Ferðamönnum á Íslandi fjölgar en fækkar ekki

Ég fór á forvitnilegan fund um ferðaþjónustuna í morgun. Við höfum séð mikla aukningu í greininni undanfarin ár, landshlutabundna að vísu, en heilt yfir verulega aukningu. Hótelherbergjum fjölgar í Reykjavík og nýtingin er líka góð. Fyrir norðan og austan fækkar herbergjum en nýtingin eykst samt ekki. Hvað veldur? Markaðssetning er svarið mitt. Fólk þarf að vita að það er gríðarlega margt spennandi í öðrum landshlutum. En það kemur örugglega.

Ég tók meðal annars þessa mynd af einni glærunni.

1,5 milljón 2016?

Síðasta ár sleikti 1 milljón ferðamanna og nú ákveður bankinn að spá svolítið hraustlega af því að hann var undir spánni síðast. Atvinnuástandið batnar hér á landi en samt erum við ekki komin í neikvætt atvinnuleysi eins og fyrir hrun. Spár herma líka að við þurfum að flytja inn fólk til að vinna störf í ferðaþjónustu, fólk sem hefur fyrir vikið ekki sérþekkingu á Íslandi, er ekki alið hér upp við veður, menningu, náttúru, mat og tungumál.

Af hverju stöndum við í þessum sporum?

Svarið er einfalt og ALLIR vita það: Launin eru of lág.

Um leið og hótelstarfsfólk, leiðsögumenn og bílstjórar semja um laun sem hægt er að lifa af verður hægt að manna öll þessi störf á einu augabragði með menntuðum heimamönnum.

Ferðaþjónusta er þess eðlis að maður má aldrei eiga vondan dag. Ég er menntaður leiðsögumaður og met það svo að ég verði alltaf að sýna ferðamönnunum mína bestu hlið. Ég má ekki vera illa fyrirkölluð á nokkurn hátt því að ferðamaðurinn er búinn að safna lengi fyrir ferðinni sinni og á ekkert annað skilið en bestu hlið allra alltaf. Í ýmsum öðrum störfum þar sem maður hittir sama fólkið dag eftir dag leyfist manni frekar að vera önugur af og til.

Eruð þið ekki sammála þessari greiningu? Hún er alveg ókeypis.


Bloggfærslur 29. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband