Sænska búðin

Ég var að frétta að H&M væri sænsk keðja en mér er alveg sama og ætla ekki að fletta því upp. Ég skil ekki alveg hæpið í kringum súperopnun á súperbúð sem á að vera alveg súper en ég hef vissulega leitað hana uppi í útlöndum. Ég skil hæpið allra síst fyrir það að Íslendingar, ekki síst sú kynslóð sem virðist hafa safnast saman í Smáralind í gær, versla flest (að sögn) í útlöndum og svo á netinu. Af hverju er svona mörgum í mun að fá búð með risaspeglum og flottum ljósakrónum þegar þetta sama marga fólk vill geta flett í gegnum vöruúrvalið heima hjá sér í tölvunni?


Jaðrakaninn er í karlkyni (málfræði)

Mig rak í rogastans að heyra að til væri alþjóðanefnd um hestanöfn og að Gullúu á Skeggsstöðum hefði verið bannað að skíra merina sína Mósuna. Gott og vel, þetta er hryssa og þá er n-ið greinirinn en hvað hefði gerst ef um væri að ræða hest og nafnið væri þá með greini Mósaninn? Til er fugl sem heitir jaðrakan og er í karlkyni -- en það stendur eðlilega oft í fólki sem heldur að um sé að ræða kvenkynsorð og beygir það sem slíkt.

#fögnumfjölbreytileikanum

Myndaniðurstaða fyrir jaðrakan


RM 2017

Gærdagurinn var geggjaður. Ég tók þátt í hálfu maraþonhlaupi og undi hag mínum vel, bætti tímann minn (sem á að heita auðvelt þar sem hann var ekki til að hrópa húrra fyrir en hver og einn keppir við sjálfan sig) og sleikti svo sólina í vönduðum félagsskap það sem eftir lifði dags.

En ég ætla að nóta hér fyrir sjálfa mig og minnið að ég hef tvær athugasemdir við skipulag hlaupsins. Í fyrra lagi er það sem hefur verið galið lengi, kannski alltaf, það að tíminn sem líður frá því að ræst er og þangað til maður stígur á rásmottuna í lok hlaups ræður röðinni. Þegar ég hleyp af stað í hlaupinu eru liðnar 3 mínútur frá ræsingu og þá á að draga þessar 3 mínútur frá til að fá út rauntíma minn, flögutímann. Það er auðvelt að reikna þetta rétt og flögutíminn er birtur sem aukaupplýsingar í lokatölum hlaupsins. Fyrir fremstu menn skiptir þetta engu máli, þeir hlaupa yfir mottuna um leið og ræst er. Og upp á röðina er mér skítsama, ég lenti í sæti 1717, en í gær bætti ég tíma minn um 2 mínútur og maður er alltaf í smákeppni við sjálfan sig og hækkandi aldur. Þegar ég hljóp í Kaupmannahöfn í maí leið korter frá ræsingu og þangað til ég komst af stað og það korter var dregið frá enda kemur þannig út réttur flögutími, eiginlegur hlaupatími.

Hitt gagnrýnisatriðið er brekkan upp Kalkofnsveginn, meðfram Seðlabankanum, í blálokin. Maður á að kynna sér brautina fyrirfram en þegar maður horfir á kortið áttar maður sig ekki endilega á þessari litlu hlykkju sem hefur ekki verið undanfarin ár. Ég geri ráð fyrir að breytingin sé einstök vegna framkvæmdanna í Lækjargötu en skipuleggjendum hefði verið í lófa lagið að taka þetta fram í einum af fjölmörgum tölvupóstum síðustu dagana fyrir hlaup.

Í síðasta póstinum stendur þetta:

Hlaupaleiðir í skemmtiskokki og hálfu maraþoni eru örlítið breyttar milli ára. Skemmtiskokkið er styttra en áður og er nú 2,1 km. Í hálfu maraþoni er farið um Skúlagötu, Ingólfsstræti og Hverfisgötu áður en beygt er inn í Lækjargötu en ekki um Kalkofnsveg eins og áður.

Samt geggjaður gærdagur ... og auðvitað hefði verið best að hlaupa leiðina í æfingaskyni í byrjun ágúst ...


Stytta af fyrirmenni - hvaða fyrirmenni vantar helst í borgarmyndina?

Ég hlustaði á Bylgjuna á mánudaginn þegar Reykjavík síðdegis velti upp hugmynd um hvort við ættum að fjölga styttum borgarinnar og hvaða fólk ætti þá að vera fyrirmyndirnar. Ég hlustaði opinmynnt og stóreygð á hvern viðmælandann á fætur öðrum stinga upp á Jóhannesi í Bónusi, Pálma í Hagkaupum, Guðna í Sunnu og Hemma Gunn, aðallega vegna þess að þessir kallar lækkuðu vöruverð til neytenda. Nú þarf ég að vanda mig. Ég er vitaskuld hlynnt þeim sem beita sér fyrir hagsmunum neytenda, kunna fótum sínum og annarra forráð í viðskiptum, sýna hugmyndaflug, eru hláturmildir og skora mörk. Í alvöru, mér finnst það. En að engum sem hringdi inn hafi dottið í hug að nefna Vigdísi Finnbogadóttur gekk fram af mér. Ég var aldrei þessu vant undir stýri og mundi aukinheldur ekki númerið á Bylgjunni, annars hefði ég hringt. Sem betur fer spurði einn af stjórnendunum hvort fólki fyndist engin kona eiga skilið að fá styttu af sér, t.d. þá Vigdís eða Björk. 

Ég hjóla stundum um miðborgina með túrista og nota oft tækifærið til að nefna Vigdísi og líka Ingibjörgu H. Bjarnason sem er orðið auðvelt vegna styttunnar af henni fyrir framan Alþingishúsið. Nú er Veröld, hús Vigdísar að komast á koppinn, að vísu skelfilega hrátt hús í augnablikinu en stendur áreiðanlega til bóta, þar sem mér skilst að allir aðkomumenn á Íslandi eigi í fyllingu tímans að geta lesið eitthvað á eigin tungumáli. Fólki finnst merkilegt að kona, fædd 1930, sé enn að ferðast sem sendiherra tungumála og að konur á Íslandi hafi fengið kosningarrétt svo snemma sem 1915. Styttur af flottu fólki auðvelda okkur að minnast þess góða sem það gerði. Má ég biðja um styttu af Vigdísi fyrir framan Veröld?


Verð á jarðarberjum

Lengst af fullorðinsævi minnar hef ég undrast það að grænmetisbændur fái ekki, sem stórnotendur raforku, raforku á álverksmiðjuverði. Það er búið að útskýra fyrir mér að grænmetisbændur þyrftu að nota raforku allt árið og allan sólarhringinn eins og álframleiðendur til að kílóvattverðið lækkaði. Engu að síður finnst mér ótrúlegt að það skuli ekki hægt að búa svo um hnúta að ávextir og grænmeti sem hægt er að framleiða í héraði skuli ekki vera ferskara og ódýrara en það sem flutt er inn frá Spáni eða Síle.

Og að bóndi skuli segjast ætla að hætta að tína berin sín og láta gróskuna vaxa úr sér vegna þess að þau seljist ekki í samkeppni við eina stórverslun í Garðabænum virkar ekki trúverðugt. Sorrí.

Er það ekki bara hlutverk stjórnvalda að leysa hnútinn? Mér blöskrar nefnilega áfram að kaupa litla fötu af bláberjum á 1.500 kr. og litla öskju af jarðarberjum á 800 kr. og þurfa þar að auki að henda tíunda partinum vegna linku eða myglu.


Jafnrétti við leiðsögn?

Jakob Bjarnar mætti í Harmageddon í morgun og ræddi hitamál ferðaþjónustunnar um þessar mundir. Ég er jafnréttissinni en veit ekki alltaf hvort ég er femínisti. Og í tilfellinu þar sem einum leiðsögumanni er, að sögn, skipt út fyrir annan leiðsögumann er áfram í mínum augum kjaramál en ekki jafnréttismál. Mér finnst enn vanta mjög miklar upplýsingar. Hver er bakgrunnur starfsmannsins sem var vikið frá? Var karlinn upphaflega ráðinn eins og haft er eftir Hópbílum en komst ekki fyrsta daginn? Leiðsögn er mjög persónuleg þjónusta og sjálfri þætti mér óþægilegt að stökkva inn í einn dag af fjórum eða fimm og að sama skapi að einhver annar leysti mig af. Frá hverju var búið að segja? Það er nefnilega ekki þannig að á fyrsta degi segi maður þetta og ekki hitt. Að vísu er sennilega auðveldast að hafa annan leiðsögumann alfyrsta daginn ef nauðsynlegt er að skipta ferðinni upp.

Ég vildi að menn vendu sig á að segja söguna eins og hún er þannig að heilir hópar væru ekki að geta í eyðurnar og fullyrða hitt og þetta um staðgengla og trúarbrögð.


Ferðaþjónustan stoðin sem fiskurinn var

Ég man þegar fiskifréttir, aflafréttir, afkomutölur og þess háttar voru fyrirferðarmestar í fréttatímum RÚV. Nú er fiskur bara ein aðalstoð af þremur og í hádeginu í dag var fyrsta frétt af konu sem hafði verið vikið til hliðar fyrir karl við leiðsögn.

Hún er líka á vefnum. 

Sjálfsagt á bæði eftir að ræða og rannsaka þetta mál betur en mín fyrstu viðbrögð eru að konan ræður sig til starfs og henni virðist vikið úr því starfi ÁN UMSAMINNA LAUNA. Í alvörunni?

Í alvörunni? Ég veit að atvinnuöryggi meðal leiðsögumanna er í skötulíki af því að næstum allir eru lausráðnir en ef ég ræð mig í vikuferð, sem dæmi, og þjónusta mín er afþökkuð vegna þess að túristarnir eru karlrembur frá [...] sem líta svoleiðis á að akstur sé trúarbrögð -- tóm ágiskun -- á ÉG ekki að gjalda fyrir það með launamissi.

Nú skal ég viðurkenna fyrir ykkur að ferðakaupendur hafa stundum beðið um konur, já, af því að þær lúkki betur á skipinu og kannski af því að þeir halda að þær séu þjónustulundaðri og nenni frekar að hella brosandi í staupin í hvataferðum. Glænýjar fréttir? Hallærislegt? Guð minn góður, já. Brot á jafnréttislögum?

En að hlunnfara manneskju um launin þegar ferð er hafin er ofvaxið skilningi mínum. Það vantar stórkostlega mikilvægar upplýsingar í fréttina, konan hefur ráðið sig svart og hefur enga réttarstöðu eða hún þekkir ekki rétt sinn. Nema mér yfirsjáist eitthvað í frásögninni. Hvað?

Ég skil vel að launafólk sniðgangi ferðaþjónustuna, þetta er ormagryfja.

Svo minni ég á að mánaðarlaunin eru 330.000 kr. Og munið þið ekki örugglega hvað ég var að segja um atvinnuöryggið?


Fótbolti Evrópu

Fótboltaáhugi minn var vakinn í fyrra þegar karlar kepptu á Evrópumeistaramótinu og hann endurvakinn þegar konurnar kepptu núna. Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi ekki komist upp úr riðlinum langaði mig til að fylgjast með. Vegna ferðalaga missti ég af báðum undanúrslitaleikjunum á fimmtudaginn og svo yfirsást mér fullkomlega hvenær leikurinn um bronsið átti að vera en horfði á úrslitaleikinn áðan. Mikil spenna. En mig langaði að vita hvernig hefði farið hjá Austurríki og Englandi, tveimur sterkum liðum í mótinu. En viti menn, það virðist ekki hafa verið neinn leikur um 3. sætið.

Ég fletti þá upp úrslitunum í leikjum karlanna á síðasta ári -- og þar var hið sama upp á teningnum, haha. Er ekkert 3. og 4. sæti í boltaíþróttum?


1. ágúst 2016

Ég man enn þann gleðidag þegar Guðni Th. Jóhannesson var settur í embætti. Ég get rifjað upp nokkur smávægileg atriði þar sem hann hefur misstigið sig en hundruð skipta þar sem hann hefur komið fram sem þjóðarleiðtogi sem sýnir mannúð og vit. Og ég var mjög ánægð með að hafa hann í Hollandi um daginn. Næstu þrjú ár lofa góðu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband