Áramótaskaup 2014 - ,,beint á biðlista"

Ég get ekki tjáð mig um áramótaskaupið fyrr en rykið hefur aðeins sest. Fyrstu viðbrögð voru vissulega skýr, skaupið var leiðinlegt. Ég flissaði nokkrum sinnum af einbeittum gleðskapsvilja, t.d. að áburðarverksmiðjunni, en mér fannst vanta húmorinn í skaupið. Það var eins og fréttaskýring, auðvitað uppfull af skoðunum, en ekkert skilið eftir fyrir ímyndunaraflið. Það var ekki einu sinni sérlega vel leikið, Helga Braga var eins og hún er alltaf, Edda og Laddi endurléku gamla góða full-undir-stýri-brandarann eins og þau væru á fyrstu æfingu - og, jú, nú þegar ég er búin að skrifa mig heita get ég sagt að Þorsteinn Bachmann ER góður leikari. Vatnsfötuáskorunin sem hann tók sem læknir (og var spiluð í Kastljósinu í fyrrakvöld) var samt svo ófyndin. Matarskatturinn - barnið neytt til að borða sælgæti af því að það er ódýrara en ananasinn sem fjármálaráðherra gat leyft sér. Fyndið? Samfélagsmiðlarnir - fjórar manneskjur sitja saman í herbergi og talast við í gegnum Facebook og sms. Fyndið? Endurgerð viðtals Gísla Marteins við forsætisráðherra. Fyndið?

Það er svo sem aldrei hægt að rökstyðja til fulls hvað manni finnst fyndið og af hverju en getur ekki verið að allt hafi verið sagt og ekkert skilið eftir til túlkunar? Í mínum augum er „beint á biðlista“ smellur skaupsins. Ég er hvergi geirnegld í pólitík þannig að það hefur engin áhrif á skoðun mína á fyndni.

Vandi höfunda skaupsins á hverju ári núna er auðvitað endalaus samkeppni við krufningu mála frá degi til dags, fjölmiðlun allra sem hafa stofnað Facebook-síðu og kannski alvarleiki samfélagsins um þessar mundir. Ég hélt að skaupið yrði óvenjufyndið að þessu sinni af því að af svo mörgu væri að taka. Samt veit ég af reynslu að við vitum ekki líftíma skaupsins fyrr en að lengri tíma liðnum. Munum við á næstu árum rifja upp tök Kötlu Margrétar á spurningahríð Hönnu Birnu? Skiptir máli að konur voru alls ráðandi í upphafsatriðinu? 

Hvað vantaði? Bílavandræði framkvæmdastjóra Strætós? Hið blauta sumar? Maura og myglu á Landspítalanum? Hvað það tók langan tíma að ráða nýjan þjóðleikhússtjóra? Eigendaskipti á DV? Kosningasigur xD í Vestmannaeyjum? Útópíu (spjallþátt) Víkings Heiðars?

Nei, Kenneth Máni í Kryddsíldinni hélt uppi fjölmiðlastuðinu þessi áramótin. Kalt mat.


Bloggfærslur 1. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband