Meðvirkni með glæpum

Um helgina talaði ég lengi við suður-afrískan mann sem er búsettur á Íslandi. Hann hefur aðeins búið hér í tæpt ár og gat alls ekki haldið uppi samræðum á íslensku, sem von er, en hins vegar les hann ruv.is reglulega. Hann les ekki lengur fréttir frá heimalandinu enda hefur hann búið í bæði Hollandi og Bretlandi í mörg ár í millitíðinni og finnst allar fréttir frá Suður-Afríku snúast um ofbeldi og dauðsföll, oft hvort tveggja í sömu fréttinni.

Í Jóhannesarborg þar sem mér sýnast búa 4,4 milljónir eru 300 drepnir á dag. Ég trúi því auðvitað ekki - sakleysið uppmálað - en get ekki hrakið það. Yfir 100 þúsund á ársgrundvelli! Getur það verið? Ef satt, ef, hlýtur íbúafjöldinn að breytast stórlega á hverju ári. Hverjir flytja til borgar með þessa afbrotatíðni?

Stéttskipting er gríðarleg. Heilu hverfin eru girt af, hverfi þar sem efnaðra fólkið býr. Lögreglan treystir sér ekki inn í hverfin þar sem glæpatíðnin er mikil og ef hún flýgur fyrir ofan þau í þyrlum er hún svo langt uppi að byssukúlur drífa ekki.

Ég spyr: Hvernig getur fólk búið við þetta?

Það virðist ekki geta breytt þessu. Sjálfsagt vakna bara margir á hverjum morgni, fara í vinnu, sinna ýmsu, fara heim, sinna fleiru, sofna, sofa og vakna næsta morgun til hins sama. Það gerist í fleiri löndum að fólk lifir og deyr við aðstæður sem ég tel óásættanlegar. En ef internetið lýgur ekki er meðalaldur í Suður-Afríku rúm 56 ár. Það kemur ekki á óvart nema maður hefði kannski reiknað með lægri meðaldánaraldri í ljósi tíðindanna.

Fólk samlagast, merkilegt nokk. Er það ekki nákvæmlega það sem við höfum gert á Íslandi? Þótt morð séu sem betur fer fátíð og engir fregnir séu af mútum er hér ekki allt í koppalogni. Við erum bara dálítið sofandi.

Zzzz. 

En Suður-Afríkubúanum fannst frábært að lesa frétt á RÚV um fugl sem var fylgt yfir götu og þess beðið að hann kæmist í skjól. Það er eitthvað.


Bloggfærslur 7. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband