Dilla 1, dilla 2, dilla 3

Það er ljómandi gott að eldast og leyfa sér að skipta dillum út og dillum inn. Ein árátta eða tilhneiging hefur elst með mér, lestrarfýsnin. Samt hefur hún breyst, nú er það ekki bara skáldskapur sem ég les heldur ýmis fróðleikur og sumt hégómlegra. Þjóðmál höfða meira til mín en áður og svo hitt og þetta landfræðilegt. Margralandaflakk á ég samt eftir.

Ég var aldrei í íþróttum sem barn. Ég mætti vissulega í alla leikfimitíma og stökk yfir hestinn, hífði mig (stutt) upp eftir reipinu, fór handahlaup, blakaði og alls konar. En ég var ekki í fótbolta, handbolta, fimleikum, sundi eða neinu nema félagslega, fór með skólanum í skíðaferðir og svona það sem til féll. Íþróttaástundun var aldrei skipulögð og ég hafði ekki tiltakanlega mikinn áhuga.

Ég var aldrei skáti og það er líklega horfið í vindinn núna. Ég var samt um tíma í KFUK. Ekki það sama, nei? Nei.

Undir tvítugt fékk ég óskiljanlegan áhuga á skák og sótti mót og varð veðurteppt í Vestmannaeyjum. Það var gaman meðan það entist en ég varð enginn afreksmaður og missti áhugann.

Síðustu árin má engu muna að ég sé að verða útivistarnörd. Ég hef reyndar stundað sund áratugum saman en auðvitað ekki sem keppnismaður þótt „þjálfarinn“ minn hafi stefnt að því (leynilega). Og ég hef auðvitað verið með í skemmtiskokki Reykjavíkurmaraþonsins frá 1986 og aðeins misst úr örfá ár. Auðvitað. Og auðvitað án undirbúnings, skokkaði bara alltaf mína 7 eða 10 km einu sinni á ári. Nú er ég búin að kaupa carving-svigskíði og fara í skíðaferð til útlanda, nokkrum sinnum til Akureyrar og einu sinni á Siglufjörð. Ég er sírápandi á fjöll og nú er ég komin í skokkhóp sem æfir þrisvar í viku.

Ég sakna þess pínulítið að hafa ekki æft neitt sem krakki en samt finnst mér bilað hvað (sum) börn eru látin mæta á margar æfingar í hverri viku. Ég held að það sé of mikið kapp í sumum íþróttum barna af því að mér finnst að flestir eigi að vera í íþróttum til að stæla hug og hjarta, hafa gaman af hreyfingunni og félagsskapnum. Og yngstu flokkarnir eru látnir keppa blóðugt á laugardagskvöldum jafnvel eða fyrir upprisutíma á sunnudögum. #hrollur

Endar þetta ekki bara með letilegu New York-maraþoni hjá mér?


Bloggfærslur 11. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband