Færsluflokkur: Dægurmál

Iðnaðarmenn

Engir iðnaðarmenn standa að mér síðan pabbi féll frá. Hann var rafvirki og fagmaður fram í fingurgóma, kunni fagið, var sanngjarn, mætti á réttum tíma og almennt stóð við allt sitt.

Undanfarið hef ég verið með smið í vinnu við að laga hjá mér þröskuld. Þar eru sko ófá handtök, get ég sagt ykkur. Það þarf að ná þröskuldinum upp, smíða nýjan, máta, laga, lakka og koma svo aftur fyrir.

Við höfum aðeins spjallað og ég sagði honum m.a. að ég hefði alltaf verið heppin með iðnaðarmenn sem er eins gott þar sem ég er ekki handlagin og þarf að treysta á aðra með allt svona. Hann er sjálfur nánast hættur að vinna vegna aldurs og hefur sáralítilla hagsmuna að gæta. Hann sagði mér að iðnaðarmenn tvíbókuðu stundum suma daga vegna þess að kúnninn á það alveg til að hætta við verk sem búið er að semja um og það með stuttum fyrirvara. Þegar menn eru í harki og lausamennsku er vont að fá upphringingu á sunnudegi til að afpanta margra daga vinnu sem á að hefjast daginn eftir.

Ég þekki ekki þessa kúnna en eitthvað segir mér að það sé nokkuð til í þessu.


Closet Land

Ég ákvað nýlega að fletta upp myndum á YouTube með Madeleine Stowe sem ég skil ekki hvað hefur farið hjótt um. Endur fyrir löngu sá ég mynd með henni sem heitir eitthvað Blink en ég finn hana ekki aftur.

Ég fann hins vegar Closet Land og byrjunin er einhver sú áhrifamesta sem ég hef séð. Ég hef ekki lagt í að klára hana.


Rafmagn, ó, rafmagn

Bróðir minn (73) er niðurkominn í miðri Afríku um þessar mundir. Hann er búinn að vera á heimshornaflakki í 10 mánuði. Hann sendir okkur systrum reglulega upplýsingar um sig og sína hagi á forritinu Whatsapp sem rúmar texta, myndir og myndbönd. Hann þráskallast nefnilega við og neitar að skrá sig á Facebook.

En hvað um það, hann er núna í síendurteknu rafmagnsleysi og hann finnur sannarlega fyrir því, bæði upp á ljós og svo að hlaða símann og halda kælivöru kaldri. Mjög bagalegt.

Og þá rifjast upp fyrir mér að pabbi var rafvirki. Hann margsagði við mig á lífsleiðinni: Ég er bara rafvirki.

Ég vissi þá, og veit það æ betur með árunum, að rafmagn er undirstaða mikilla lífsgæða og ef rafmagnið skortir erum við á köldum kalda.

Og ég sendi Grindvíkingum samúðarkveðjur. 

cry


ESTA

Ég ætla að skjótast til Orlando í næsta mánuði að hitta frænku mína sem hefur búið þar alla sína ævi. Skjótast er ekki rétta orðið, flugið tekur þriðjung úr sólarhring og svo er tímamunur. En til þess að mega koma í nokkra daga í þetta (bölvaða) land þarf að fá ESTA-vottorð. Ég hef aðeins trassað að pæla í því en fólk hamast við að segja mér að þetta sé ekkert mál og kosti ekkert eða í mesta lagi 10 dollara.

Jæja, nú er ég búin að sitja sveitt við í klukkutíma, margsetja inn símanúmer af því að landsnúmerið átti síðan að koma tvisvar og svara því hvort ég ætli mér að fremja eða hafi framið þjóðarmorð og/eða hryðjuverk. Þvílík paranoja í þessum Bandaríkjamönnum. Dæs.

Og ég var rukkuð um 21 dollara sem er síst of mikið fyrir flækjustigið en undanfarið hefur fólk keppst við að segja mér að þetta kosti ekkert eða í mesta lagi 10 dollara. Af hverju segir fólk svona þegar það veit það ekki?

Þegar ég fór til Bandaríkjanna 2006 man ég að ég svaraði svona spurningum í flugvélinni en þegar ég fór 2014 man ég ekkert hvernig það gekk fyrir sig. Á næsta ári verð ég kannski orðin eins og öll hin, segi að þetta sé ekkert mál og kosti ekki túskilding með gati. En þá get ég flett upp þessari færslu minni. 

tongue-out


,,Hún hét Sara"

Ég veit ekki hvar hún var upphaflega sýnd, franska myndin sem er núna í spilara RÚV, Hún hét Sara. Myndin er orðin 14 ára gömul og ég hafði aldrei heyrt á hana minnst fyrr en einhver mælti svo óskaplega með henni nýlega. Og það sem verra er, ég hafði aldrei heyrt um Vélodrome d´Hiver! Hvernig í veröldinni hefur það farið framhjá mér?

Myndin, og sagan sem hún segir, er svo áhrifamikil að ég lagði öll snjalltæki frá mér og horfði bara á myndina (enda skil ég ekki frönsku). Franska stúlkan sem er mikill örlagavaldur í lífi litla bróður síns, og sjálfrar sín, kom þvílíkt út á mér tárunum. Þvílík örlög, þvílíkur harmur, þvílíkt lífshlaup. 

Þvílíkt.

Hún er aðgengileg í spilaranum í hálfan mánuð enn. Ég tek það fram vegna þess að spilarinn hentar mér vel. 

Ég er enn að hrista hausinn yfir fáfræði minni. #dæs


... fé fylgi nemendum ...

Mér þótti ég heyra góðar fréttir áðan, að Listaháskóli Íslands þurfi ekki að rukka skólagjöld frá og með næsta hausti. Ég hef aldrei skilið af hverju skóli sem er einn með sitt námsframboð hefur þurft að rukka mikil skólagjöld. Ég hef engan áhuga á að búa til list, og er alveg ófær um það satt að segja, en mér finnst mikilvægt að sérhvert samfélag mennti áhugasamt fólk í þessum geira.

Hins vegar gæti endað með því að ég prófaði HR sem ég hef rennt hýru auga til af því að ég er bóknámsskólamanneskja og mér blöskrar svolítið að borga 900.000 kr. á ári, til samanburðar við svokallað skrásetningargjald Háskóla Íslands upp á 75.000 kr. á ári.

Vel gert, ráðherra.


Holy Spider

Ég veit ekkert hvað myndin kallast á írönsku en hún er kynnt sem Heilaga köngulóin í spilara RÚV og mátti engu muna að dygði til að fæla mig frá henni. Sjálfsagt vísar heilagi hlutinn í borgina Mashhad þar sem (sannsögulegir) atburðir myndarinnar gerast en hvort köngulóin vísar í vændiskonurnar veit ég ekki.

Öll með áhuga á réttarfari og sanngirni ættu að splæsa tveimur tímum í myndina. Fyrsta korterið var ég ekki viss um að ég vildi horfa en endirinn og lokin á endinum koma svo innilega á óvart að ég er ánægð fyrir mína parta með að hafa haldið áfram.

Og hvað á okkur svo að finnast um réttlætið og réttarfarið í Íran? 

 


Hvatalaunakerfi Skattsins

Ég hlustaði á mjög merkilegt viðtal við ríkisskattstjóra í gær. Hann var spurður út í það sem þáttastjórnendur kölluðu bónuskerfi í launum og hann fór allur í vörn. Yfir fjögurra ára tímabil hafa verið greiddar út 260 milljónir, en hversu margir milljarðar hafa innheimst? Ég er búin að lesa marga dóma þar sem menn hafa verið sakfelldir fyrir að hafa innheimt virðisaukaskatt og ekki staðið skil á honum og ef starfsmenn Skattsins þurfa hvatakerfi til að finna skattsvikara, þá það. Kannski eru grunnlaunin lág og kannski þýðir þetta mikla aukavinnu.

En, guð minn góður, hvað póstarnir frá starfsmönnum Skattsins eru langir og vitlausir. Ef ég sem ponsulítill verktaki skil ekki eina blaðsíðu á íslensku fullyrði ég að eitthvað sé vitlaust í þeim bréfum. Og þau eru send með landgöngupóstinum frá Vestmannaeyjum, að því er virðist, sem eykur ekki skilvirknina. Ég hef svarað með tölvupósti en aftur fengið löturpóst til baka. Og mistökin sem Skatturinn var að leiðrétta stöfuðu frá fyrrum vinnuveitanda mínum en ekki mér! 

Kannski var ríkisskattstjóri í vörn af því að hann veit að kerfið er lélegt en hann var ekki spurður um það. 


Hvar er snjallvæðing umferðarljósanna?

Í mörg ár hefur verið talað um að tímabært sé að stýra umferðarljósum eftir umferð, þ.e. ef umferð er lítil fylgi ljósin henni en ekki öfugt. Þingmaður spurði ráðherra um þetta í vikunni og sagðist orðin leið á að bíða í bílnum sínum á rauðu ljósi þótt engin umferð væri. Ég lendi hins vegar ítrekað í þessu á hjólinu mínu og sums staðar þarf ég meira að segja að ýta á gönguhnappinn til að fá grænt þótt ljósið breytist sjálfkrafa fyrir bílana.

Ég tek því undir með þingmanninum og óska mjög eindregið eftir snjallvæðingu umferðarljósanna. Er það ekki bæði einfalt og fljótlegt á tækniöld?


Líffræði falls

Ég sá mynd í Bíó Paradís sem heitir á ensku ANATOMY OF A FALL, magnaða mynd um mann sem finnst látinn fyrir utan heimili sitt eftir fall af svölum. Spurningin er: Fleygði hann sér fram af eða var honum hrint? Það er úrlausnarefni myndarinnar.

Sandra Hüller leikur aðalkvenhlutverkið, eiginlega aðalhlutverkið þá, og er víst rómuð þótt ég hafi ekki þekkt hana. Hún var frábær. Myndin er löng, næstum tveir og hálfur tími, þannig að leikarar höfðu tóm til að dvelja í augnablikunum og það gerði hún svikalaust. Táningssonurinn var ekki síðri en reyndar er óþarfi að taka neinn út úr, allir leikarar skiluðu sínu með sóma þannig að væntanlega á Justine Triet eitthvað í frammistöðunni.

Myndin er sem sagt um hjón, franskan karl og þýska konu, sem kynnast í London en ákveða að flytja saman út í franska snjóþunga auðn. Þótt þau séu sálufélagar - eða kannski þess vegna - kastast stundum í kekki á milli þeirra og þegar hann er sviplega látinn fer ákærandi að grufla í ýmsu og púslið tekur á sig mynd. Áhorfandinn sér æ meira af lífshlaupi þeirra og getur glöggvað sig á því hver gerði hverjum hvað og hver ekki.

Bónus er síðan að sjá inn í franskan réttarsal og þær skrýtnu vitnaleiðslur sem þar fóru fram. Ég þekki marga sem hafa séð myndina en ekkert okkar veit hvort frönsk réttarhöld fara svona fram. Ég væri til í að vita meira vegna þess að ég þekki til hvernig svona er gert á Íslandi.

En ég get ekki lokið umsögn minni án þess að geta þýðingar og textafrágangs. Ég sá myndina með íslenskum texta Oddnýjar Sen. Sjálfsagt var þýðingin mestmegnis rétt, ég skil ekki frönsku þannig að ég er ekki til frásagnar þar, en einu sinni var always þýtt sem aldrei (eða öfugt, never þýtt sem alltaf) en bæði kommusetning og gæsalappir voru afleitar og hreinlega trufluðu lesturinn. Í beinni ræðu byrjaði hver einasti skjátexti á fremri gæsalöppum, rétt eins og fólk væri ekki að horfa á myndina eða ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það. Og hún afmarkaði allar aukasetningar með kommum sem er mælt gegn í ritreglum Árnastofnunar. Það truflaði mig en ég hafði lagt mikla áherslu á að fara á myndina þegar íslensk þýðing fylgdi frekar en enskur skjátexti. Næst mun ég hringja í Bíó Paradís og spyrja hver þýddi myndina sem mig langar að sjá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband