Also sprach Eiríkur á degi íslenskrar tungu

Ég man þegar opinber starfsmaður, man hvar hann vann en ekki hvað hann heitir, fór hamförum í hruninu og elti uppi fólk sem gagnrýndi ríkjandi stjórnvöld og talaði „vitlausa“ íslensku. Ég man hvernig ég upplifði þennan eltingarleik hans við fólk sem hafði lítið vald á tungumálinu en samt vald á hugsun sinni og var ósammála honum. Hann niðurlægði fólk. Kannski lærðist mér þá helst að aðgát skal ævinlega höfð í nærveru sálar. Ég man nefnilega að þegar ég var unglingur leiðrétti ég málfar fólks. Sjálfsagt hafði ég einhvern tímann rangt fyrir mér en ég hef alltaf haft góða málkennd, las mikið sem barn og var afar gagnrýnin ef fólk talaði „vitlaust“. Ég er hins vegar guðsblessunarlega hætt að tuldra ofan í hálsmálíð á mér þótt fólk segi „málvillu“. Ég reyni að hlusta á það sem fólk vill segja mér en vinn síðan við að leiðrétta málfar fólks sem biður um það.

Auðvitað er sumt vitlaust og öllum ber saman um það. Þótt við segjum réttilega að fundir geti verið langir segjum við ekki að *hundir séu langir. Samt er eintalan af hundum hundur eins og eintalan af fundum er fundur. Ég tala við þig og það er vitlaust að ætla að tala við *þér. Ég *dettaði ekki og *ráddi ekki heldur. Allt fólk nema börn á máltökualdri og útlendingar segir þetta rétt.

Hins vegar er aragrúi matsatriða sem fólk er ekki á einu máli um. Hvort talar maður um að rústa íbúðina eða íbúðinni? Samkvæmt orðabók er þolfallið réttara og kennarinn minn í háskólanum sagði að fólk undir fimmtugu talað um að rústa einhverju en fólk yfir fimmtugu rústaði eitthvað. Það var fyrir þremur árum þannig að nú hlýtur það að miðast við 53 ára og eldri ...

Í dag er dagur íslenskrar tungu og Jónasar Hallgrímssonar og þá vekst allt svona upp. Ég las stutt viðtal við annan gamlan kennara úr háskólanum sem segist aðhyllast reiðareksstefnuna, að vera ekki of ferkantaður í tungumálinu þannig að fólki sé ekki gert erfitt fyrir að tjá sig þótt það tali ekki 100% mál (hver gerir það svo sem?) heldur þvert á móti hvatt til þess. Tungumálið breytist, og er það ekki hafið yfir vafa að málbreytingar byrji almennt sem málvillur? Ég er samt ekki búin að samþykkja málbreytingarnar um *einhverjar 5 milljónir, *hundruðir þúsunda, að ég *sé ekki skilja eitthvað eða að fólk spái í *einhverju. Mér er enn tamt að tala um að menn tali hvor við annan og að þeir hafi setið hvor sínum megin við borðið en rökréttar „villur“ munu ryðja hinu á brott einn daginn. Ég hlakka enn til sumarsins og mig langar enn í ipad en eftir 40 ár mun ég sennilega tilheyra þeim 10% sem enn hlakka til í nefnifalli og langar í þolfalli og þá telst ég tala rangt mál. Svona er það. Hins vegar á maður að spyrna við fótum og halda áfram að vanda sig. Þótt málbreytingar séu ekki óæskilegar tel ég stökkbreytingar vera það.


Bloggfærslur 16. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband