Hverjar eru kröfurnar?

Eðli verkfalla er að láta finna fyrir sér. Ef verkfall bitnar ekki á neinum er ekkert bit í því, það gefur augaleið. Á þingi er í þessum skrifuðu orðum rædd lagasetning vegna verkfalls undirmanna á Herjólfi sem hefur ekki siglt á kvöldin og um helgar. Ferð bæjarstjóra Vestmannaeyja vegna eins fundar í samgöngunefnd þingsins hefur staðið í fjóra daga vegna lítillar ferðatíðni.

Auðvitað hef ég samúð með íbúum Vestmannaeyja og öðrum þeim sem þyrftu að komast til og frá. En flogið hefur fyrir að kröfurnar séu 40% hærri laun eða 40% ofan á eitthvað. Og menn sveia úr því að laun annars staðar hafa verið hækkuð um 2,8%.

Meðal annars er farið fram á átta stunda dagvinnu í stað níu og hækkun yfirvinnuálags sem nemur nú 33%. 

Ég hélt að það væri ófrávíkjanlegt að dagvinna væri metin átta stundir. Ég lenti að vísu einu sinni í því að ferðaskrifstofa ætlaði að borga mér 10 tíma dagvinnu á dag en ekki yfirvinnu í tvo tíma. Það kostaði bara eitt símtal að leiðrétta það en ég þurfti að halda vöku minni.  

Aftur í prósentuna. 40% af engu eru áfram ekkert. Ég veit ekki hver launin eru af því að allar kjaraviðræður eru svo mikið leyndó og allir talsmenn virka á mig eins og drottningin af Saba. Án gjafanna reyndar.

Menn vilja ekki spilla samningsstöðunni með því að ljóstra of miklu upp. Þess vegna tjái ég mig hér án þess að þekkja allar forsendur. En ég þekki mína eigin kjarabaráttu.

Ég er fyrrverandi leiðsögumaður, enn með félagsaðild, enn með fullt af orku og gleði, enn með einhvern tíma á sumrin til að sinna þessu starfi með öðru, en án vilja til að vinna fyrir 1.569 kr. á tímann í dagvinnu, án vilja til að vinna fyrir 272.000 kr. á mánuði ef ég ynni 173,33 dagvinnutíma. Ég veit að það er leikandi hægt að vinna sér inn hálfa milljón í júlí en þá er maður meira og minna að heiman, án réttinda af nokkru tagi, að mestu leyti án frítíma, jafnvel þótt maður sé ekki í vinnu af því að maður er úti á landi og bundinn af hópnum  og á samt ekki launað orlof.

Þótt ég sætti mig við 40% hærri laun en kveðið var á um í síðustu kjarasamningum væri ég samt bara með 2.117 kr. á tímann í dagvinnu, þ.e. 367.000 á mánuði  og ætti áfram ekki veikindarétt og ekki launað orlof.

Ég er skeptísk á lagasetningu vegna löglega boðaðs verkfalls fólks í kjarabaráttu. Það á að semja við borðið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband