Að leyna eða ekki að leyna

Engum ynnist tími til að segja nokkrum manni frá öllu sem á daga hans drífur eða öllu sem fer í gegnum hugann. Erum við þá að leyna því? Nei. Ef maður segir hins vegar ekki frá morði, morðtilraun, framhjáhaldi, þjófnaði, meðvituðu einelti [bætist við eftir þörfum] heldur maður því vísvitandi leyndu og þá er það leyndarmál.

Ég var að klára Leyndarmál eiginmannsins eftir ástralska höfundinn Liane Moriarty. Ég þekkti ekkert til hennar þannig að hún kom mér stórkostlega ánægjulega á óvart og skilur mig eftir með móralskar spurningar. Ég vil ekki skemma neitt fyrir neinum þannig að ég fer ekki út í söguþráðinn en ég var stórhrifin af fléttunni og fer nú að leita að fleiri bókum eftir sama höfund. Og ekki er loku fyrir það skotið að ég bryddi upp á álitamálunum í næsta kaffitíma. Er verra ef maðurinn manns heldur platónskt framhjá með heimilisvini en ef hann lætur verkin tala? Er hægt að halda framhjá með orðunum einum saman?


Fornafn eða skírnarnafn

Ég heyrði í útvarpinu í morgun talað um treyjur landsliðskvennanna, hvort eðlilegt væri að vera með föðurnöfnin á bakinu í stað skírnarnafnanna. Mér finnst það í lagi þótt mér fyndist óeðlilegt að lýsandinn talaði um Friðriksdóttur og Baldvinsdóttur í íslensku útsendingunni. Það sem ég hnaut hins vegar um var þegar talað var um fornöfn og ættarnöfn í þættinum.

Berglind er skírnarnafn eða eiginnafn. Hún er fornafn. Steinsdóttir er föðurnafn. Steinsen gæti verið ættarnafn ef fjölskyldan bæri það í stað breytilegra föðurnafna.

Ég held að ég muni hver sagði þetta sem ég er ósammála en ég nenni ekki að hlusta til að finna það enda skiptir það ekki máli. Ég er bara að tjá mig ...


,,Svo er klifið tindinn"

Ég er ekki á móti málbreytingum, svokallaðri þróun. Sumar breytingar valda mér þó líkamlegum óþægindum, t.d. hin sérkennilega notkun á lýsingarhætti: Fyrst var vaknað fyrir allar aldir, svo borðað morgunmat og loks farið í bílinn.

Mér þykir eðlilegra að segja: Við vöknuðum fyrir allar aldir, borðuðum morgunmat, fórum á bílnum á áfangastað og klifum síðan tindinn (eða eitthvað betra og mögulega í eintölu). Er þetta einhvers konar framsöguháttarflótti?

Fyrri málsgreinin er í alla staði sérkennileg eins og frásegjandi hafi ekki komið nálægt sínum eigin gjörðum og svo verður tungumálið einsleitara og flatara. Minnir á byrjendur í þýsku sem treysta sér ekki í sagnir í þátíð.

Mér finnst leiðinlegt að segja þetta á miðju sumri en þetta hefur íþyngt mér um nokkra hríð og ég gat ekki á mér setið þegar ég heyrði setninguna í fyrirsögninni í fréttatíma Bylgjunnar rétt í þessu.

   Það var ekki sagt við mig af neinum að skrifa þennan pistil ...


Fánapokar

Já, titillinn er ekki lýsandi en þetta er samt nafnið á verkefni sem snýst um að nýta sterkt og gott efni, sem annars yrði fargað, til að búa til poka. Ég var að styrkja það og hlakka mikið til að sjá afraksturinn.

Kveðja,
nýtingarsinninn


Höfum hátt

Ég fylgist með fréttum. Ég hlusta mikið á útvarp en virðist leggja betur á minnið það sem ég les og ég fletti blöðunum þótt ég dragist aðeins aftur úr. Nú var ég að lesa leiðara frá 5. júlí þar sem við erum hvött til að hafa hátt og láta ekki kynferðisglæpi gleymast, ekki til þess að við munum þá sjálfa heldur til þess að koma í veg fyrir að þeir endurtaki sig.

Sjálfsagt er einhver nálægt mér sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi þótt ég viti það ekki en ég er ekki í vafa um að slíkir glæpir setji mark sitt á þolandann til langrar framtíðar. Nógu erum við buguð eftir fjármálaglæpi hrunsins og fjárhagslegt tjón sem við urðum fyrir þá. Peningar eru að sönnu ávísun á ýmis gæði en heilsa manns er ekki síður ávísun á lífsgæði.

Umræddur lögmaður var dæmdur fyrir kynferðisglæpi. Af hverju ætti vinnuheilsa hans, sem er þar að auki kominn á lífeyrisaldur, að vega þyngra en heilsa fjölmargra fórnarlamba kynferðisglæpa?

#höfumhátt


,,... að ekki sé á þessu stigi rétt að lögvernda starf leiðsögumanna."

Ég fór í Leiðsöguskóla Íslands í Kópavogi haustið 2001, útskrifaðist 2002 og var leiðsögumaður á sumrin frá 2002 til 2013. Allan þann tíma var þrálát umræða um starfið, lögverndun starfsins/starfsheitisins og kjörin. Allar stjórnir hafa rætt þetta, margir félagsfundir og auðvitað óteljandi kaffistofufundir um allt land. Og ekki bara þann tíma sem ég tolldi heldur sennilega allar götur frá stofnun Félags leiðsögumanna 1972.

Ferðamálaráðherra var fyrir mánuði spurð:

Telur ráðherra að lögvernda beri starfsheiti leiðsögumanna þannig að tryggt verði að það noti einungis þeir sem hafa lokið viðurkenndu leiðsögumannsnámi, t.d. í samræmi við staðal um menntun leiðsögumanna IST EN 15565:2008, eða aflað sér réttar til að bera starfsheitið með öðrum viðurkenndum hætti, svo sem raunfærnimati? 

Skammarlegt að það skyldi fara framhjá mér að þessi fyrirspurn hafi verið lögð fram en svarið var birt á miðvikudaginn. Og ráðherra ferðamála segir:

Að framansögðu virtu er það mat ráðherra að ekki sé á þessu stigi rétt að lögvernda starf leiðsögumanna.  

Hún færir fyrir því þau rök að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna myndi leiða til þess að ófaglærðir einstaklingar, sumir með áratugalanga reynslu í leiðsögn, þyrftu leyfi frá stjórnvöldum til að geta titlað sig leiðsögumenn.

Ég spyr: Já, og? Félag leiðsögumanna hefur alltaf verið opið fyrir stöðuprófi. Einstaklingar sem hafa starfað áratugum saman við leiðsögn tækju bara stöðupróf og fengju löggildingu. Í alvörunni, þetta er fyrirsláttur. Samtök ferðaþjónustunnar hafa staðið í vegi fyrir löggildingu vegna hagsmuna stórra ferðaskrifstofa sem vilja geta ráðið inn hina og þessa sem kunna lítið sem ekkert og líta jafnvel á starf við leiðsögn sem möguleika til eigin ferðalaga og sætta sig við lágt kaup. Og með vaxandi straumi (nema ferðamenn hætti við vegna okurs) er meiri þörf fyrir mikla meðvitund um sérstöðu landsins.

Ég gerði mér vonir um meiri djörfung hjá ferðamálaráðherra af nýrri kynslóð en svar hennar og viðhorf tryggir að margir lærðir leiðsögumenn fúlsa við starfi í ferðaþjónustunni. Umsaminn taxti upp á 330.000 í mánaðarlaun hjálpar heldur ekki til.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband