Má vinna fyrir tvo í einu?

Vinkona mín ein sem réð sig í spennandi starf hjá hálfopinberu fyrirtæki skrifaði undir ráðningarsamning sem í stóð að hún mætti ekki vinna fyrir aðra. Þegar ég frétti það spurði ég hvort hún væri þá ekki með mjög góð laun. Jú, líklega væri hún það, var svarið, og svo ræddum við aðeins um þá kröfu að mega ekki vinna fyrir aðra. Önnur vinkona sagði: Af hverju ætti hún að hafa orku á kvöldin til að vinna meira frekar en við hin?

Ókei, hér byrja ég að spyrja: Má almennt skikka fólk til að vinna ekki aukavinnu eða á það bara við um sérfræðistörf? Snýst það um hagsmunaárekstra, að í „hinni vinnunni“ búi maður yfir upplýsingum sem mega ekki spyrjast út? Snýst þetta kannski um þann plagsið sumra að vinna aukavinnuna í vinnutímanum hjá aðalvinnuveitandanum?

Einhver sagði nefnilega við borðið þar sem þetta var rætt að hún þekkti einhvern sem kæmi aldrei svo inn til deildarstjórans síns að ekki væru skjöl á skjánum sem tengdust einkafyrirtæki deildarstjórans. 

Ég er launþegi, þ.e. starfsmaður á plani, ánægð í vinnunni og með skemmtileg verkefni, hef aldrei rekið fyrirtæki og eiginlega aldrei verið með mannaforráð, en ég spyr: Á yfirmaður ekki að geta a) ætlast til þess að fólk sinni vinnunni í vinnutímanum (auðvitað með eðlilegri hvíld), b) fylgst eitthvað með því hvað gengur undan starfsmanninum?

Ég vinn stundum aukavinnu á kvöldin, um helgar og í sumarfríinu. Minna núna en áður en ég hef oft gert skemmtilega hluti sem fólk borgar mér fyrir. Fullt af fólki verður að drýgja tekjurnar með aukavinnu.

Niðurstaðan er þá væntanlega sú að svona klausa í samningi eigi að tryggja fulla afkastagetu (eftir föngum) fólks í vinnutímanum. En er einhver munur á því að fólk vinni fyrir aðra í vinnutímanum eða eyði að jafnaði klukkutíma á dag í að skoða og læka á Facebook?

Ég er mjög hugsi yfir aukavinnubanninu. Láglaunafólk væri væntanlega himinsælt með aukavinnubann -- ef grunnlaunin væru hærri.


Bloggfærslur 10. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband