Næstfallegasti maður í heimi

Nú á ég nýja uppáhaldsbíómynd. Hún er svakalega hversdagsleg og að sumu leyti fyrirsegjanleg - en samt ekki. Hún er um þessi hefðbundnu sannindi að maður verður að lifa hvern dag eins og hann sé einstakur. Það þarf ekki að vera leiðinlegt að taka til morgunmatinn, mæta í vinnuna, borga skatta og ferðast í rigningu. Maður hefur val um að gera gott úr því. Að vísu myndi ekki skaða að geta bakkað og leiðrétt mistökin annað slagið, en í aðalatriðum hefur maður val um að vera í góðu eða vondu skapi og vinna „skylduverk“ með góðu eða illu.

Og ég uppgötvaði frábæran írskan leikara sem ég veit ekkert hvernig á að bera fram nafnið á, Domhnall Gleeson. Hann er svipbrigðaríkur og svo lék hann hlutverk gæfusama mannsins sem áttar sig á ríkidæmi sínu. Rachel McAdams var heldur ekkert slæmur mótleikari. Að ógleymdum Bill Nighy sem mér hefur löngum þótt frábær. Bresk gæði í fyrirrúmi.

Hingað til hefur Nothing to Lose verið í uppáhaldi og Once Were Warriors, ólíkar myndir en báðar þeim eiginleikum gæddar að koma mér á óvart. Og það gerði About Time svo sannarlega og það er með því skemmtilegasta sem ég upplifi. Og hinn undurfríði Domhnall spillti engu þegar hann brosti.


Bloggfærslur 17. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband