Ábyrgðarstöður; ráðherra eða tónlistarkennari

Ég veit varla hvernig ég á að koma orðum að þessu. Í dag var tilkynnt um nýjan innanríkisráðherra. Ég held að valið hafi komið flatt upp á ýmsa af því að hingað til hefur mikið verið horft til sitjandi þingmanna. Ólöf er víst aðeins tuttugasti utanþingsráðherrann en nú þarf ég endilega að komast að því hvernig það er talið. Ég held að ráðherrar heimastjórnar hafi ekki endilega verið þingmenn. En ég er ekki viss. Á vef Alþingis finn ég lista yfir fyrstu 19 utanþingsráðherrana. Ólöfu verður sjálfsagt bætt á listann á morgun.

Ég man að þingmenn hafa lagt það til að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið betur með því að ráðherrar gegni ekki þingmennsku, enda eru bæði störfin full störf ef þeim er vel sinnt, og ég sé að unga fólkið er að velta þessu fyrir sér líka. Þetta var til umræðu hjá stjórnlagaráði þannig að þetta er gömul og gegn pæling.

Mér finnst því skynsamlegt að leita út fyrir þingliðið og engri rýrð varpað á þingmenn með því. Auðvitað skil ég svekkelsi metnaðarfullra þingmanna en ég held að þetta sé góð ákvörðun.

Fjölmiðlar keppast við að segja frá því að Ólöf hafi verið veik en að meðferðin hafi borið árangur. Eðlilega ræða menn það. En þótt ég trúi því að starf ráðherra sé erilsamt og krefjandi á það samt líka við um mörg önnur störf. Er endilega léttara að vera hjúkrunarfræðingur, kennari, lagermaður, starfsmaður í álveri, leikari, tónlistarmaður eða dagskrárgerðarmaður að jafna sig eftir erfið veikindi? Ég ítreka að ég geri ekki lítið úr verksviði ráðherra en ráðherra hefur aðstoðarmenn, ekki bara þessa pólitísku heldur ýmsa sérfræðinga til að vinna með sér, og getur ef til vill haft talsvert um það að segja hvernig dagarnir leggja sig.  

Að því sögðu óska ég Ólöfu velfarnaðar í leik og starfi. Mig grunar að við séum mörg sem sendum henni hlýja strauma og óskum henni alls hins besta í glímunni framundan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband