Fastagestur í strætó

Ég er í göngu- og hjólafæri við mestallt sem ég kæri mig um að sækja, sem sagt vinnu, aðföng og félagslíf. Stundum tek ég strætó og það kallar hverju sinni á mikla rannsóknarvinnu. Ég var búin að ímynda mér að fólk sem tæki strætó reglulega væri betur haldið, búið að læra á leiðirnar og tímasetningarnar.

Samstarfskona mín sem treystir á strætó hefur komið sveitt og öskureið í vinnuna þessa vikuna. Leiðinni hennar var fyrirvaralaust breytt og hún þurfti að láta fjögurra ára dóttur sína ganga nokkrar stöðvar til að komast á leikskóla einn daginn. Í dag lenti strætóbílstjórinn í sjálfheldu á Snorrabrautinni vegna framkvæmda sem hann fékk ekkert að vita um. Það endaði með því að samstarfskonan fór út úr vagninum, arkaði sinn veg og mætti 40 mínútum of seint, sveitt og dálítið gnafin.

Og rétt í þessu varð mér litið inn á fréttaveitu og las þar reynslusögur fólks sem ætlar að nýta sér strætó á lengri leiðum. Ég skil að í strjálbýlu landi er erfitt að halda úti fullkominni þjónustu en þjónustan eins og hún er núna fælir fólk frá. Strætó verður aldrei sjálfbær og það er ekki hægt að reka hann í þeirri trú að fargjöldin dekki allan kostnað. Kostnaðinum er mætt með því að slit á vegum verður minna, mengun líka, slysum gæti fækkað og ekki þarf að gera eins margar slaufur fyrir einkabílinn.

Almenningssamgöngur eru núna ekki raunverulegt val fyrir fullt af fólki og það er miður. 


Bloggfærslur 12. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband