllu falli galið að borga einn rjómapela eða lítinn ís í brauðformi með korti. Kannski er það kynslóðin sem ég tilheyri. En ég er alveg til í að borga oftar með kortinu mínu ef það þýðir ekki yfirbyggingu og ekki að kortafyrirtæki eða bankar mali gull á kostnað neytenda sem verði látnir borga fáránleg færslugjöld.

 


,,Skömm" á norsku

Margir vita strax um hvaða þætti ég er að tala, norsku unglingaþættina sem höfða til alls aldurs og beggja (allra?) kynja, að því er virðist. Ég var í einhverju tilliti búin að vita af þeim í drjúgan tíma en lét verða af því að byrja að horfa um daginn og er nú búin með tvær þáttaraðir af fjórum. Þættirnir eru mislangir, frá 22 og upp í 35 mínútur hefur mér sýnst, og ég þoli alveg smápásu núna þar sem ég veit að þeir fara ekki frá mér. En svo mikið hafa þeir verið ræddir í nærumhverfi mínu að mér var hollast að horfa.

Dásemdin við þættina er handritið, óvæntu viðbrögðin, manneskjulegheitin og svo auðvitað dýrðin við að hlusta á eitthvað annað en ensku og horfa á eitthvað annað en klisjur. Ekki er allt bandarískt sjónvarpsefni illa gert en mér finnst stór hluti af því sem býðst hér í sjónvarpi vera sama efnið, endalausar endurtekningar og fyrirsjáanlegt efni.

En þessi færsla er ekki um gallana á öðrum þáttum heldur tilraun til að greina Skömm. Ég veit að aðal„skömmin“ á eftir að koma en hingað til hafa unglingarnir þurft að takast á við margar áskoranir, leysa sum úrlausnarefni vel og önnur illa, virka grunsamlega þroskuð og yfirveguð á köflum en bæta það upp með fáránlegri hegðun innan um og saman við. Hinn gallinn er að þau búa mörg út af fyrir sig, ekki með foreldrum, og virðast engar áhyggjur þurfa að hafa af peningum. Og lifa sum eins og greifar.

En þótt þættirnir séu um unglinga eru þeir samt um manneskjuna í sinni fjölbreyttu mynd og alls konar fólk vex ekki upp úr alls konar tilfinningakrísum þannig að ég held að flestir geti sett sig í spor einhverra í þáttunum, jafnvel horft inn á við og jafnvel, jafnvel endurskoðað breytni sína.

Áfram, Norðmenn.

Ég man Fleksnes ...


Gengið

Ég fór til Kaupmannahafnar í síðasta mánuði, bara til að vera í nokkra daga en ég fór samt í bankann og keypti mér danskar krónur, agalega glöð yfir að gjaldeyrishöftum hefði verið aflétt. Ég veit að ég gat það áður en með algjöru afnámi haftanna fannst mér ég hafa endurheimt eitthvað af frelsinu á ný. Þá var gengi dönsku krónunnar rúmlega 15 íslenskar, svipað og það er núna. Fyrir ári var danska krónan 18,5 íslenskar og ári þar á undan tæpar 20. Já, frábært fyrir mig sem stend ekki í neinum stórkostlegum viðskiptum að þurfa lítið að borga fyrir gjaldeyri. En 15. júní 2007 stóð hún í rúmum 11 kr. og hvað gerðist skömmu síðar?

Ég er ekki neinn hitamælir á efnahagsástand þjóða en ég heyri hvað ferðaþjónustan segir. Vara sem kostar 1 evru á meginlandi Evrópu kostar 15-20 evrur hér! Þetta er ekki í lagi og þá þarf að laga það.

Á ég að gera það?


,,... ég get ekki séð hvernig samfélagið hefur gagn af því að þessi tiltekni maður, þótt hann hafi afplánað sinn dóm, taki til fyrri starfa"

Ég tek undir tilvitnuð orð sem höfð eru eftir forsetanum. Hvernig getur nokkur maður treyst dæmdum kynferðisbrotamanni þótt hann hafi „setið af sér“ ef hann hefur ekki sýnt nein merki um betrun? Lögmannsstarfið er trúnaðarstarf og persónan sem gegnir því skiptir miklu máli.

Ég man enn eftir máli Atla Helgasonar sem fékk uppreist æru en dró til baka beiðni um endurheimt lögmannsréttinda sinna. Síðan hefur verið friður um hann, er það ekki?


Guðrún frá Lundi sett á safn

Ég er stoltur lesandi Dalalífs og hóflegur aðdáandi Jóns á Nautaflötum en núna einkum roggin af að þekkja Marín, langömmubarn Guðrúnar frá Lundi sem var einmitt í útvarpsviðtali hjá Sigurlaugu M. Jónasdóttur í morgun. Hún varpar enn frekara ljósi á feril Guðrúnar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband