Ólæsinginn LANGTUM SKEMMTILEGRI en Gamlinginn

Ég þrælaði mér í gegnum Gamlingjann sem skreið út um gluggann og hvarf á sínum tíma. Ég ætlaði ekki að trúa því að hún gæti verið svona leiðinleg eftir allt þetta lof sem á hana hafði verið ausið. En hún batnaði aldrei.

Samt lét ég tilleiðast og fór að sjá hana í bíó og þótti myndin snöggtum skárri. Í myndinni tókst að tengja hin ólíku tímaskeið betur en í bókinni. Þótti mér.

Svo kom Ólæsinginn sem kunni að reikna eftir sama höfund. Ég sá hana á bókasafninu fyrir mánuði og ákvað að láta á reyna. Þótt ég segi ekki að Jonas Jonasson sé eða verði uppáhaldið mitt get ég alltént sagt að mér finnst honum takast langtum betur upp í þessari bók. Þótt mér finnist Nombeko ekki endilega trúverðug persóna og söguþráðurinn um sprengjuna, verkfræðinginn, undankomuna, sjálfskennsluna, fræga fólkið (aftur!), Holgerana, kónginn, kartöfluræktina, mótmælendurna og kvöldmáltíðina ekki mjög sannfærandi eru samt þarna snertifletir sem duga til góðrar skemmtunar. Nombeko er náttúrlega drifkrafturinn og sennilega ástæða þess að bókin gengur upp vegna þess að hún sprettur upp úr einhverjum ófrjóasta jarðvegi sem maður getur hugsað sér en blómstrar engu að síður á endanum.

Og þá dettur mér í hug Malala Yousafzai, öll hennar ótrúlega lífsreynsla og það sem hún hafði fram að færa 16 ÁRA GÖMUL í ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum. Hið ótrúlega gerist. Þess vegna er ég dús við Ólæsingjann. 


Bloggfærslur 13. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband