Má breyta nöfnunum?

Við höfum löngum haft skoðanir á mannanöfnum og þó fyrst og fremst þó ákvörðunum mannanafnanefndar

Nú er búið að kynna drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Í 7. gr. stendur meðal annars:

Eiginnöfn skulu vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis.

Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum má sem sagt láta barn heita Þúfa, Skrúfa, Hóll, Stóll, Þak og Brak. Þau mega ekki heita þúfa, hóll og þak og heldur ekki Skrúfan, Stóllinn og Brakið enda dytti engu heilvita fólki í hug að skíra svona nöfnum. Sjálfsagt verður þetta allt í lagi. Blak Briem, ha?

Í athugasemdum stendur meðal annars:

... að öðru leyti falla úr lögum þær takmarkanir sem nú eru á mannanöfnum. Þar á meðal eru takmarkanir á fjölda nafna, vernd ættarnafna, skilyrði um að kenninöfn séu föður- eða móðurnöfn eða ættarnöfn og takmarkanir á heimild til að bera erlend nöfn.

Nafn manns er einhver persónulegasta eignin og mér dytti sjálfri aldrei í hug að breyta mínu. Ég var óhress með að heita Berglind á unglingsárunum en sú óánægja eltist af mér. Ég geri ráð fyrir að ef ég hefði alist upp sem Zoëga, Thorlacius, Stones, Hirst eða Schram væri mér það kært en annars skil ég ekki ættarnafnablætið sem ég heyri fólk tala um. 

Ég hef heyrt því fleygt að það gæti verið vit í því að hafa kenninöfnin -son og -dóttir ókeypis (tíðkast víst sums staðar að hafa sumar útgáfur nafna ókeypis og aðrar ekki) en láta borga fyrir ættarnöfnin. Það hljómar afleitlega í mínum eyrum. Í fyrsta lagi myndi það líta út eins og ég hefði ekki efni á að heita Berglind Vágar, Berglind Bertelsen eða Berglind Dan eða, enn verra, að ég tímdi því ekki! Orðsporsáhætta. Og hvernig ætti að verðleggja nafnið? Árgjald? Skráningargjald? 10.000 kr. breytingagjald? 50.000 fyrir stóra fjölskyldu? 10.000 kr. á ári kannski? 1 milljón? 10 milljónir fyrir vinsælt nafn? 10 milljónir fyrir lítið notað ættarnafn?

Ég held að ég sé ekki sérlega íhaldssöm en ég er hrifin af mannanafnafyrirkomulaginu okkar, segi útlendingum iðulega frá því og þeim finnst allajafna mikið til koma.

Ég veðja á að þegar málið verður tekið fyrir í þinginu verði löng umræða utan og innan þings.


Bloggfærslur 17. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband