Ákefð og ástríða Árnastofnunar

Í morgun var árviss ársfundur Árnastofnunar. Að vanda ávörpuðu fundinn formaður stjórnar og forstöðumaður. Ég man ekki hvenær Þorsteinn Pálsson tók við formennskunni en Guðrún Nordal er búin að vera þarna í nokkuð mörg ár og geislar ævinlega af áhuga og metnaði. Það einkenndi þau bæði núna líka.

Það er vilji til að bretta upp ermar en áformum og góðum hug verður líka að fylgja fé. Ég kýs að trúa að hola íslenskra fræða verði orðin full af handritum 2018.

Svo voru nokkrir stuttir fyrirlestrar um íðorðanefndir, stöðu tungumálsins í tölvuheiminum, þýðingar og máltækni. Tæknin var til fyrirmyndar - já, mér finnst ástæða til að taka það fram - þannig að enginn dýrmætur tími fór í bið. Hver frábæri fyrirlesarinn á fætur öðrum kom í réttri röð í pontu og þau öll - öll, ítreka það - höfðu mikið fram að færa, ekki allt alveg glænýtt fyrir áhugasama en sannarlega forvitnilegt og uppörvandi.

Þessir ársfundir eru mitt helsta haldreipi þegar ég fæ efasemdir um að íslenskan lifi tölvuöldina af. Í maí er ég aldrei efins.

Ekki bíll. Nei, talgreinir!

Það er undurgaman að heyra fólk tala af áhuga, umhyggju og ástríðu um vinnuna sína. Áhugi er svo mikill hvati. Er það forstöðumaðurinn?


Kröfugerð í prósentum er út í hött

Nú er búið að vísa kjaraviðræðum Félags leiðsögumanna við viðsemjendur, Samtök atvinnulífsins, til ríkissáttasemjara. Ég hef verið í þessum sporum og ég veit satt að segja ekki hvað þarf til að opna augu ferðaskrifstofa.

Það er ætlast til þess að leiðsögumenn viti margt, geti komið því frá sér á erlendu tungumáli, stundum tungumálum, umgangist náttúruna af varúð og leiðbeint misgæfusömum túristunum, séu ávallt í góðu skapi, séu löngum stundum að heiman og taki sér launalaust frí til að fara til læknis. Atvinnuöryggið er ekkert, réttindi sáralítil og fyrir heilan mánuð af svona starfskrafti eru núna borguð 270.000 í efsta flokki samkvæmt taxta. Við leiðsögumenn vitum mætavel að taxtarnir eru bara gólfið, við megum semja um hærri laun, en stóru ferðaskrifstofurnar vilja ekki borga meira.

Og vitið þið hvað?

Þær segjast hafa gert ráð fyrir þessum (lágu) launum í tilboði til erlendu kúnnanna og að hækkun á launum setji skipulagið á hliðina - en ef samið verði um hærri laun hækki þau auðvitað til okkar. Ha, er þá allt í einu svigrúm?

Í fyrra var samið um skitin 3% með bókun um að mun meiri launakrafa yrði gerð í ár. Ég held að fyrirtæki sem ekki geta hækkað laun leiðsögumanns talsvert séu einfaldlega illa rekin.

270.000 * 50% = 405.000 og þá er samt ekki gert ráð fyrir orlofi, veikindarétti eða starfsöryggi. Ég er kannski heppin að þurfa ekki að vinna við þetta og líka heppin að hafa unnið fyrir þessu skítakaupi í nokkur sumur meðan ég hafði gaman af starfinu. En þessi laun eru ekki boðleg og ég vona að stéttvitundin verði meiri og leiðsögumenn láti hart mæta hörðu. Sjálf er ég búin að vera í eins manns verkfalli í tæp tvö ár.


Bloggfærslur 20. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband