Fimm skyndiráð um ritun - danskur rithöfundur

Ég er að lesa nýjustu bókina eftir Jussi Adler-Olsen á dönsku. Það er heldur meiri áreynsla en að lesa þýðinguna enda reikna ég með að eitthvað fari fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Ef ég væri með skothelda orðabók og nennti að fletta upp öllum vafaorðum skildi ég vitaskuld meira en þá yrði ég svo sein með bókina (og hún er af bókasafninu þar að auki) þannig að ég læt mér duga að halda þræði og rúmlega það.

En rétt í þessu datt ég inn á smápistil í Berlingske tidende. Rithöfundur gefur fimm hraðsoðin ráð um hvernig maður (Danir) getur orðið betri í --- nei, hvernig maður getur forðast „sprogspasseriet“. Og þar stendur nú hnífurinn í kúnni. Orðið er ekki í Snörunni minni, google-leit hjálpar ekki og google translate ekki heldur. Ég held að orðið hljóti að vera sprog-spasserie, eða er það kannski sprogs-passeri? Ráðin sjálf eru auðskiljanleg í öllu tilliti, kannski dálítið mikið sjálfgefin: maður á að hugsa um það sem maður ætlar að skrifa, fletta upp í orðabókum, lesa það sem aðrir skrifa (og gá sérstaklega að villunum án þess að reka þær framan í þann sem skrifar), æfa stutta texta á Twitter og lesa prófarkalesna texta, s.s. dagblöð og bækur.

Ég VERÐ auðvitað að gera tvær athugasemdir. Ég finn ekki sprogspasseriet í orðabók eða appi (sem er auðvitað bara leiðin að orðabókinni) og því miður eru dagblöð og vefmiðlar á Íslandi ekki yfirlesin af nægilega mikilli alúð enda tíminn of knappur, að því er virðist.

Samt er nú gaman að þessu ...


Bloggfærslur 8. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband