Ekki þyrði ég í forsetaframboð

Að vísu finnst mér ég ekki eiga neitt erindi á Bessastaði og held helst að ég vildi leggja embættið niður en mér blöskrar hvað fólk er sumt orðljótt í garð þess hugrakka fólks sem stígur fram og gefur kost á sér til embættis forseta. Ég geri ráð fyrir að 80-90% frambjóðenda, sem eru í þessum rituðu orðum 12 eða 13 talsins, fái sárafá atkvæði og kannski gera sumir sér engar vonir um hagstæð úrslit en það fólk sem lætur slag standa fær þvílíku útreiðina sums staðar að ég verð hálfu ákveðnari í að verja lýðræðislegan rétt fólks til að bjóða sig fram.

Að vísu (ég endurtek að ég held að hægt væri að koma verkefnum forseta fyrir annars staðar) finnst mér að þegar frambjóðendur eru svona margir ættu umferðir að vera minnst tvær. Tilhugsunin um forseta með 10% atkvæðamagn á bak við sig er mér ekki alveg þóknanleg. Vigdís fékk 33,8% árið 1980, 43.611 atkvæði, og þótti reyndar lítið en samt varð hún forseti mestallrar þjóðarinnar - og sannarlega forsetinn minn þótt ég hefði ekki kosið hana ef ég hefði mátt kjósa. Æ síðan hefur mér þótt það ljóður á ráði mínu að ég skyldi vilja Guðlaug Þorvaldsson því að Vigdís var frábær kostur.

Tölum upp þá frambjóðendur sem eru okkur að skapi, ef einhver, en látum ógert að tala lýðræðið niður. Að svo mæltu sest ég niður og byrja að bíða eftir að Andri Snær tilkynni framboð sitt.


Bloggfærslur 22. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband