Mið-Ísland með puttann á púlsinum

Í gær var á Stöð 2 síðasti þátturinn af átta með Mið-Íslandi og ég sá hann fyrir tilviljun. Dóri DNA var svarthvítur og ég hélt að þátturinn væri gamall. Ókei, ekki samhengi þarna á milli, en Dóri VAR svarthvítur þótt umhverfið væri í lit og átti að endurspegla tíma Jóns Sigurðssonar og þess vegna hélt ég að þátturinn væri kannski þriggja ára. En ónei, Bergur Ebbi var veðurfréttamaður sem benti á hið augljósa, að vegna hraunflóðs væri bara byggilegt á örfáum stöðum á landinu og bráðum ekki lengur.

Og ég áttaði mig á því að ég hef verið fullkomlega andvaralaus gagnvart eldgosinu fyrir austan, hættunni sem af því gæti stafað, breytingunum sem það getur valdið til frambúðar og svo framtíðarhorfum sjálfrar mín og annarra íbúa landsins.

Það er ekki eins og hvergi sé talað um gos og mengun. Ég er í skokkhópi sem varpar fram þeirri spurningu af og til hvort vert sé að æfa úti vegna áhrifa á öndunarfæri. Og ég verð eitt risastórt spurningarmerki. Steinsofandi fyrir hættunum. Magnús Tumi er stundum í fréttunum og Kristján Már oft, lærðir veðurfréttamenn og netið - og allt - ég hef enga afsökun.

Kannski þarf bara listamenn til að hrista úr mér doðann. Og Mið-Ísland kann það sannarlega. 


Bloggfærslur 16. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband