Óætlað samþykki > vantrú og vonbrigði

Skömmu eftir áramót dó ungur maður sviplega. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann sýnt mikla ábyrgð, velt fyrir sér dauðanum og gefið það út til sinna nánustu að ef eitthvað kæmi fyrir vildi hann láta nýta líffæri sín í þágu annarra.

Um þetta allt varð mikil umræða og foreldrar hans hafa sýnt einstakt æðruleysi. Meðal annars gleðjast þau, þrátt fyrir augljósa sorg, yfir að hann hafi getað lengt líf fimm annarra. Nú er velferðarnefnd búin að fjalla um frumvarp um ætlað samþykki og leggur ekki til að það verði samþykkt. Nefndin leggur sem sagt ekki til að við göngum út frá því að fólk vilji láta nýta líffærin úr sér ef svo vill verkast. Fólk gæti allt að einu valið að gerast ekki líffæragjafar samkvæmt frumvarpinu en nefndin leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og kemur sér þannig undan því að taka afstöðu.

Mér finnst þetta heldur aumingjalegt. 12 þingmenn úr öllum flokkum á þingi lögðu málið fram í október. Sjö þingmenn nefndarinnar afgreiddu málið með þessari niðurstöðu í gær. Þau segjast vilja fá meiri umræðu um málið, kynna það betur og hafa 29. janúar fyrir dag líffæragjafa. Þetta síðasta er tillaga frá móður unga mannsins.

Menn segja að góðir hlutir gerist hægt. Þetta mál hefur varla mjakast árum saman. Ætlað samþykki tekur ekkert frá þeim sem vilja ekki vera líffæragjafar en ætlað samþykki auðveldar fólki að verða líffæragjafar ef það vill gefa líffærum sínum framhaldslíf þótt annað deyi.

Þetta á ekki að vera feimnismál. Þetta verða menn að ræða opinskátt og taka svo þá réttu ákvörðun að bjarga mannslífum þegar svo ber undir.

Mér finnst þessi afgreiðsla heimóttarskapur og er fjarska döpur yfir þessu. Ef ég dey sviplega vil ég að líffærin mín nýtist öðrum og í veskinu er ég með 10 ára gamalt mjúkspjald frá landlæknisembættinu með skriflegum upplýsingum. Ég vildi hins vegar miklu frekar að þetta væri skráð í gagnagrunn og að enginn þyrfti að velkjast í vafa eða rýna í lúið spjald með máðu letri.


Bloggfærslur 9. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband