Nei við reiðhjólahjálmi

Því miður finnst mér Hjólað í vinnuna orðið dálítið staðið verkefni. Ég heyrði viðtal við verkefnisstjóra í útvarpinu í gær sem sagði að fjöldi þátttakenda hefði stigið stöðugt fyrstu árin, væri nú komið í kyrrstöðu þegar það væri búið að vera svona lengi í gangi, frá árinu 2003, en vonandi næðist áfram 10.000 manna þátttaka. Ég fer mjög mikið fyrir eigin vélarafli þannig að átakið hefur aldrei haft nein áhrif á raunþátttöku mína, bara skráninguna. Og nú nenni ég ekki lengur að skrá mig þótt ég sé á 100 manna vinnustað og við séum hvött til þess að „vera með“. Ég hjóla í vinnu og ég hjóla úr vinnu. Það þýðir tvær skráningar í verkefninu. Ég veit ekki hvernig það er núna en maður þurfti að minnsta kosti alltaf að velja upp á nýtt ef maður fór ekki hjólandi, síðasta val kom ekki sjálfkrafa upp, og maður var beðinn um veðurlýsinguna - en hún átti að vera sú sama fyrir báðar ferðir. Instagram getur kannski bjargað einhverju í ár en annars er blessað verkefnið alveg að geispa golunni.

Nóg um það.

Ég las viðtal við Gísla Martein í gær um notkun hjálma. Eða ekki. Það er útbreiddur misskilningur að maður þverskallist við að nota reiðhjólahjálm af því að það sé ekki kúl, að það hafi með útlit að gera. Það er ekki málið. Mér hefur alltaf þótt óþægilegt að vera með húfu, mér finnst óþægilegt að vera með annað en kannski úlpuhettuna á hausnum. Þegar ég fer ofan í hella er ég samt með hjálm af því að þá er það raunverulegt öryggisatriði. Þegar ég hjóla eftir stígum eða í rólegum hliðargötum er ég ekki í meiri hættu en gangandi vegfarandi. Ef fleiri hjóluðu að staðaldri en nú er væru færri bílar á götunum en þessi eilífa krafa sumra um að maður hjóli með hjálm fælir of marga frá reglulegum hjólreiðum og eykur þar með slysahættu ef eitthvað er.

Ég segi eins og píratinn: Að auki legg ég til að fólk hætti að amast við hjálmlausu hjólandi fólki (hann er að vísu með annan baráttutón í lok hverrar ræðu).


Bloggfærslur 7. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband