Söguskýring þorskastríðanna

Ég lifði ekki fyrstu þorskastríðin og man ekki það síðasta. Allt sem ég „veit“ um þorskastríðin er það sem ég hef lesið og heyrt. Það er ekki endilega ómarktækara en að vera í hringiðunni og sjá ekki út úr hasarnum. Margt í heiminum er matskennt, þar á meðal hver vann og hver tapaði. Í áróðursstríði og tilfinningastríði er ekki hægt að sjá kónginn felldan eins og í skák. Eftir kosningar segjast flestir flokkar vera sigurvegarar af því að þeir túlka niðurstöðuna sér í hag. Það að auka fylgi sitt úr 10% í 20% er kannski meiri kosningasigur en að fá 35% ef flokkurinn var með 36% síðast og mældist 40% í síðustu könnun.

Sigur er ekki einhlítur.

Það sem mér hefur skilist með þorskastríðin er að svo sannarlega tóku Íslendingar hraustlega á móti Bretum. Klippurnar frægu munu ekki gleymast. Við færðum landhelgina út í 200 mílur á endanum (eins og var gert víðar). Við erum öll sammála um að fiskveiðar voru mikilvægur atvinnuvegur hér, sá mikilvægasti. Við þurftum að verja miðin. Við gerðum það. En Bretar hefðu getað sallað okkur niður, vopnlausa smáþjóð, ef þeim hefði ekki verið annt um orðsporið. Þess vegna sömdu þeir við okkur. Sjómenn í Hull, Grimsby og Aberdeen voru ekkert of lukkulegir. En þannig endaði síðasta þorskastríðið 1976.

Það er engin skömm að því að semja. Auðvitað er frábært að semja og standa sáttur upp frá samningaborðinu. Að segjast hafa unnið þorskastríðið einhliða finnst mér eins og að segjast hafa náð að bjarga hjónabandinu með því að henda makanum út.


Bloggfærslur 19. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband