Af hverju ég vil ekki hafa Ólaf Ragnar lengur á Bessastöðum

Dómsdagur! Ég vakna í Reykjavík um miðjan apríl í snjókomu. Táknrænt! Djók.

En nú að forseta Íslands:

Hann er búinn að vera í 20 ár og heldur að hann sé ómissandi.

Hann er ímynd gamals tíma og fulltrúi valdablokka.

Hann er of afskiptasamur og athyglisfrekur.

Ég er bandsjóðandi viss um að hann gengur annarlegra erinda.

Fólki er hollt að skipta um skoðun ef rök hníga að því en Ólafur Ragnar hefur of oft haft flokkaskipti, klappað upp útrásarvíkinga, talað þá niður, látið umskrifa kafla í bók um sig og almennt snúist eins og hani í vindstrekkingi þegar hann talar um „fólkið í landinu“. Við höfum ekki getað reiknað út, t.d. eftir stjórnarskránni, hvenær hann muni synja lögum staðfestingar.

Ég vil breyta kvótakerfinu. Ef það væri eitthvað eitt sem ég mætti breyta á Íslandi á stundinni myndi ég banna framsal á óveiddum fiski milli landshluta. Ný stjórnarskrá gæti tekið á þessu og ég treysti ekki núverandi bónda á Bessastöðum til að ryðja henni farveg. 

Í valdamesta embætti í heimi situr maður í mesta lagi tvö kjörtímabil, átta ár. Þess vegna standa alvöruforsetakosningar fyrir dyrum í Bandaríkjunum. Þegar Ólafur bauð sig fyrst fram, 1996, fannst honum hæfilegt að vera tvö til þrjú kjörtímabil. Til 2004, í mesta lagi 2008.

Ég er flokkspólitískt óvissuatkvæði í þingkosningum og ég bið ókunnuga lesendur mína að vera ekki að spyrða mig við einhvern flokk þótt ég lýsi mig ósátta við framboð Ólafs í sjötta sinn. Árið 1996 vildi ég engan frambjóðanda sem var í boði af því að þau voru öll tengd einhverjum stjórnmálaflokki. Ef við ætlum að hafa forseta yfir landinu vil ég að hann sé ópólitískur - og til vara vil ég að við tökum sameiginlega ákvörðun um það í landinu að embættið sé pólitískt.

Ég man hvernig Ólafur nötraði og skalf í beinu útsendingunni í júní 2004 þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Þá var hann samt búinn að vera forseti í átta ár, þar á undan á þingi og ráðherra og þar á undan háskólakennari og tíður gestur í sjónvarpi. En embættið á ekki að snúast um að standa uppi í hárinu á ríkisstjórninni hverju sinni.

Svo virðist sem ég sé í mótsögn við sjálfa mig, að ég vilji annars vegar áferðarfallega silkihúfu á Bessastöðum og hins vegar mann sem beiti sér í deilumálum. Ég á dálítið erfitt með að sjá út vegna þess að Ólafur stendur alltaf í gættinni og byrgir mér sýn. Ég hefði viljað að næsti forseti hefði þjóðina meira með sér og ynni með sem flestum en ekki á móti. 

Ég á eitt atkvæði og ég greiði það ekki núverandi forseta.


Bloggfærslur 19. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband