Fjármálalegir ráðgjafar?

Ég hef mikinn áhuga á tungumálinu og vinn við að færa tungutak annarra til betri vegar. Það kann að hljóma hrokafullt en margir eru óöruggir þegar þeir skrifa texta og vilja láta aðra lesa yfir fyrir sig. Fólk er stundum drekkhlaðið af þekkingu en getur ekki miðlað henni og þá er gott að fá ráðgjafa til að straumlínulaga efnið með sér og síðan prófarkalesara til að lesa yfir, samræma og leiðrétta það sem telst rangt. Af þessu tilefni er skemmtilegt að rifja upp að menntamálaráðuneytið gaf nýlega út nýja auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna sem ég tel mér skylt að fara eftir að mestu leyti.

Ég hef líka lært eitthvað um þýðingar. Hvað mikilvægast við þýðingar er að vera vel að sér í tungumálinu sem maður þýðir á. Auðvitað þarf maður að kunna tungumálið sem maður þýðir úr en það er hvergi nærri nóg. Ef ég ætlaði að þýða „former President Finnbogadottir“ dytti mér ekki í hug að skrifa „forseti Finnbogadóttir“ eða „Finnbogadóttir forseti“. Ég held að þið hljótið að taka undir með mér að maður myndi segja: (Frú) Vigdís Finnbogadóttir. Þannig fer ekki á milli mála um hvern er rætt.

Þess vegna leyfi ég mér að smygla mér inn í kórinn með þeim sem hafa undrast málfar á einkavæðingarskýrslunni sem mjög hefur verið rædd í vikunni. Sumt af fjármálatæknilegu orðalaginu virkar vissulega sannfærandi en hér er rangt farið með raðtölur:

5–6. bls.

Lokaorðin trufla mig þó mest, lokaorðin sem eru höfð eftir löggiltum skjalaþýðendum eins og þar segir:

Hr. Árnason sagði það mikilvægt að viðhalda öguðum viðræðum við kröfuhafana. ... Samningaviðræðurnar eru hinsvegar, tvíhliða milli ríkisins og fjármálalegra ráðgjafa gömlu bankanna. 

Financial advisors eru víðast þar sem ég fletti upp annars staðar fjármálaráðgjafar. 

En kannski er ég bara í baunatalningu ...


Bloggfærslur 15. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband