Þegar mér er komið á óvart ...

Skemmtilegast í heimi finnst mér þegar mér er komið (skemmtilega) á óvart. Stundum geri ég það sjálf með því að geta eitthvað sem ég hélt að ég gæti ekki. Það er sossum frekar erfitt því að ég er í eðli mínu svo kokhraust að ég held að ég geti allt.

Dæmi um óvænt afrek eða önnur lífsins gæði gæti verið frábær frammistaða í hlaupi. Á laugardaginn ætla ég að hlaupa mitt sjötta 10 kílómetra hlaup (með tímamælingu) á árinu. Því miður er ég enn fullhæg en ef ég hlypi undir klukkutíma kæmi ég mér skemmtilega á óvart. Ég er nýbyrjuð að æfa (ómarkvisst).

Annað dæmi er ef mér tekst vel upp með nýja matseld. Vá, hvað það er gaman að dekra við bragðlaukana. Ég man enn þegar vinkona mín ein bauð mér upp á kulottesteg og sama vinkona kynnti mig fyrir engiferrótinni á sínum tíma. Í eina tíð kunni ég ekki að meta sushi en ég yfirvann það og nú finnst mér það herramannsmatur. Varð hissa einhvers staðar í ferlinu.

Nú nálgast jólin. Ég man þegar ein (nú fyrrverandi) vinkona mín hringdi í mig og sagði: Berglind, ég er að skrifa jólakortin og einmitt núna kortið til þín. Næsta kvöld hringdi hún líka og sagðist vera búin að póstleggja það. Og þú getur rétt ímyndað þér hvað hún sagði þriðja kvöldið.

Þetta var fyrir löngu síðan og við þekkjumst ekki lengur.

Jamm, og þessi hlýi, bjarti og notalegi nóvember kom sannarlega aftan að mér og gladdi mig óhemjumikið.

 


Bloggfærslur 26. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband