Verkfallið sem var afturkallað

Þegar maður situr í öruggu skjóli getur maður trútt um talað. Ég er þeirrar almennu skoðunar að þegar stéttir hafi verkfallsrétt eigi þær að geta nýtt hann. Almannahagsmunir eru varla skyndihugmyndir eða töfraorð sem hægt er að draga út úr hillunni þegar einstök fyrirtæki sjá fram á minni hagnað eða algjört tap eftir atvikum.

Þetta segi ég úr skjólinu mínu. Ég tilheyrði ferðaþjónustunni í tylft ára en er hugsanlega hætt að starfa sem leiðsögumaður því að kjörin okkar bötnuðu aldrei. Eftir síðustu samninga er nú hæsti dagvinnutaxti kr. 1.572 og þá á maður hvorki orlof né veikindarétt.

Innanríkisráðherra sagði í flutningsræðu sinni í gær þegar hún mælti fyrir frumvarpi um að banna verkfall flugvirkja að hver dagur þýddi 900 milljóna króna tap:

... ferðaþjónustan hefur reiknað það út að á hverjum degi verkfallsaðgerða glatist um 900 millj. kr. sem hefði auðvitað áhrif á afkomu einstaklinga, fyrirtækja og samfélagsins alls.   

Ég hef ekki forsendur til að rengja þetta en mikið óskaplega vildi ég vita hvar þessi peningur birtist á venjulegum degi. Hvaða hálaunastéttir eru í ferðaþjónustunni? Ég skil að inni í þessari tölu eru tekjur sem Bónus, 10-11, kaffihús, veitingastaðir, bíó, Harpa o.fl. hafa af ferðamönnum eins og öðru fólki -- en áherslan er alltaf á tapið sem verður ef eitthvað fer öðruvísi en best og við vitum aldrei hvar stóru tekjurnar verða til á venjulegum/góðum degi.

Ég get lofað ykkur að 272.000 kr. mánaðarlaun leiðsögumanns taka ekki til sín stóran skerf af peningakökunni. Er tjónið svona óskaplegt og almennt?


Bloggfærslur 19. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband