Hagvöxturinn

Ég var tæpa viku í Washington nýlega. Ég veit að ég er ekki fyrsta manneskjan til að fara til Bandaríkjanna en ég hef ekki farið í átta ár og var þá í afar vernduðu umhverfi í New York, má segja. Það kom mér á óvart hve gríðarlegur eftirlitsiðnaðurinn var. Í öllum opinberum byggingum þurfti maður að fara í gegnum vopnaleit. Gott og vel, Bandaríkjamenn hafa sopið á vondum meðulum. En sérstök friðarstofnun var varin af vopnuðum vörðum líka og verðirnir voru yfir línuna svo margir að það er augljóst að þeim hlýtur að leiðast verkefnaskorturinn. Hvað gerist ef þeim finnst sér eða vinnustaðnum ógnað?

Við þekkjum hvað þá gerist.

Svo fórum við hingað og þangað að borða og þar þvældist starfsfólkið hvert fyrir öðru. Við fórum meðal annars einu sinni á ægilega fínan veitingastað sem heitir 1789 og borðuðum lengst uppi í rjáfri. Það voru tveir og þrír þjónar í hverju dyragati að vísa leiðina.

Á hamborgarastöðum tók einn starfsmaður við pöntuninni, annar steikti hamborgarann, þriðji setti ostinn á, fjórði tók við greiðslu og fimmti afhenti. Helst til lítil framleiðni fyrir minn smekk.

Við fengum gott veður og ferðin var frábær en ég kem heim með hausinn fullan af spurningum um hagvöxtinn í þessu meinta kapítalíska ríki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband