Ben Affleck og Matt Damon. Robin Williams?

Þegar Good Will Hunting var frumsýnd 1997 eða 1998 sá ég hana næstum örugglega í bíó. Félagarnir sem Ben og Matt leika eru mér minnisstæðir, ekki síst útlitið á þeim. Ben fannst mér ógurlega myndarlegur og Matt ógurlega lummó, og ekki af því að hann var gáfaða stærðfræðinördið heldur af því að hárið fór svo illa. Jú, jú, ég mundi líka að hann hefði getað reiknað með rassgatinu en minnti að hann hefði verið eldri en ég sá í myndinni áðan á RÚV.

En ég man ekki baun í bala eftir Robin Williams. Nú er hann nýlátinn og allir að rifja upp hvað hann var frábær leikari, lék með sársaukann í augunum, en ég verð að játa að ég hef ekki séð allar myndirnar hans og sennilega ekki þessa sem menn mæra mest, Good Morning, Vietnam, 10 árum eldri en Good Will Hunting, og að ég kunni víst aldrei almennilega að meta hann.

Stóru vonbrigðin voru Patch Adams (1998), um lækni sem notaði húmor í lækningaskyni. Ég hef alltaf verið áhugasöm um húmor, ekki síst sem vopn í baráttu stétta og kynja, því að mér finnst húmor gáfumerki. Húmor er vanmetinn og til dæmis held ég að gamanleikarar fái oft hvorki þá athygli né aðdáun sem þeir skilið. Ég skrifaði BA-ritgerðina mína um húmorinn í Hvunndagshetju Auðar Haralds þar sem hann er óspart notaður af aðalsöguhetjunni. Ég fór spennt að sjá Patch Adams í bíó og varð fyrir miklum vonbrigðum. Hún var tóm fíflalæti. Síðan hef ég ekki haft minnsta dálæti á Robin Williams. Og er með snert af samviskubiti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband