Óætlað samþykki > vantrú og vonbrigði

Skömmu eftir áramót dó ungur maður sviplega. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann sýnt mikla ábyrgð, velt fyrir sér dauðanum og gefið það út til sinna nánustu að ef eitthvað kæmi fyrir vildi hann láta nýta líffæri sín í þágu annarra.

Um þetta allt varð mikil umræða og foreldrar hans hafa sýnt einstakt æðruleysi. Meðal annars gleðjast þau, þrátt fyrir augljósa sorg, yfir að hann hafi getað lengt líf fimm annarra. Nú er velferðarnefnd búin að fjalla um frumvarp um ætlað samþykki og leggur ekki til að það verði samþykkt. Nefndin leggur sem sagt ekki til að við göngum út frá því að fólk vilji láta nýta líffærin úr sér ef svo vill verkast. Fólk gæti allt að einu valið að gerast ekki líffæragjafar samkvæmt frumvarpinu en nefndin leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og kemur sér þannig undan því að taka afstöðu.

Mér finnst þetta heldur aumingjalegt. 12 þingmenn úr öllum flokkum á þingi lögðu málið fram í október. Sjö þingmenn nefndarinnar afgreiddu málið með þessari niðurstöðu í gær. Þau segjast vilja fá meiri umræðu um málið, kynna það betur og hafa 29. janúar fyrir dag líffæragjafa. Þetta síðasta er tillaga frá móður unga mannsins.

Menn segja að góðir hlutir gerist hægt. Þetta mál hefur varla mjakast árum saman. Ætlað samþykki tekur ekkert frá þeim sem vilja ekki vera líffæragjafar en ætlað samþykki auðveldar fólki að verða líffæragjafar ef það vill gefa líffærum sínum framhaldslíf þótt annað deyi.

Þetta á ekki að vera feimnismál. Þetta verða menn að ræða opinskátt og taka svo þá réttu ákvörðun að bjarga mannslífum þegar svo ber undir.

Mér finnst þessi afgreiðsla heimóttarskapur og er fjarska döpur yfir þessu. Ef ég dey sviplega vil ég að líffærin mín nýtist öðrum og í veskinu er ég með 10 ára gamalt mjúkspjald frá landlæknisembættinu með skriflegum upplýsingum. Ég vildi hins vegar miklu frekar að þetta væri skráð í gagnagrunn og að enginn þyrfti að velkjast í vafa eða rýna í lúið spjald með máðu letri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Enn hvað ég er sammála þér , ég get ekki skilið þessa tregðu í fólki og hvað þá ráðamönnum þjóðarinnar,um eins mikilvægt mál og líffæragjöf er.

Ef ungt fólk er tilbúið að taka svona stóra ákvörðun og gefa svo stóra gjöf sem þessi ungi frændi minn gerði í vetur,þá finns mér það sýna  að það muni vera mikill meirihluti fólks sem er tilbúin að gerast líffæragjafi.

Þar fyrir utan getur fólk látið vita ef það vill það ekki og þá á að virða það.Höldum umræðunni vakandi og ræðum þettað við fólkið okkar og ég vil skora á alþingi að klára þettað mál á þessu þingi og að það verði skráð inn í ökuskýrtein okkar ef við viljum vera lífæragjafar og að 29.janúar verði gerður að degi lífæragjafa og vekjum athygli á málinu .

Rósa Skarphéðinsdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2014 kl. 13:41

2 identicon

Þakka þér fyrir þörf orð, Berglind. Það er bæði hörmulegt og ótrúlegt að foreldrar unga mannsins sem lést skulu vera þau einu sem berjast fyrir ætluðu samþykki. Í landinu eru starfandi ekki færri en fjögur félög sem hafa líffæraþega meðal félagsmanna sinna - Hjartaheill, Samtök lungnasjúklinga, Félag lifrarsjúkra og Félag nýrnasjúkra. Ekkert heyrist frá þessum félögum.

Jórunn Sörensen (IP-tala skráð) 9.4.2014 kl. 17:21

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég er ekki hagsmunaaðili (nema sem þjóðfélagsþegn) sem auðveldar mér kannski að hafa uppi stór orð.

Þakka ykkur báðum fyrir að taka undir með mér.

Berglind Steinsdóttir, 9.4.2014 kl. 19:06

4 identicon

Heyr, heyr!

Erla (IP-tala skráð) 9.4.2014 kl. 21:12

5 identicon

Þakka góða grein. Þetta hræðilega slys í vetur er og verður lengi ofarlega í hugum fólks þar sem ég bý, á Sauðárkróki og ekki að undra. Hitt verður líka lengi í huga okkar hvílika forsjálni og samfélagslega ábyrgð ungi maðurinn hafði sýnt með því að láta uppi vilja sinn í þessu efni. Fyrir bragðið er og verður ljómi yfir minningu hans. Við vonum því að almenningur í landinu bæði ræði þessi mál af alvöru og þrýsti á stjórnmálafólk að ljúka afgreiðslu þessa frumvarps með viðeigandi hætti.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 10.4.2014 kl. 07:36

6 identicon

Þakka góða grein. Því miður þurfti þetta hræðilega slys til að koma umræðunni af stað. Ég mun gera allt í mínu valdi til að halda umræðunni áfram og sem betur fer aðrir líka, líkt og þessi grein sýnir. Mér finnst sárt að sjá að ekki hafi verið samþykkt að ætlað samþykki í stað ætlaðrar neitunnar á líffæragjöf.

Fyrir mér er þetta einfalt, horfum við á líffæragjöf á jákvæðan eða neikvæðan hátt! Samkvæmt könnunum þá vill meirihluti þjóðarinnar vera líffæragjafi og ætti því að hafa ætlað samþykki. Lokaákvörðunin er alltaf í höndum ættingja því er umræðan mikilvæg.

Góðir hlutir gerast hægt og nú vona ég að líffæragjafadagurinn komist á dagatalið svo hægt sé að opna umræðuna í þjóðfélaginu að minnsta kosti einu sinni á ári. Í framhaldi að því vona ég að við getum skráð vilja okkar á skrá sem gæti til dæmis verið ákvörðun sem þarf að taka áður en ökuskírteinið er afhent og jafnvel meðfram því merki í skírteininu sem segir hver vilji hvers og eins er. Með því væri umræða um líffæragjöf í ökuskólanum.

Steinunn Rósa Einarsdóttir (IP-tala skráð) 10.4.2014 kl. 21:06

7 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, við megum ekki vera teprur. Við verðum að ræða málin af yfirvegun meðan við erum ekki í tilfinningarússi. Ég held að boltinn hljóti að rúlla af stað ekki síðar en 29. janúar næstkomandi. Bestu þakkir fyrir undirtektirnar.

Berglind Steinsdóttir, 10.4.2014 kl. 22:45

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Vandinn við þetta þignmál er að það vantar í það alla pólitík. Væri einhver póitík í því þá væri það fyrir löngu komð á dagskrá!

Guðjón Sigþór Jensson, 11.4.2014 kl. 22:10

9 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég trúi því ekki, Guðjón. Þingmenn koma sér oft saman um þverpólitísk mál. Þau fara bara ekki endilega hátt. Hins vegar held ég að þau muni ekki klára mál um staðgöngumæðrun (sem ég er ekki hlynnt en finnst að þingmenn eigi að taka afstöðu til og klára). 

Berglind Steinsdóttir, 13.4.2014 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband