Þriðji laugardagur í ágúst

Ég hef tekið þátt í Reykjavíkurmaraþonskokki frá 1986, frá upphafi, að vísu ekki óslitið til ársins 2014. Það var strax gaman, enda skráði ég mig alltaf í skemmtiskokk, en nú er þetta að verða stjórnlaust stuð og ég passa alltaf að hafa þessa helgi lausa fyrir Reykjavík. Ég er bara ekki frá því að hrunið 2008 hafi breytt hugarfari fólks til hins betra, nú er meiri stemning fyrir skemmtunum sem allir geta tekið þátt í, ódýrari skemmtunum, útivist og hreyfingu.

Ég er ekki keppnismaður í íþróttum og hef aldrei haft metnað til annars en að komast í mark. Samt verð ég pirruð í hvert skipti sem ég hef ekki bætt mig þrátt fyrir að ganga mikið á fjöll, hjóla og synda. Hlaup eru bara svo allt önnur hreyfing og nú í ágúst undirbjó ég mig í fyrsta skipti, og alls ekki með því að hlaupa/skokka því að það finnst mér í eðli sínu drepleiðinlegt. Nei, mér var „kennd“ sú æfing að hlaupa upp og niður tröppur til að æfa þolið. Ég hef hjólað af stað í hádeginu eða á kvöldin og stokkið af hjólinu þar sem ég sé tröppur, hlaupið þær upp og niður í 10 skipti, þrjár mínútur eða svo, og haldið svo áfram ferð minni. Og ég bætti 10 km tímann minn um einhverjar mínútur síðan í jónsmessunæturhlaupinu í júní.

Þetta er sport við hæfi flestra. Ji, hvað það verður gaman 2015. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband